Mikil fjölgun er um þessar mundir á nýsköpunarfyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi. Í kvöldfréttum RÚV var nýverið fjallað um grósku í nýsköpun í sjávarútvegi en merki um þessa þróun hefur mátt sjá á síðustu 3-4 árum. Ein vísbending um það er að á listum yfir nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi voru um það bil 5% fyrirtækjanna sem tengdust hafinu á einhvern hátt en á nýjustu listum yfir nýsköpunarfyrirtæki er hlutfallið orðið 10-15%. 

„Samkvæmt okkar upplýsingum eru um 40 nýsköpunarfyrirtæki sem stofnuð hafa verið á síðustu 3 árum sem vinna úr ýmsum hugmyndum sem tengjast hafinu,“ segir Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans og bætir við: „Ég er sannfærður um að aldrei áður hefur viðlíka fjöldi fyrirtækja verið stofnaður í tengslum við hafið. 

Engin ein skýring er á þessari miklu aukningu. Þó má benda á að fyrirtæki á þessu sviði hafa fengið meiri umfjöllun í fjölmiðlum á undanförnum árum. Þá hefur orðið vakning í sjávarútvegi fyrir þeim tækifærum sem felast í fullvinnslu og aukinn skilningur á mikilvægi þróunarstarfs eins og hjá Matís, Nýsköpunarmiðstöð, háskólum og víðar.

Þór segir að Hús sjávarklasans hafi sannað gildi sitt sem suðupottur hugmynda og vettvangur fyrir nýsköpunarfyrirtæki til að vinna meira saman. Hann segir að um 25 nýsköpunarfyrirtæki hafi nú þegar notað aðstöðu í frumkvöðlasetri Húss sjávarklasans. Sum séu útskrifuð og hafi stækkað við sig en önnur séu enn í vöruþróun. „Þetta frumkvöðlasetur hefur hjálpað mikið til og létt undir með litlum fyrirtækjum, sem hafa ekki þurft að íþyngja sér á fyrstu árunum með dýru húsnæði. Þau hafa komist inn í tengslanet Sjávarklasans og mörg náð fínum árangri.“ Frumkvöðlasetrið hefur verið stutt af Mannviti, Eimskip, Icelandair Cargo og Brim

En er eitthvað sem einkennir nýsköpunarfyrirtækin? Þór segir að fyrirtækin séu af ýmsum gerðum. „Í þessum hópi eru nýsköpunarfyrirtæki sem vinna að fullvinnslu sjávarafurða bæði sem heilsuefni og lyf. Í mörgum tilfellum er verið að meira en hundraðfalda verðmæti afurða. Við erum með gríðarleg tækifæri í að umbreyta okkar náttúrulegu afurðum í lyf og heilsuefni,“ segir Þór. Þá segir Þór að allmörg fyrirtæki hafi komið fram sem einblíni á þörunga, þjónustu við fiskeldi, tækninýjungar í fiskvinnslu, neytendavöru o.fl. „Áskorunin framundan er að gera þessi nýsköpunarfyrirtæki klár fyrir fjárfesta þannig að þau geti fjármagnað vöruþróun og vöxt. Mér finnst góð stemming á meðal fjárfesta að koma að spennandi fyrirtækjum. Nú þarf bara að tengja þessa aðila enn betur saman,“ segir Þór.

„Miðað við umfang haftengdra greina hérlendis þá er langt í land með að hlutfall sprotafyrirtækja í haftengdum greinum sé jafn hátt og það getur orðið. Það eru mörg vannýtt tækifæri í þessum greinum og við eigum hiklaust að stefna að því að ávallt sé að minnsta kosti fjórðungur sprotafyrirtækja á Íslandi sem tengjast hafinu á einhvern hátt. Þar höfum við sérþekkingu, gott orðspor erlendis og mikla reynslu.“