Eimskip er einn af fyrstu meðlimum Íslenska Sjávarklasans og við erum stolt af því að sjá þá ná stórum áfanga á vegferð sinni til sjálfbærni með rafvæðingu Storms og Grettis, grindkrönum Eimskips. Það þýðir að allir fjórir grindarkranar félagsins hafa verið rafvæddir, sem er ekki auðvelt verk að vinna. Bæði rafvirkjar og vélvirkjar Eimskips tóku þátt í verkefninu ásamt erlendum samstarfsaðilum, en breyta þurfti tæknibúnaði krananna til að nota rafmagn í stað dísilvéla. Verkefni þetta er hluti af safni sjálfbærniverkefna sem miðar að því að minnka kolefnisfótspor Eimskips um 40% fyrir árið 2030 sem ennfremur er í beinu samhengi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um loftslagsaðgerðir sem Eimskip leggur áherslu á.

Önnur verkefni innan verkefnasafnsins fela í sér samning við norska fyrirtækið Blueday Technology AS um hönnun og smíði búnaðar fyrir rafræna landtengingu skipa í Sundahöfn en þekkingarfyrirtækið Efla mun hafa umsjón með verkinu. Einnig hefur verið gerður samningur við fyrirtækið SairNico um breytingar á rafstýringum um borð í nýjustu skipum Eimskips, Brúarfossi og Dettifossi en með landtengingunni mun olíunotkun minnka um 160 tonn á ári sem jafngildir 24 hringjum umhverfis jörðina á fólksbíl.

Þetta er mikilvægur áfangi í orkuskiptum við Sundahöfn. Til hamingju Eimskip!