Íslenski sjávarklasinn og Hampiðjan hafa undirritað samstarfssamning þar sem Hampiðjan bætist í hóp 18 tæknifyrirtækja sem vinna að eflingu tækniþróunar fyrir íslenskan sjávarútveg innan klasans. Í samstarfinu verður sérstaklega lögð áhersla á að efla samstarf Hampiðjunnar og frumkvöðla í sjávarklasanum sem leitt getur til nýjunga og verðmætasköpunar. Hampiðjan hefur öfluga vöruþróun að leiðarljósi og verður sérstaklega horft til ýmissar nýsköpunar sem lýtur að veiðum og veiðarfærum framtíðarinnar.

„Við erum afar ánægð með að efla samstarf við eitt öflugasta tæknifyrirtæki á Íslandi,“ segir Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans. Það vill líka svo skemmtilega til að Hús sjávarklasans er einmitt staðsett í gömlu netagerð Hampiðjunnar á Grandagarði.

Hampiðjan

Á myndinni er Þór Sigfússon frá Íslenska sjávarklasanum ásamt þeim Harald Árnasyni og Guðbjarti Þórarinssyni frá Hampiðjunni við undirritun samningsins.

Reykjavík, 22. janúar 2016