Aldrei fleiri frumkvöðlafyrirtæki í matvælum

-efla má nýsköpun með betra rekstrarumhverfi og samstarfi 

Á tímum heimsfaraldurs af völdum COVID-19 hefur berlega komið í ljós mikilvægi fæðuöryggis fyrir þjóð eins og Íslendinga.  Um leið og sjónum er beint að innlendri matvælaframleiðslu sést sú mikla gróska sem er í þessari atvinnugrein.

Aldrei áður hafa jafn mörg ný fyrirtæki á sviði matvæla- og heilsuefnaframleiðslu litið dagsins ljós hérlendis eins og undanfarin ár.  Fjöldi nýsköpunarfyrirtækja á þessu sviði er vísbending um að mikil tækifæri eru til vaxtar fyrir íslenskt atvinnulíf um allt land í matvælaframleiðslu.

Hvernig hefur nýsköpunarfyrirtækjum á þessu sviði vegnað og hvað þarf að gera til að styrkja stöðu þeirra enn frekar? Í nýútkominni skýrslu sem ber heitið “Lærum af reynslunni ” er leitað svara við þessum spurningum og birtar tillögur um mögulegar útbætur sem eflt geta enn frekar nýsköpunarumhverfið. Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem rætt var við telja að íslenskt umhverfi sé að mörgu leyti ákjósanlegt fyrir frumkvöðlastarfsemi í matvælaframleiðslu. Innlendar verslanir, neytendur og fjölmiðlar sýni nýjum vörum og nýjum fyrirtækjum mikinn áhuga og skilning. Flækjustigið lá mun meira í framleiðslunni sjálfri, háum kostnaði og síðar meira í dýru og flóknu ferli við að hefja útflutning.  Í skýrslunni er einnig bent á að samstarf á milli nýsköpunarfyrirtækja hefur verið lítið og það má efla.

Erfitt er að bera saman þau fyrirtæki sem rætt var við þar sem þau eru komin mislangt á veg? Þó má segja að nokkur atriði veki athygli í samanburðinum. Ef byrjað er að skoða þau fyrirtæki sem hafa vaxið hratt þá hafa þau innanborðs fólk með töluverða reynslu af rekstri og fyrirtækin hafa haft fjárfesta með frá því snemma í þróunarferlinu. Árleg meðal veltuaukning sem hlutfall af fyrsta árs veltu hjá þeim fyrirtækjum sem hafa fjárfesta með sér í liði er rúmlega tvöfalt meiri en hjá þeim sem hafa ekki fengið fjármagn frá fjárfestum.

 

Ef horft er til fyrirtækjanna sem eru að vaxa hægar, eru það almennt fyrirtæki sem hafa lagt megin áherslu á sölu innanlands, annað hvort til innanlandsneyslu eða til ferðamanna. Þau hafa þar með fundið umtalsvert fyrir samdrætti í ferðaþjónustu. Þau eru einnig að glíma við háan framleiðslukostnað innanlands, flutningskostnað og skort á stöðugleika í umhverfi.

Í skýrslunni er birtur listi yfir 10 aðgerðir sem eflt geta nýsköpunarfyrirtæki í matvælum og heilsuefnum:

  • Skoða þarf hvort auka megi undanþágur nýsköpunarfyrirtækja til að greiða opinber gjöld um einhvern tíma og þá ekki síst gjöld tengd starfsfólki.
  • Borið hefur á þekkingarleysi í tollafgreiðslu ESB ríkja í sambandi við stöðu EES ríkja sem leitt hefur til kostnaðar og tafa. Utanríkisráðuneytið þarf að auka upplýsingagjöf til ESB um þessi mál.
  • Auka þarf styrki til að vinna að markaðs- og sölumálum erlendis. Skoða ber hvort hvetja megi til samstarfs fyrirtækja í útflutningi með slíkum styrkjum.
  • Áfengislöggjöfin þarfnast endurskoðunar. Horfa þarf sérstaklega til minni framleiðenda í lögunum og hvernig megi bæta stöðu þeirra m.a. í tengslum við matarferðaþjónustu.
  • Eftirlitsiðnaðurinn er mikilvægur en það skortir gegnsæi, samstarf má auka á milli iðnaðar og eftirlitsstofana og setja skýrari vinnureglur.
  • Skoða ber hvernig efla megi útflutning með sameiginlegu vörumerki, ráðgjafaneti um útflutning og nánari samvinnu fyrirtækja.
  • Flutningskostnaður innanlands og á milli Íslands og annarra landa er íþyngjandi og skoða ber hvernig megi lækka hann fyrir frumkvöðlafyrirtæki.
  • Stuðningur við matarfrumkvöðla hjá Matís hefur reynst vel en huga þarf að því að koma upp öflugra atvinnueldhúsi og annarri aðstöðu fyrir matarfrumkvöðla sem verði samnýtt af fyrirtækjum.
  • Skoða ber hvernig hægt er að einfalda stofnun matvælafyrirtækja hérlendis en svo virðist sem það sé umtalsvert flóknara en í mörgum samkeppnislöndum.
  • Vekja þarf áhuga fjárfesta á þátttöku í matvælafyrirtækjum og skoða hvort hægt er að beita einhverjum skattalegum aðgerðum til þess.

“Lærum ef reynslunni” er samstarfsverkefni Íslenska sjávarklasans og Matarauðs Íslands í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Íslandsstofu.  Skýrsluna í heild má finna á vef svæðum Matarauðs Íslands og Sjávarklasans.

Nánari upplýsingar veitir Þór Sigfússon hjá Sjávarklasanum  í síma 6186200 og Brynja Laxdal hjá Matarauði Íslands í síma 8601969.

Sjá skýrsluna í heild á www.sjavarklasinn.is