Íslenski Sjávarklasinn og verkefni klasans sem nefnist “100% fish” er í einu aðalhlutverki í nýrri heimildarmynd á sjónvarpsstöðinni PBS í Bandaríkjunum sem nefnist “Hope in the Water”. Þættirnir, sem eru þrír, fjalla um verkefni og frumkvöðla víðsvegar um heiminn og hafa það að markmiði að sýna hvernig bætt umgengni við hafið getur skapað tækifæri.

Þátturinn sem fjallar um Íslenska sjávarklasann verður sýndur á CBS stöðinni hinn 3. júlí í gær. Þættirnir eru þegar komnir út á vefsíðu CBS og síðan fara þeir í dreifingu um allan heim. Framleiðendur þáttanna eru þeir David Kelley, sem framleitt hefur m.a. þættina Boston Legal, Ally McBeal og Chicago Hope, og Andrew Zimmern sem er þekktur framleiðandi þátta um matreiðslu í Bandaríkjunum. Leikstjóri þáttanna er Brian Peter Falk sem leikstýrt hefur fjölda kvikmynda í Bandaríkjunum. Þekktir einstaklingar kynna þau verkefni, sem fjallað er um. Á bakvið þetta verkefni standa bandarísku umhverfissamtökin Fedbyblue en stofnandi þeirra er Jennifer Bushman sem hefur verið leiðandi í umræðu um sjálfbærni í sjávarútvegi á heimsvísu. Hún heimsækir Íslenska sjávarklasann í byrjun júlímánaðar og mun hitta fjölda fjölda íslenskra frumkvöðla sem tengjast sjávarútvegi.

Í þriðja þættinum, sem sýndur er eins og áður sagði 3. júlí, eru Sjávarklasanum og nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi, gerð góð skil. Þar er m.a. fjallað um hvernig íslensk frumkvöðlafyrirtæki hafa breytt aukaafurðum þorsksins í verðmæt efni til lækninga og bættrar heilsu. Gísli Matthías Auðunsson matreiðslumaður í Vestmannaeyjum sýnir áhorfendum hvernig nýta má miklu betur aukaafurðir í matreiðslu og farið er í heimsókn til Ölgerðarinnar sem framleiðir orkudrykki úr m.a. fiskmeti í smstarfi við nysköpunarfyrirtækið Feel Iceland. Sýndar eru vörur sem framleiddar hafa verið úr íslensku fiskileðri og áfram mætti telja. Þá er sýnt hvernig Sjávarklasinn, Matís, Marel og önnur samstarfsfyrirtæki klasans hafa liðsinnt svæðum eins og fylkjunum sem umlykja Vötnin miklu (Great Lakes) í Bandaríkjunum, við að fullnýta sjávarafurðir þar ytra.

Nánari upplýsingar veitir Alexandra Leeper framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans á netfanginu alexandra@sjavarklasinn.is eða í síma 577 6200.