Tólf lítil tæknifyrirtæki í sjávarklasanum kynntu starfsemi sína og framtíðaráætlanir fyrir fullum sal af fjármögnunaraðilum og forsvarsmönnum útgerðafyrirtækja á fundi í Grindavík hinn 15. mars sl.  Fulltrúar allra viðskiptabankanna sóttu fundinn ásamt ýmsum fjárfestum og sjóðum. Fyrirtækin sem kynntu áætlanir sínar eiga það sameiginlegt að hafa þróað ýmsan búnað eða tækni við vinnslu sem stefnt er að því að auka útflutning á.  Þau fyrirtæki sem kynntu starfsemi sína eru Controlant, Dis, Gaia, Ice-West, iMonIT, Íslensk matorka, Kerecis, Mode Slurry Ice, Optimal, Zymetech og Trackwell.  Auk þeirra kynnti Orf líftækni starfsemi sína en fyrirtækið hefur meðal annars aðsetur í Grindavík.

Mörg af þeim fyrirtækjum sem kynnt voru stunda fullvinnslu af einhverju tagi og kom fram á fundinum að í undirbúningi er stofnun sérstaks klasa um fullvinnslu afurða á Íslandi með aðsetur í Grindavík. Þá er í undirbúningi á svæðinu ný verksmiðja sem mun vinna úr auka afurðum fisksins.  Framtíðarsýnin er að þessi verksmiðja breyti fiskislógi í verðmæt heilsubótarefni og lyf. Nefnt var að á Suðurnesjum eru nú rösklega tíu fyrirtæki sem hafa að markmiði margháttaða fullvinnslu afurða eins allt frá hausaþurrkun til próteinframleiðslu.

Pétur Pálsson framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík sagði á fundinum að ný tæknifyrirtæki sem sprottin eru upp úr sjávarútvegi opnuðu ný og spennandi atvinnutækifæri fyrir yngri kynslóðir. Pétur sagði einnig að þau fyrirtæki, sem þarna voru kynnt, væru aðeins brot af mikilli flóru þekkingarfyrirtækja í sjávarklasanum sem þyrfti að efla.

Á fundinum voru m.a. kynntir plástrar úr roði, snyrtivörur sem gerðar eru úr maga þorsksins, tækni sem bætir geymsluþol fisks, skynjarar sem fylgjast með m.a. hitastigi vörunnar frá því fiskurinn er veiddur og þar til hann er kominn í borð verslunar og ýmsar umhverfisvænar tæknilausnir.

Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans sagði ánægjulegast eftir svona fundi hve margir gestanna hefðu ekki gert sér grein fyrir þeim krafti sem er í tæknifyrirtækjum í sjávarklasanum. “Markmið okkar var að tengja saman frumkvöðla og fjárfesta og vekja áhuga fjárfesta á fullvinnslu og tæknifyrirtækjum í sjávarklasanum. Svo kemur bara í ljós síðar hvort þetta hafi skilað raunverulegum árangri,” segir Þór.

[imagebrowser id=2]