Fjölmenni var á fyrsta fjárfestadegi Íslenska sjávarklasans sem haldinn var í Húsi sjávarklasans þann 25. september sl. Innan sjávarklasans á Íslandi eru fjölmörg fyrirtæki sem eru að þróa áhugaverðar nýjungar, allt frá stýranlegum toghlerum til nýrra lyfja og lækningavara úr sjávarafurðum. Að þessu sinni kynntu 14 fyrirtæki starfsemi sína fyrir áhugasömum fjárfestum.

Um 50 fjárfestar sóttu fjárfestadaginn og hvert nýsköpunarfyrirtæki hélt stuttfundi með fjárfestum þar sem starfsemi félagsins var kynnt, framtíðarsýn og markmið frumkvöðlanna. „Með þessu viljum við efla tengsl á milli fjárfesta og nýsköpunarfyrirtækja í sjávarklasanum og um leið benda á þá miklu grósku sem er í þessari grein,“ segir Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans. Að viðburðinum stóðu Íslandsbanki og Íslenski sjávarklasinn.

Hér að neðan má sjá viðtal við Þór Sigfússon framkvæmdastjóra Sjávarklasans, Tryggva Björn Davíðsson framkvæmdastjóra Markaðsviðskipta og frumkvöðlana Ólaf Pálsson frá Lipid Pharmaceuticals og Eggert Kjartansson hjá D-SAN Sótthreinsikerfum.