Þrír öflugir nýsköpunarklasar á sviði sjálfbærni, nýsköpunar og orkuskipta; Sjávarklasinn, Eimur og Blámi, hafa ákveðið að efla samstarf. Með þessu samstarfi er ætlunin að auka tengsl á milli frumkvöðla á Norðvestur- og Norðurlandi og frumkvöðla Sjávarklasans.

Þessir þrír klasar eiga það sameiginlegt að vinna að nýsköpun á ýmsum sviðum. Markmið Sjávarklasans er að auka nýsköpun í öllu er við kemur bláa hagkerfinu. Markmið Bláma er að styðja við nýsköpun í orkuskiptum á Vestfjörðum. Markmið Eims er að auka nýsköpun í tengslum við orkuauðlindir á Norðausturlandi.

Í samstarfinu felst meðal annars að frumkvöðlar Eims og Bláma geta fengið aðgang að vinnustöðvum og fundarýmum í Húsi sjávarklasans og frumkvöðlar í Sjávarklasanum geta nýtt sér tengslanet Eims og Bláma. Stefnt er að því að efla einnig sameiginlegt kynningarstarf þessara nýsköpunarklasa.

Landsvirkjun er bakhjarl þessa samstarfs.

„Við höfum mikinn áhuga á að tengjast kraftmiklu nýsköpunarfólki um allt land. Bæði Blámi og Eimur vinna að mjög áhugaverðum verkefnum sem við erum mjög ánægð með að geta tekið þátt í með þessu móti.“

Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans

„Frumkvöðlaferlið er aldrei línulegt. Frumkvöðlar eru alltaf að prófa hlutina og fara til baka, lagfæra og prófa aftur. Það ferli tekur mislangan tíma eftir því hvar verkefnið er statt, en það fer ekki síður eftir hvernig umhverfið styður við frumkvöðlana. Tenglanetið er því eitt af því allra mikilvægasta fyrir frumkvöðulinn. Því er mikill fengur fyrir nýsköpunarverkefni eins og Eim og Bláma að geta leitað til Sjávarklasans og allra þeirra innviða sem byggðir hafa verið upp á síðustu árum á þeirra vegum.“

Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir framkvæmdastjóri Eims

„Sjávarklasinn er dæmi um vel heppnaðan klasa sem ýtt hefur undir nýsköpun, samstarf og verðmætasköpum. Það er dýrmætt fyrir Bláma og okkar samstarfsaðila að fá tækifæri til að vinna með Sjávarklasanum og vera partur af því öfluga starfi sem þar er stundað.“

Þorsteinn Másson framkvæmdastjóri Bláma