Samkvæmt frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra gætu framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni fengið styrk fyrir 10% af flutningskostnaði. Skilyrði er að varan sé að minnsta kosti hálfunnin á staðnum og að hún, eða hráefni í hana, sé flutt um að minnsta kosti 245 kílómetra leið.  Þetta er skref í rétta átt fyrir sjávarklasann þar sem jöfnun samkeppnisstöðu fyrirtækja um landið getur eflt nýsköpun í sjávarklasanum.

Um allt land eru starfrækt tæknifyrirtæki í sjávarklasanum.  Þessi fyrirtæki hafa flest orðið til í nánu samstarfi útgerðar og tæknimanna.   Síðan hafa þessi fyrirtæki hafið eigin útflutning á vörum sínum.

Það er ekki nema eðlilegt að nýsköpun í sjávarklasanum eigi sér stað nálægt sjávarútvegsfyrirtækjunum víða um land.  Það hefur orðið raunin hérlendis.  Á Vesturlandi eru fyrirtæki á borð við Skagann og Traust, á Vestfjörðum eru fyrirtæki á borð við 3X, á Norðurlandi er fyrirtæki eins og Frost, Sæplast, Vélaverkstæði Skagastrandar,  Raf, Vélfag og DNG.  Á suðurlandi eru fyrirtæki á borð við Formax.  Auk þess eru fjölmörg fyrirtæki í sjávarlíftækni með aðsetur víða um land eins og Primex, Norðurbragð og Kerecis svo nokkur séu nefnd.   Fullyrða má að engin önnur starfsemi, sem krefst sérhæfðs vinnuafls, hafi fest rætur jafn rækilega víða um land eins og tæknifyrirtæki í sjávarklasanum.  En er líklegt að fyrirtækin starfi áfram víða um land eða munu þau flytja sig um set til höfuðborgarsvæðisins þar sem bróðurpartur tæknifyrirtækja í sjávarklasanum er með höfuðstöðvar sínar?

Ljóst er að tæknifyrirtækin eru lang flest staðsett á Reykjavíkursvæðinu, um 70% þeirra.  Svo virðist vera sem fyrirtækin séu sett á laggirnar í samstarfi við útgerðarfyrirtæki úti á landi en þegar þau þurfa á auknu vinnuafli að halda og þurfa að standa straum af kostnaði vegna innanlandsflutnings á vörum sínum þá virðast þau fremur kjósa  að byggja upp sína starfsemi á Reykjavíkursvæðinu.   Þetta er í sjálfu sér skynjanleg ástæða.  Það eru hins vegar sterk rök fyrir því að gott sér að tæknifyrirtæki í sjávarklasanum séu sem næst vettvangi – í nánu samstarfi við útgerðir í landinu.  Þannig má telja að  mest nýsköpun eigi sér stað.

Mörg tæknifyrirtækja í sjávarklasanum hafa ekki verið fyrirferðamikil í styrkjakerfinu.  Flest þeirra hafa staðið á eigin fótum og hafa einblínt á að afla viðskiptavina en ekki byggðastyrkja.  Þetta er eiginlega þögli fyrirtækjahópurinn á landsbyggðinni sem vex og dafnar í frjálsum viðskiptum.  Það er hins vegar spurning hvort megi efla þessa grein frekar með skynsömum aðgerðum.  Eitt af því sem tæknifyrirtækin verða áþreifanlega vör við er að flutningur tækja til útflutnings er allt að tvöfalt dýrari fyrir þau en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.   Ekki er óeðlilegt að skoða hvort bæta megi samkeppnisstöðu tæknifyrirtækja utan Reykjavíkur með því að eyrnamerkja hluta af fjármunum sem fara til ýmissa byggðaverkefna Byggðastofnunar til frekari flutningsjöfnunar.

Nýtt frumvarp er skref í rétta átt en ljóst er að ef flutningskostnaður á tæki  frá Ísafirði til Skotlands er helmingi hærri en frá Reykjavík til Skotlands, eins og raunin er, þá er samkeppnisstaðan enn ójöfn.   Jöfnun samkeppnisskilyrða er besta byggðastefnan og þegar ofan á bætist að þessi stefna getur hugsanlega eflt tækniþróun í sjávarklasanum á landinu öllu, þar sem nýsköpunin verður nær útvegnum, þá er til nokkurs að vinna.  Frumvarpið er partur af skynsamri vaxtarstefnu fyrir atvinnulíf utan Reykjavíkur og á að verða fyrsta skrefið af fleirum í þessa veru.