Við kynnum með stolti fólkið sem heldur erindi og tekur þátt í umræðum á LYST – The Future of Food næstkomandi miðvikudag en um er að ræða 10 erlenda og íslenska áhrifavalda í matvælageiranum; fjárfesta, frumkvöðla, rannsóknarmenn, forstjóra og aðra framtíðarspekúlanta. LYST fjallar um þær hröðu breytingar sem matvælageirinn stendur frammi fyrir og hvernig upplýsingatæknin og matvælageirinn renna nú saman sem leiðir til ótal nýrra tækifæra og áskorana.
***
Sarah Smith
Sarah er rannsóknarmaður og hönnuður hjá Institution for the Future í Kísildal. Institution of the Future hefur síðastliðin 45 ár verið einn helsti ráðgjafi hins opinbera og stórfyrirtækja í Bandaríkjunum um framtíðarþróun heimsins. Sarah hefur lagt áherslu á að rannsaka framtíð matvælageirans.
Sarah mun fjalla um þær breytingar sem nú eiga sér stað í matvæla- og veitingageiranum og einnig koma með tilgátur um hvernig matvælageirinn mun líta út eftir 5 – 10 ár. Erindi hennar hefur mikla þýðingu fyrir matvælalandið Ísland sem verður jafnan fyrir sterkum áhrifum og er háð því sem gerist á erlendum mörkuðum.
Jon Staenberg
Jon er mjög reyndur fjárfestir sem starfar bæði í Seattle og í Kísildal. Jon, sem byrjaði starfsferil sinn sem markaðsstjóri hjá Microsoft, hefur fjárfest í yfir 250 sprotafyrirtækjum á 20 ára ferli sínum sem fjárfestir. Hann hefur fjárfest í fjölmörgum fyrirtækjum sem hafa farið á hlutabréfamarkað, líkt og Facebook og Infosys.
Auk þessa hefur hann hann stofnað fimm fyrirtæki, þar af tvö sem tengjast matvælageiranum, meðal annars fyrirtækið Hand of God Wines sem á og rekur vínekrur í Medoza í Argentínu, framleiðir vín og selur í Bandaríkjunum. Vínið er einungis fáanlegt gegnum netið. Jon Staenberg er nú að ljúka fjármögnun á stórum fjárfestingasjóði sem einungis mun fjárfesta í nýjum matvælafyrirtækjum.
Tim West
Tim er lærður kokkur og starfaði meðal annars við að matreiða ofan í starfsmenn Facebook, Airbnb og fleiri tæknifyrirtækja í Kísildal. Á síðustu árum hefur Tim einbeitt sér að því að breyta matvælageiranum, en það sem hann lærði á veru sinni hjá tæknifyrirtækjunum er að það er hægt breyta heiminum í gegnum tækni. Tim hefur unnið með fjölmörgum matarfrumkvöðlum um allan heim, meðal annars með því að nýta aðferðir sem fyrirtæki á borð við Facebook og Airbnb beita til að mæta þörfum neytenda framtíðarinnar.
Tim stofnaði meðal annars fyrirtækið FoodHackathon og hefur haldið slíkar keppnir víða um heim. Í tækniheiminum eru haldin svokallaðir Hackathon viðburðir þar sem forritarar og tæknifólk keppast um að leysa þrautir. Tim notar sömu forskrift til þess að leysa vandmál sem snúa að matvælageiranum og virkja frumkvöðla. Hér á landi hafa verið haldnir slíkir viðburðir á vegum Háskólans í Reykjavík og SFS sem kallast hnakkaþon.
Tim er vinsæll fyrirlesari um framtíð og möguleika matvælageirans og mun fjalla um hvernig það er að vera matarfrumkvöðull og hvernig hann sér framtíð þessa geira fyrir sér.
Brita Rosenheim
Brita er einn helsti greinandi matvælageirans í Bandaríkjunum. Hún rekur eigið ráðgjafafyrirtæki og gefur mánaðarlega út fréttabréf um stöðu mála í matvælageiranum. Mörg stærstu matvælafyrirtæki Bandaríkjanna og fjöldi fyrirtækja og frumkvöðla í tæknigeiranum og á fjármálamarkaði eru fastir áskrifendur. Vestanhafs þykja fáir sem fylgjast jafn vel með þeim gríðarmiklu breytingum sem nú eiga sér stað í matvælaiðnaðinum.
Brita mun fara yfir þær breytingar sem hafa átt sér stað í matvælageiranum síðustu misseri. Þá mun hún velta upp spurningum um hvað miklar fjárfestingar í nýsköpun í matvælgeiranum muni þýða fyrir rótgrónari fyrirtæki og þekkt vörumerki og hvernig rótgróin fyrirtæki geta betur mætt framtíðinni og nýjum samkeppnisaðilum.
Roger Berkowitz
Roger stofnaði og rekur fyrirtækið Legal Seafoods sem er með 33 sjávarréttaveitingastaði á austurströnd Bandaríkjana. Á veitingastöðum Legal Seafood er nær eingöngu íslenskur fiskur á boðstólnum. Roger mun fjalla um sjálfbæran sjávarútveg, ekki síst þau tækifæri sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir en hann hefur um árabil verið talsmaður sjálfbærrar nýtingar og bættrar umhverfisvitundar í sjávarútvegi.
Mikael Bonde-Nielsen
Mikael starfar hjá Coca Cola Corporation þar sem hann stýrir almannatengsladeild fyrirtækisins í Norður-Evrópu. Hann hefur starfað fyrir Coca Cola í yfir 10 ár en hann var áður lektor í stjórnmálafræði við Kaupmannahafnarháskóla.
Stórfyrirtæki á borð við Coca Cola stand frammi fyrir miklum breytingum, vegna aukinnar samkeppni frá smærri framleiðendum, vegna aukinna krafna neytenda í umhverfis- og samfélagsmálum og fleira. Á síðustu misserum hafa til dæmis borgir á borð við San Francisco bannað plastílát sem hefur mikil áhrif á fyrirtæki eins og Coca Cola. Mikael mun meðal annars fjalla um hvernig fyrirtæki á borð við Coca Cola geta tekist á við þessar áskoranir.
Hrund Gunnsteinsdóttir
Hrund hefur víðtæka og alþjóðlega reynslu sem hún hefur m.a. hlotið í gegnum störf sín fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Hrund er menntaður þróunarfræðingur sitjandi stjórnarformaður Tækniþróunarsjóðs. Síðustu fjögur árin hefur Hrund m.a. unnið að heimildarmyndinni InnSæi sem til stendur að frumsýna á næstu misserum. Myndin fjallar um persónulega reynslu Hrundar eftir að hún vann yfir sig, hvernig hún leitaði bæði inn á við og í ráðleggingar annarra. Myndin kemur inn á það hvernig fólk fjarlægist nærumhverfi sínu vegna þess hraða sem krafist er í nútímanum.
Við erum einstaklega spennt fyrir erindi Hrundar. Þrátt fyrir að LYST fjalli um framtíðina, þá er hún lítils virði ef við gleymum núinu og mikilvægi þess að njóta hverrar stundar.
Tómas Þór Eiríksson
Tómas Þór mun flaka þorsk á LYST – The Future of Food en hann er framkvæmdarstjóri Codland sem hefur það markmið að nýta 100% af aukaafurðum þorsks. Codland vinnur um þessar mundir að því að koma á fót verskmiðju til að vinna kollagen úr fiskroði í fæðubótarefni og snyrtivörur. Tómas er með MBA gráðu frá EADA viðskiptaháskólanum í Barcelona og HHL Leipzig. Tómas hefur auk þess víðtæka reynslu af fjármálamörkuðum og fjármálastjórnun fyrirtækja.
Tómas ólst upp í kringum þorskveiðar og vinnslu en fjölskylda hans rekur útgerðina Þörbjörn í Grindavík. Í erindi sínu mun Tómas fjalla um fortíð og framtíð verðmætasköpunar úr þorski á meðan hann flakar í sundur þorsk og sýnir fram á hvernig hægt er að skapa úr honum margvíslegar verðmætar afurðir. Samkvæmt heimildum verðum þetta að öllum líkindum fyrsti þorskurinn til að vera flakaður á sviði á viðskiptaþingi á borð við LYST.
Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún er formaður Samtaka iðnarins en hún er einnig á LYST sem fulltrúi íslenskra matvælafyrirtækja enda rekur hún og á Kjörís ásamt fjölskyldu sinni. Guðrún tók við stjórnartaumnum í Kjörís aðeins 24 ára gömul árið 1994, en seinna færði hún sig til í fyrirtækinu og gegnir stöðu markaðsstjóra í dag.
Til þess að móta framtíðina er mikilvægt að læra af fortíðinni, en það er mjög margt sem frumkvöðlar framtíðarinar geta lært af sögu Kjörís. Guðrún opnar LYST og er það okkur sannur heiður að fá hana til þess.
Bala Kamallakharan
Bala hefur á síðustu árum orðið mjög áberandi í íslenska sprotasamfélaginu og fjárfest og tekið þátt sem stjórnandi í mörgum af árangursríkustu sprotafyrirtækjum landsins. Þar að auki hefur Bala staðið fyrir árlegu sprotaráðstefnunni Startup Iceland. Bala fæddist á Indlandi en kynntist íslenskri eiginkonu sinni þegar hann var við nám og störf í Houston í Texasfylki. Hann hefur síðustu misseri beint sjónum sínum á matvælageirann og hefur myndað sér eintaka sýn á tækifæri í honum á Íslandi.
Bala mun stýra umræðum á LYST um mat, viðskipti og tækni ásamt Jon Staenberg, Tim West og Britu Rosenheim