Íslendingar veiða 20 milljónir þorska á ári, hafa fjórfaldað verðmæti hvers þorsks á 30 árum og nýta hvern þorsk 60% betur en gert er að meðaltali á heimsvísu. Íslenski þorskurinn hefur fært íslenskri þjóð 1.400 milljarða króna í beinar útflutningstekjur frá síðustu aldamótum og er nú seldur til meira en 60 landa í öllum byggðum heimsálfum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu sjávarklasans sem gefin er út í tilefni Dags þorsksins og lesa má í heild sinni hér að neðan eða sækja á PDF sniði hér.

 


 

Heill sé þér, þorskur

Í tilefni Dags þorsksins 24. september 2015

Það er einhvern veginn þannig með þorskinn að við tölum lítið sem ekkert um hann heldur tökum við Íslendingar honum meira eins og sjálfsögðum hlut. Þau örlög þorsksins að prýða einnar krónu peninginn eru lýsandi fyrir þetta en hann ætti ef til vill betur heima með Jónasi á tíuþúsundkallinum. Þegar vel er að gáð hafa fáar náttúruauðlindir skapað jafnmikil verðmæti og jafnmikil margföldunaráhrif í íslensku efnahagslífi. Veiðar á þorski lögðu grunninn að öflugum fisk­iðnaði á Íslandi, vaxandi fisktækniiðnaði sem nú er einn sá fremsti í heiminum og á allra síðustu árum hefur þorskur­inn svo rennt stoðum undir nokkur ný og fram­sækin fyrirtæki í heilsu- og lyfjaiðnaði.

cod-tolurEfnahagsleg áhrif þorsksins hérlendis eru gríðar­leg og þau geta vaxið umtalsvert ef rétt er á málum haldið. Út­flutningur á hefðbundnum þorskafurðum skilaði 90 mill­jörðum króna í tekjur fyrir Íslendinga á síðasta ári. Ef við bætum við útflutningi á vélum, hug­­búnaði og þekkingu til veiða og vinnslu þorsks og ýmsum öðrum þorskafurðum, t.d. niðursoðinni lifur og svo snyrtivörum, stoðefnum og fleiru sem unnið er úr afurðum þorsksins eru tekjur landsins af þorskinum langtum meiri en 100 milljarðar króna á ári. Það eru 10 milljón tíuþúsundkallar og rúmlega það, ár eftir ár. Það er í raun með ólíkindum hve þorskurinn hefur skapað Ís­lendingum mikil verðmæti í aldanna rás. Opinber gögn ná reyndar ekki lengra aftur en til síðustu aldamóta, en síðan þá hefur þorskurinn fært íslendingum tæplega 1.400 milljarða króna útflutningstekjur.

Íslendingar hafa veitt að meðaltali um 200.000 tonn af þorski á hverju ári síðastliðin 20 ár. Það eru 200 milljón kíló og í kringum 20 milljón þorskar. Það sem er einstakt við veiðar og vinnslu Íslendinga er að við nýtum stærstan hluta aflans í afurðir, ólíkt flestum nágrannaþjóðum okkar. Íslensk fyrirtæki nýta að jafnaði 75-80% þorsksins í ýmsar afurðir (og sum nálægt 100%) á meðan tæpur helmingur hvers þorsks fer aftur í hafið eða í sorpeyðingu í nágrannalöndum okkar við Norður-Atlantshaf. Þar hefur nýtingin aðeins verið um 50-55% á undanförnum árum. Rannsóknir Íslenska sjávarklasans benda þannig til að um 450 þúsund tonn af þorskafurðum fari til spillis í Norður-Atlantshafi á ári hverju. Betri meðferð þessa gríðarmikla magns af náttúrulegum próteinum, fitu og kalki ætti að vera kappsmál allra þjóða við Norður-Atlantshaf enda felst í þessu mikið tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar.

cod-afurdir

Þau verðmæti sem sköpuð eru úr vörum sem búnar eru til úr þorski hafa vaxið gífurlega á undan­förnum ára­tugum. Fyrir þrjátíu árum síðan, þegar þorsk­aflinn nam tæpri hálfri milljón tonna á ári bjuggu sjávar­útvegsfyrirtækin til um 40 milljarða út­flutnings­verð­mæti úr aflanum, mælt á verðlagi dagsins í dag. Síðan hefur aflinn minnkað um rúmlega helming en bein útflutningsverðmæti rúmlega tvöfaldast, sem sam­svarar meira en fjórföldun í útflutningsverðmætum á hvert kíló. Munurinn er sá að í stað útflutnings á heil­­frystum fiski og flökum á einsleita markaði eru mis­munandi afurðir þorskins nú í fleiri tugum og markað­irnir líka. Svo dæmi sé tekið skapa þorskhausar útflutningsverðmæti upp á 6-8 milljarða á ári og þorsk­lifur 5-6 milljarða útflutnings­verðmæti, samanlagt 11-14 milljarðar króna. Hvort tveggja fór að miklu leyti til spillis fyrir ekki svo löngu síðan og gerir það enn víða í öðrum löndum. Og íslenskar þorskafurðir eru fluttar til minnst 60 landa í öllum byggðum heimsálfum. 

cod-londYfir 100 milljarða króna verðmætasköpun á ári úr tugum mismunandi matvæla-, fæðubótaefna-, lækninga-, heilsu- og tækniafurða er síður en svo sjálfsagður hlut­ur. Við hjá Íslenska sjávarklasanum þreytumst seint á að segja frá íslenskum fyrirtækjum sem þróa frumlegar vörur úr þorskafurðum og ótrúlegar tækninýjungar til að auka gæði og hagkvæmni vinnslunnar. Aðdáun okkar á þessum frumkvöðlum og athafnafólki er síst minni en að­dáun Hannesar Hafstein á þorskinum sjálfum, en hann gekk e.t.v. lengst okkar Íslendinga í að lofsama þorskinn með orðsnilli sinni:

Þorsklof

Heill sé þér, þorskur, vor bjargvættur besti,
blessaða vera, sem gefur þitt líf
til þess að verja oss bjargræðis bresti,
bágstaddra líknarinn, sverð vort og hlíf.

Heyrðu vort þakklæti, heiðraði fiskur,
hertur og saltaður, úldinn og nýr!
Fyrir þinn verðleika fyllist vor diskur,
frelsi og þjóðmengun til vor þú snýr,

því ef þú létir ei lánast þinn blíða
líkam við strendurnar, hringinn í kring,
horaðir, svangir vér hlytum að stríða
og hefðum ei ráð til að ala vort þing.

Þú ert oss einlægust þjóðfrelsishetja,
þú ert sem dreginn úr almennings sál.
Mynd þín og fyrirmynd fögur oss hvetja,
föðurlandsástinni hleypa í bál.

– Hannes Hafstein

***

Þann 24. september næstkomandi efnir Hús sjávar­klasans til Dags þorsksins í fyrsta sinn. Markmið dagsins er að kynna íslensk fyrirtæki sem hafa þróað ýmsa tækni og vörur sem tengjast þorskinum. Á Degi þorsksins verður Hús sjávarklasans opnað öllum áhuga­­­­sömum og fjöldi íslenskra fyrirtækja mun kynna þær afurðir sem framleiddar eru úr þorskinum hér á landi og þá tækni sem þróuð hefur verið til að hámarka nýtingu og gæði afurðanna. Þá verður um 500 nem­endum í nokkrum grunn­skólum sérstaklega boðið á Dag þorsksins.

Skipulögð dagskrá verður vítt og dreift um Hús sjávar­klasans frá kl. 14-17 og munu gesti meðal annars fá tækifæri til að smakka fjölda ólíkra matvæla og fæðu­­bótarefni, kynnast lyfjafyrirtækjum og frum­kvöðlum í ólíkum geirum, allt frá hátækniiðnaði til fatahönnunar. 

Dagur þorsksins verður einnig haldinn í Portland, Maine í Bandaríkjunum og í Nuuk, Grænlandi í samstarfi við New England Ocean Cluster, KNAPK og Sermersooq Business Council. 

______________________________

Nánari upplýsingar veita:

Bjarki Vigfússon, hagfræðingur
bjarki@sjavarklasinn.is

Haukur Már Gestsson, hagfræðingur
haukur@sjavarklasinn.is

Þór Sigfússon, frkvstj. Íslenska sjávarklasans
thor@sjavarklasinn.is