Margir lögðu leið sína á jólamarkað Sjávarklasans sl. föstudag, 4. desember. Á markaðnum kenndi ýmissa grasa og var hægt að fá ýmsar nýjar og spennandi vörur úr sjávarútvegi sem hægt var að versla beint við framleiðendur og hönnuði.

Á markaðnum voru m.a. Íslenski sjávarklasinn með gjafapoka með ýmsum nýjungum úr sjávarútvegi, Dagný Land Design var með útihúsgögn úr rekaviði, Blámar með hágæða ferskan fisk og Ópal Sjávarfang með reyktan fisk.

Þar var líka borðspil frá Aflakló, Skeggi með jóladagatal, Dropi með jómfrúarþorskalýsi, Kristbjörg Keramiker með bolla, skálar og fleira, Icemedico með HAp+ og Valfoss með gjafavörur úr fiskroði. Taramar var með húðkrem, Sjávarsmiðjan með þaramaska og bað, Ankra með kollagen og margt fleira spennandi. Það var gaman að sjá hvað reykti og ferski fiskurinn vakti mikla lukku og greinilega kærkomið að fá góðan fisk í jólamánuðinum.

Þetta var í fyrsta sinn sem jólamarkaðurinn var haldinn og heppnaðist hann vel að öllu leyti. „Við vonumst til að gera hann enn betri og stærri á næsta ári“ segir Eyrún Huld Árnadóttir viðburðastjóri Íslenska sjávarklasans. „Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í þessu með okkur og vonumst til að sjá sem flesta aftur að ári.“

Jólamarkaður