Ný rannsókn um áhrif klasasamstarfs á nýsköpun innan sjávarklasans dregur skýrt fram að klasasamstarf er nýsköpunarfyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi til framdráttar. Með samstarfi má skapa vettvang fyrir myndun tengsla og trausts og auka verðmæti.

Í meðfylgjandi greiningu má lesa stuttan úrdrátt úr lokaritgerð Heiðdísar Skarphéðinsdóttur í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri.

 

[gdlr_button href=“https://sjavarklasinn.is/wp-content/uploads/2015/06/Greining-26-Juni2015-Klasasamstarf.pdf“ target=“_blank“ size=“medium“ background=“#7e7e7e“ color=“#ffffff“ with_border=“yes“ border_color=“#bbbbbb“]Sækja PDF[/gdlr_button]


Klasasamstarf nýsköpunarfyrirtækjum í sjávarútvegi til framdráttar

Aukin verðmætasköpun og gróska í sjávarútvegi hefur verið áberandi undanfarin misseri. Þessum nýja tíma í sögu sjávarútvegsins á Íslandi fylgja spennandi tækifæri sem öflugir frumkvöðlar taka að sér að grípa. Sjávarútvegurinn hefur þó um langt skeið verið undirstaða framþróunar í íslensku þjóðfélagi og með stórstígum tækniframförum er framleiðni sjávarútvegs á Íslandi með því besta sem þekkist í heiminum. Á undanförnum árum hefur áhugi aukist á hámörkun verðmætis aflans. Til að stíga næsta skref á vegferðinni þarf að fá inn í greinina vel þjálfað fólk með ferska nálgun og nýsköpun. Fyrirtæki hafa sprottið upp til að framleiða verðmæti úr því sem flokkaðist sem úrgangur í formi heilsu- og snyrtivara eða jafnvel lyfja.

Í nýrri rannsókn í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri voru skoðuð fyrirtæki og hagur þeirra af klasasamstarfi innan Íslenska sjávarklasans. Fyrirtækin í rannsókninni eru öll fremur nýstofnuð en tilurð þeirra er mismunandi. Codland er stofnað til að leggja áherslu á fullvinnslu fisks, Norðursalt gengur út á að framleiða vistvænt salt og Ocean Excellence er sérstaklega búið til fyrir þekkingarútflutning.

ritgerð2015

Virkjunarhringurinn, hvernig frumkvöðlar virkja gæði í umhverfi sínu (Sarasvathy, 2011)

Fyrirtækin eru öll sammála um að traust og heiðarleiki sé grundvöllurinn að góðum tengslum og telja að sín tengslanet hafi hjálpað mikið við að ná árangri í nýsköpun. Codland og Norðursalt ber sérstaklega saman um að það sé hagur af því að taka þátt í klasa til að mynda ný tengsl, fá hugmyndir og það hafi stuðlað að framþróun því það er mikilvægt að hafa hóp til að kasta á milli hugmyndum. Fyrirtækin sjá möguleika í frekara samstarfi á meðan allir hafi hag af en klasaumhverfið hjálpar við að miðla þekkingu og upplýsingum á milli, og búa þannig til traust og skapandi jarðveg til að starfa saman að nýsköpun.

Nýsköpun í klasaumhverfi

Meðan klasar þurfa ekki endilega að vera myndaðir til nýsköpunar er því ekki að neita að klasaumhverfi hlýtur að teljast kjörlendi fyrir frumkvöðla. Þar eru samankomin mörg fyrirtæki sem gjarnan starfa í sömu eða skyldum greinum. Slíkt býður þá gjarnan upp á tækifæri til að sameina kraftana og auka verðmætasköpun. Klasar geta boðið upp á betri tækifæri en annars til að mynda ný tengsl og treysta fyrri sem greiðir fyrir að nýjar hugmyndir nái að vaxa.

Með því að búa til formlegan ramma um tengsl fyrirtækjanna aðstoðar klasinn við að stækka tengslanet fyrirtækjanna og auka þannig samkeppnishæfni þeirra.

Raunveruleg tengsl

Þar sem þetta eru nýsköpunarfyrirtæki er verið að fást við nýjar áskoranir í hverju skrefi en eðlilegt er að þau stækki sitt tengslanet. Með aukinni markaðssetningu vara verður enn meiri þörf fyrir stærra tengslanet og Norðursalt er einmitt í þessum fasa þ.e. koma vöru sinni á framfæri. Codland er enn í rannsóknarfasa og því að mestu að vinna með öflug tengsl við fleiri framleiðendur og rannsóknarstofur. Ocean Excellence er svo að skima eftir erlendum tengslum sem hafa rétta staðsetningu í ákjósanlegu tengslaneti og nota það sem grunn til að mynda traust að viðskiptum.

Staðsetning í samkeppnisumhverfi

Codland gerir skýrt grein fyrir því að nálgun á fyrirtækið byggir á góðum aðgangi að hráefni; slógi, beinum, roði og fleiri aukaafurðum, ásamt vilja bakhjarla til að auka verðmæti. Norðursalt nýtir sér frábær framleiðsluskilyrði af náttúrunnar hendi á Reykhólum við Breiðafjörð, aðgang að hreinum sjó og jarðvarma til að vinna saltið á vistvænan hátt. Hjá Ocean excellence er þekkingin sem hefur safnast upp hjá bakhjörlum grundvallarforsenda þess.

Þar sem sjávarútvegur er jafn sterkur og hér á landi verður vægi hans mikið og stefna stjórnvalda hverju sinni mótar skipulag og samkeppnisumhverfi í sjávarútvegi eins og öðrum greinum, og kannski sérstaklega nýsköpun. Með sterkum sjávarútvegi verður eftirspurn eftir tækni og þjónustu. Hjá Codland er hvatinn að finna leiðir til að auka verðmæti úr úrgangi, eftirspurn er eftir að nýta gæði á landsbyggðinni eins og Norðursalt gerir og stöðug spurn til að auka hagkvæmni leiðir til að stofna Ocean Excellence.

Klasi er brúarsmiður á milli fyrirtækja
Rannsóknin dregur skýrt fram að klasasamstarf stuðlar að framþróun nýsköpunarfyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi. Fyrirtækjunum ber öllum saman um að hafa haft hag af því að vera í klasa sérstaklega til að víkka sjóndeildarhringinn og stækka tengslanetið. Mikið vægi sjávarútvegsins á Íslandi hefur orðið til þess að mikil þekking og reynsla hefur myndast á því sviði. Samfélagið hér er afmarkað og því þekkja menn til hvors annars en þannig er auðveldara að mynda traust. Þó að fyrirtæki séu í samkeppni sjá þau sér hag í að vinna saman á ákveðnum sviðum sé hagur fyrir báða aðila og því stofnun sjávarklasa nauðsynlegt til að undirbyggja frekari framfarir í íslenskum sjávarútvegi.

Klasasamstarf myndar forsendur fyrir trausti til að þróa samstarfsverkefni. Klasi fyrirtækja getur virkað sem brúarsmiður á milli fyrirtækja til að auðvelda samskipti og hrinda hugmyndum í framkvæmd.