Athugun Íslenska sjávarklasans á veltu tæknifyrirtækja i klasanum leiðir i ljós að útflutningur þessara fyrirtækja hefur gengið vel  það sem af er árinu 2011 á meðan stöðnun ríkir á innanlandsmarkaði.

Fyrirtækin gera ráð fyrir að meðaltali um 10-15% vexti  í útflutningi.  Fyrirtækin, sem eru um 70 talsins, fluttu út tækjabúnað eða vörur tengdar honum fyrir rúma 16 milljarða kr. árið 2010 en  útflutningur á þessu ári er áætlaður að verði um 20 milljarðar kr.

Mikill vöxtur er í útflutningi á ýmsum tækjum og búnaði  fyrir skip og útflutningi tæknibúnaðar  tengdum  fiskvinnslu .  Mest aukning er  í sölu ýmis konar búnaðar í skip. Þar er meðal annars um að ræða tækni sem bætir orkunýtingu skipa, ýmis hugbúnaður  o.fl.    Útflutningur á tækjum og búnaði í skip  var um 1,8 milljarðar kr. árið 2010 en  áætlanir fyrirtækjanna gera ráð fyrir að þessi  útflutningur nemi að minnsta kosti 2,5 -2,6 milljörðum kr. á árinu 2011 en það er rösklega  40% aukning. Útflutningur  tæknibúnaðar tengdum fiskvinnslu  er áætlað að aukist úr 6 milljörðum kr. árið 2010 í rúma 8 milljarða kr. árið 2011 eða um tæpan þriðjung. Flestar tæknigreinar sjávarklasans virðast í sókn í útflutningi hvort sem er i framleiðslu fiskvinnsluvéla, kælitækni, hugbúnaðargerð  eða  grænni tækni.  Tæknifyrirtæki sem þróað hafa hvers konar umbúðir, pakkningar eða veiðarfæri  gera ráð fyrir minni vexti eða á bilinu 5-10%.  Ekki fengust upplýsingar um útflutning bátasmiðja.

Samkvæmt mati fyrirtækjanna ríkir stöðnun  í sölu á innanlandsmarkaði og tæknifyrirtækin hafa ekki væntingar um að breyting verði þar á vegna óvissu i sjávarútvegi.  Sala þessara fyrirtækja á innanlandsmarkaði  var um 11 milljarðar á árinu 2010 og virðist hafa dregið lítilsháttar úr veltu innanlands  milli áranna 2010 og 2011.   Fyrirtækin gera ekki ráð fyrir aukningu á eftirspurn á innanlandsmarkaði á næstunni þrátt fyrir að ljóst sé að uppsöfnuð endurnýjunarþörf er til staðar.

Í heild er því áætlað að velta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum verði um 31 milljarður á árinu 2011 og vaxi um  15% á milli ára.

Ekki fengust upplýsingar um fjölgun starfsmanna en hún er þó talin óveruleg. Þó hafa nokkur fyrirtæki, sem vaxið hafa mest, bætt við sig um samtals 30 starfsmönnum á þessu ári. Starfsmenn tæknifyrirtækja i sjávarklasanum eru rúmlega 1000 talsins, mestmegnis tæknimenntað fólk.

Unnið er að efnahagslegri úttekt á efnahagslegum áhrifum sjávarklasans sem heild en stefnt er því að kynna  úttektina síðar  í haust.

Nánari upplýsingar veitir Jóhann Jónasson hjá 3X í síma 8976794, Jón Ágúst Þorsteinsson hjá Marorku í síma 5828000, Þorsteinn I Víglundsson hjá Jarteikn  í síma 8200038 eða Þór Sigfússon hjá Íslenska sjávarklasanum í síma 6186200.

 

 

Íslenski sjávarklasinn er samstarfsvettvangur fyrirtækja í haftengdri starfsemi sem hefur að markmiði að efla samstarf um haftengda starfsemi á Íslandi og kynna þau tækifæri sem margháttuð starfsemi sjávarklasans getur falið í sér.  Sjávarklasinn hefur aðsetur hjá  Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands.