Í síðustu viku skrifuðu Codland og Mjólkursamsalan (MS) undir samstarfssamning um þróun á nýjum tilbúnum próteindrykkjum þar sem hráefni beggja fyrirtækja verður notað. Codland vinnur að þróun kollagens sem er prótein sem unnið er úr roði þorsks og fleiri bolfiska. Codland hóf tilraunframleiðslu kollagens í samstarfi við kollagenverksmiðju á Spáni fyrir nokkru og hefur einnig verið í samstarfi við Matís og notið stuðnings Tækniþróunarsjóðs við þróun vöru sinnar.
Codland ráðgerir að stórauka framleiðslu kollagens úr þorskroði á Íslandi og vinnur að athugun á hagkvæmni þess að reisa kollagenverksmiðju á Íslandi. Vinnsla á þorskroði í kollgen er hluti af markmiði fyrirtækisins um að auka verðmæti þorsksins með bættri og hagkvæmri nýtingu aukahráefnis. Samningurinn við MS nú er stórt skref fyrir fyrirtækið í þessa átt en á næstu misserum munu fyrirtækin hefja þróun próteindrykkja sem munu innihalda kollagenprótein frá Codlandi.
Codland er eitt þeirra fyrirtækja sem varð til á vettvangi Íslenska sjávarklasans. Við hjá Íslenska sjávarklasanum óskum fyrirtækjunum til hamingju með samstarfið og óskum þeim farsældar á komandi misserum.