Framleiðsla unninna ferskra sjávarafurða hófst fyrir alvöru í byrjun 10. áratugarins og jókst þá hægt og bítandi árin á eftir. Þessi framleiðsla dróst þó eitthvað saman með aukinni áherslu á vinnslu á sjó á árin 2003-2008. Eftir veikingu krónunnar árið 2008 hefur þetta þó snúist við samhliða því sem öll framleiðslukeðjan hjá þeim sem stunda þessa framleiðslu hefur verið aðlöguð ferskfiskvinnslunni.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fluttu út tæplega 35.000 tonn af ferskum flökum og bitum á árinu 2014 fyrir 38,5 milljarða króna samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Fimm bolfisktegundir eru nýttar í þessa framleiðslu af einhverju ráði, þ.e. þorskur, ýsa, ufsi, karfi og steinbítur en þetta eru jafnframt þær bolfisktegundir sem mest veiðist af hér á landi á hverju ári, að steinbíti undanskildum. Milli áranna 2000 og 2014 jókst útflutningsverðmæti ferskra afurða úr þessum fimm tegundum úr tæplega 11 milljörðum króna í 37 milljarða króna. Mikilvægustu markaðirnir fyrir afurðirnar eru Frakkland, Bretland, Belgía og Bandaríkin.

Mynd 1

Smellið á myndina til að stækka

 

Fimmföldun í útflutningi ferskra þorskafurða

Þorskur er fyrirferðarmesta tegundin í þessari framleiðslu en gríðarleg aukning hefur orðið á útflutningi ferskra þorskflaka og bita á síðastliðnum 15 árum. Á milli áranna 1999 og 2014 óx útflutningurinn úr 4.940 tonnum í 23.245 tonn og útflutningsverðmætin úr 5,8 milljörðum króna í 28 milljarða króna. Fersk flök og bitar verða sífellt stærri hluti verðmætasköpunar úr þorski, en á sama tímabili óx hlutur þeirra úr 6% í 31% af útflutningsverðmætum allra þorskafurða. Það samsvarar fimmföldun á 15 árum. Það hlutfall sem ferskar afurðir skapa af útflutningsverðmæti annarra tegunda hefur einnig aukist en árið 2014 voru 33% útflutningsverðmæta ýsu af ferskum afurðum, 13% karfa, 43% steinbíts og 10% ufsa.

Smellið á myndina til að stækka.

Smellið á myndina til að stækka.

 

Sjöföldun til Frakklands á sex árum og vöxtur til Bandaríkjanna

Frakkland er í dag langstærsti kaupandi ferskra íslenska sjávarafurða en þangað voru fluttar út ferskar þorskafurðir fyrir 12,6 milljarða króna árið 2014. Útflutningur ferskra afurða til Frakklands hefur aukist mjög hratt að undanförnu, sjöfaldast síðustu sex árin, úr 1.500 tonnum árið 2008 í u.þ.b. 10.000 tonn árið 2014. Mikilvægustu markaðslönd ferskra þorskafurða á eftir Frakklandi árið 2014 voru Bretland (4,8 ma. kr.), Belgía (4,5 ma. kr.) og Bandaríkin (3,2 ma. kr.).

Eftir mikinn samdrátt árin 2007-2011 hefur útflutningur ferskra þorskafurða til Bandaríkjanna aukist hratt undanfarin fjögur ár. Þar spila inn samdráttur í þorskveiðum á austurströnd Bandaríkjanna, bættir flutningar til Bandaríkjanna frá Íslandi og aukin framleiðsla ferskra afurða hér á landi. Smáir og stórir framleiðendur sjá nú tækifæri á Bandaríkjamarkaði en þar er stór og vaxandi kynslóð nýrra neytenda sem sækist eftir ferskri, hollri og sjálfbærri matvöru.

Smelltu á myndina til að stækka

Smelltu á myndina til að stækka

 

Flutningsgeta og þróun flutningakerfisins eru lykilatriði

Á undanförnum árum hefur íslenskur sjávarútvegur að mörgu leyti byggt upp einstakt samkeppnisforskot í framleiðslu ferskra afurða. Þetta samkeppnisforskot felst í því að búið er að sníða framleiðslukeðjuna þannig hún henti þessum afurðum og útflutningi þeirra sem best. Flutningsgeta og flutningakerfið til og frá landinu er þar í lykilhlutverki og áframhaldandi þróun þess mun hafa mikið að segja um mögulegum vexti útflutnings ferskra afurða í framtíðinni.

Fersku afurðirnar fara frá landinu með þremur flutningaleiðum. Með flutningaskipum og Norrænu til Evrópu, með fraktvélum til Evrópu og Ameríku og með farþegavélum til Evrópu og Ameríku. Flutningar ferskra afurða með skipum hófust af krafti fyrir nokkrum árum og hafa að megninu til staðið undir þeirri miklu aukningu sem orðið hefur í þessum útflutningi undangengin ár.

Barist er um laust fraktpláss í farþegavélum og þó flugferðum hafi fjölgað mikið frá Íslandi allra síðustu ár, og muni vafalítið gera það áfram á næstunni, er laust fraktpláss í hverri vél mjög takmarkað. Þá eru árstíðarsveiflur í flugi farþegavéla sem ekki henta útflutningi á ferskum fiski þar sem afhendingaröryggi allt árið um kring er forsenda traustra viðskiptasambanda. Stórflutningar með fraktvélum mun að sama skapi vaxa hægt en helsta hindrunin þar er að fraktvélarnar þurfa að koma með einhvern farm til baka til landsins svo þeir flutningar standi undir sér.

Uppbygging í leiðarkerfi íslenskra flugfélaga hefur skapað sjávarútvegsfyrirtækjum forskot í dreifingu afurða beggja vegna Atlantshafsins. Í framtíðinni mun uppbygging flutningakerfis þeirra og annarra flugfélaga hafa mikið að segja um þróun ferskfiskútflutningsins.

Framtíðin

Að auka áfram vinnslu ferskra bolfiskafurða í bestu gæðum er tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg og byggir á samkeppnisforskoti hans. Tækifærið liggur ekki síður í því að aðgreina ferskan fisk frá hefðbundinni iðnframleiðslu frystra og uppþíddra afurða samkeppnisþjóða okkar. Í því tilliti er mikilvægt að halda áfram þeirri uppbyggingu og gæðaaukningu sem hefur átt sér stað á undanförnum áratugum og fækka eða útrýma tilfellum þar sem varan stenst ekki ýtrustu gæðakröfur.

Fjölmargt bendir til þess að krafan um ferskan fisk muni aukast um heim allan á komandi árum. Neytendur í Evrópu og Norður-Ameríku kjósa í auknum mæli hreina matvöru sem þeir vita hvaðan kemur. Í þessu felst ótvírætt tækifæri fyrir Ísland í ljósi samkeppnisforskotsins sem myndast hefur í útflutningi ferskfisks til þessara markaðssvæða.

***

Í nóvember 2015 gaf Arion banki út ritið Íslensku sjávarútvegur – staða og horfur, sem unnin var í samvinnu við sérfræðinga Íslenska sjávarklasans. Þessi grein er stytt útgáfa af einum kafla ritsins.