Á undanförnum áratugum hafa hafnir í fjölmörgum borgum Evrópu tekið miklum stakkaskiptum. Með breyttu atvinnulífi, minni fólksflutningum á sjó og breyttu eðli vöruflutninga um hafnir sem færst hafa frá borgarmiðjunni í nýjar stórhafnir hafa gömlu hafnarsvæðin víða tekið á sig nýja mynd og fengið nýtt hlutverk. Gamla höfnin í Reykjavík er um þessar mundir mitt í hringiðu slíkrar breytinga. 

Tilkoma Hörpu gjörbreytti ásýnd Austurbakkans og á næstu árum mun svæðið þar í kring taka gríðarmiklum breytingum með nýjum byggingum, sem nú er byrjað að grafa fyrir, og nýju umferðarskipulagi. Í holunni sem grafin hefur verið á Tollhúsreitnum (bílastæði Kolaportsins) má nú sjá gamla hlaðna hafnarbakkann; skemmtilegur gluggi inn í fortíðina sem minnir okkur á hve Gamla höfnin og Grandi eru byggð á miklum landfyllingum.

Í suðurbugtinni er fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu, m.a hvalaskoðun og sjóstangveiði, auk fjölmargra veitingastaða sem njóta vaxandi vinsælda. Þá er Icelandair Hótel Reykjavík Marina milli Slipps og Mýrargötu að ljúka við stækkun og hefur nýlega opnað afburða fallegt kaffihús sem fékk nafnið Kaffislippur.

Ánægjulegt er að sjá þessa uppbyggingu samhliða áframhaldandi starfsemi Slippsins við höfnina en með veru hans eimir enn af gamla tímanum sem gefur Gömlu höfninni í Reykjavík sinn einstaka svip og svæðinu öllu sögulega skírskorun. Það er mikilvægt að þróun hafnarsvæðisins til móts við nýja tíma varðveiti einnig og þjóni áfram hluta þess atvinnulífs sem þar á sér langa sögu. Þannig má byggja nútímalega borg sem þó hefur ekki gleymt eða glatað uppruna sínum og borg þar sem mikið líf og atvinna er á hafnarbakkanum. Slippurinn og sjávarútvegurinn sem nú er að mestu í Vesturhöfninni gera það að verkum að Gömla höfnin iðar af lífi og það gera skemmtiferðaskipin á Miðbakkanum einnig. Mörgum höfnum í Evrópu sem gengið hafa í gegnum svipaðar breytingar á undanförnum árum hefur ekki lánast jafnvel og Reykjavíkurhöfn að samræma nýja byggð og aukna ferðaþjónustu hinni rótgrónu atvinnustarfsemi hafnarinnar. Það virðist hins vegar ætla að takast ágætlega hér.

Horft frá Vesturhöfninni á Slippinn

Horft frá Vesturhöfninni á Slippinn

Í Vesturhöfninni og úti á Granda er svo feikimikil gerjun þessi misserin. Nýlega bættist Matarbúrið í hóp sérverslana sem komið hafa sér fyrir í verbúðunum á vesturenda Grandagarðs. Matarbúrið er sérverslun með nautakjöt. Þá er einnig von á að kökuverslunin 17 sortir opni í verbúðunum á næstunni.

Óhætt er að fullyrða að Grandinn sé að verða eitt mest spennandi svæði borgarinnar undir veitinga- og verslunarstarfsemi og raunar undir allar tegundir atvinnustarfsemi, hönnunarvinnu og nýsköpun. Fjöldi fyrirtækja hér á Grandanum eykst nú hratt, mikill áhugi er á vannýttu húsnæði og lóðum og fjöldi gesta hingað vestur eftir vex með ári hverju. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var en Grandinn var löngum hálf-lokað svæði sem gaf lítið sem ekkert af sér til borgarmyndarinnar. Því er af sem áður var og rekstraraðilar hér á svæðinu eru bjartsýnir á næstu misseri.

Skemmtilegt er að skoða gamlar ljósmyndir af Grandagarði en á myndunum hér að neðan má sjá hvernig svæðið allt er byggt á mikilli landfyllingu. Fyrsta myndin er tekin rétt eftir seinni heimsstyrjöld. Grandagarður er þá aðeins nýbyggður varnargarður fyrir höfnina. Á annarri myndinni, sem tekin var 1969, hafa Bakkaskemma (Hús sjávarklasans) og verbúðirnar sem liggja eftir götunni endilangri verið byggðar. Verbúðarskúrarnir tóku þá á sig brimið norð-vestanmegin þegar veður var vont. Það skýrir lögun þeirra og hvers vegna þeir eru gluggalausir þeim megin. Á þriðju myndinni má svo sjá hve Grandinn hefur stækkað mikið til dagsins í dag. Myndin sýnir líka hve mikið svæði er til frekari þróunar og uppbyggingar á svæðinu. Við hlökkum til nýrra tíma við Gömlu höfnina og Grandann.

Grandagarður rétt eftir seinni heimsstyrjöld.

Gamla höfnin rétt eftir seinni heimsstyrjöld.

 

Grandagarður 1969. Bakkaskemman (Hús sjávarklasans) er þarna nýrisið og verbúðirnar taka á sig brimið norð-vestanmegin.

Grandagarður 1969. Bakkaskemman (Hús sjávarklasans) er þarna nýrisið og verbúðirnar taka á sig brimið norð-vestanmegin.

Grandinn í dag.

Grandinn í dag.