Frumkvöðlafyrirtækjunum Florealis, Wasabi Iceland og Margildi hefur gengið sérstaklega vel að undanförnu og hafa þau öll fengið fjármögnun til að stíga næstu skref. Fyrirtækin eru öll með aðstöðu í Húsi sjávarklasans.

Frumkvöðlar

Forsvarsmenn fyrirtækjanna í frumkvöðlasetrum Sjávarklasans

Þróun og markaðssetning á jurtalyfjum

Florealis var stofnað árið 2013 og sérhæfir sig í þróun og markaðssetningu á skráðum jurtalyfjum. Fyrirtækið lauk nýverið annarri fjármögnun sinni upp á 50 milljónir króna. Á bakvið fjárfestinguna stendur hópur sérfræðinga úr lyfjageiranum og einkafjárfestar. Fyrirtækið þróar hágæða jurtalyf og stefnir að því að verða leiðandi framleiðandi slíkra vara á norðulöndunum.

Á bakvið Florealis stendur hópur einstaklinga sem á þá sameiginlegu ástríðu að auka gæði jurtalyfja og fagmennsku í greininni. Florealis hyggst nota fjármagnið til frekari vöruþróunar og til að styrkja sölu- og dreifingarkerfi fyrirtækisins. „Við erum glöð að þessum áfanga er náð“ segir Kolbrún Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri Florealis en hún hlaut hvatningarviðurkenningu frá Félagi kvenna í atvinnulífinu fyrir skömmu. Florealis hefur verið með aðsetur í Húsi sjávarklasans frá stofnun þess.

Wasabi ræktun í gróðurhúsum

Wasabi Iceland lauk einnig nýverið 50 milljón króna fjármögnun með einkafjárfestum. Fyrirtækið var stofnað á síðasta ári af Johani Sindra Hansen og Ragnari Atla Tómassyni en þá voru þeir báðir nýútskrifaðir verkfræðingar frá Háskóla Íslands. Hugmyndin kviknaði einmitt í tengslum við lokaverkefni þeirra þar sem þeir unnu úttekt á wasabiræktun. Wasabi Iceland er með aðsetur í Húsi sjávarklasans og mun ræktunin fara fram í gróðurhúsum Barra á Egilsstöðum.

Fjármagnið sem nú hefur fengist verður notað til að koma af stað fyrstu ræktuninni. Von er á fyrstu wasabi uppskerunni árið 2017 og hafa veitingahús í miðbæ Reykjavíkur þegar tryggt sér fyrstu uppskeruna. Fyrirtækið hyggst rækta wasabiplöntur bæði fyrir heimamarkað og til útflutnings.

Omega-3 olía úr loðnu, síld og makríl

Margildi er eitt þeirra fimm frumkvöðlafyrirtækja sem hlaut styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka fyrr í mánuðinum. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á lýsi úr loðnu, síld og makríl til manneldis. Fyrirtækið hefur þróað nýja aðferð til að fullvinna lýsi úr þessum uppsjávartegundum en aðferðin kallast hraðkaldhreinsitækni. Margildi er einnig með í undirbúningi byggingu á lýsisverksmiðju sem nýta mun þessa vinnsluaðferð. Stefnt er á að þar verði hafin starfsemi í lok ársins.