_joe6467Sýningin Matur & nýsköpun var haldin í fyrsta sinn við mikla lukku sl. fimmtudag, þann 29. september í Húsi sjávarklasans. Íslenski sjávarklasinn stóð fyrir sýningunni í samstarfi við Landbúnaðarklasann og Matvælalandið Ísland. Tilgangurinn var að kynna nýsköpunarfyrirtæki og sprota sem vinna að nýsköpun og framþróun í mat hér á landi og kynntu um 30 fyrirtæki framleiðslu sína.

Alls mættu um 400 gestir á m&n. Ari Eldjárn sá um að hita upp mannskapinn og skapa réttu stemmninguna. Frumkvöðlarnir Búi Bjarmar Aðalsteinsson, Ingi Björn Sigurðsson og Heiða Kristín Helgadóttir buðu gesti velkomna og deildu reynslu sinni af frumkvöðlastarfi og nýsköpun í mat.

_joe6519Samhliða m&n fór fram keppnin um áhugaverðasta Matarsprotann sem var jafnframt verið að veita í fyrsta sinn. Alls tóku ellefu fyrirtæki þátt í keppninni og mátti þar meðal annars finna grænmetispylsur, íslenskt sinnep, franskt crépes, víski, gin og ákavíti, kísilheilsuvörur, mysudrykk úr íslenskum berjum og villijurtum. Sérvalin dómnefnd sá um að velja sigurvegarann en hana skipuðu Kjartan Örn Ólafsson frumkvöðull og fjárfestir, Edda Hermannsdóttir frá Íslandsbanka og Ari Fenger forstjóri 1912. Þau völdu Eimverk Distillery sem áhugaverðasta Matarsprota ársins 2016. Eimverk Distillery framleiðir áfengi úr hágæða íslensku hráefni og má þar nefna Flóka viský, Vor gin og Víti ákavíti. Markmiðið með Matarsprotanum er að vekja athygli á þeim krafti og grósku sem einkennir nýsköpun í mat og gefa frumkvöðlum tækifæri til þess að kynna hugmyndir sínar og áætlanir fyrir aðilum úr viðskiptalífinu. Stefnt er á að veita þessa viðurkenningu árlega.

Íslenski sjávarklasinn vill þakka þátttakendum og gestum innilega fyrir þátttökuna og komuna á m&n.

Á Facebooksíðu Íslenska sjávarklasans má sjá fleiri myndir frá viðburðinum, ljósmyndari var JOE SHUTTER.