Samstarf eykst í Sjávarklasanum
-en stöðugt má gera betur!
Sjávarklasinn hefur reglulega tekið saman upplýsingar um samstarf fyrirtækja innan Húss sjávarklasans. Nýleg könnun leiðir í ljós að nokkuð vel hefur tekist til um að efla samstarf þeirra rúmlega 60 fyrirtækja sem eru í húsinu en tækifæri eru til þess að gera enn betur; ekki síst við að tengja fyrirtækin í húsinu við tengslanet Sjávarklasans bæði utanlands og innan. Niðurstöður þessarar athugunar geta vonandi nýst til að efla samstarf enn frekar í Sjávarklasanum og til undirbúnings fleiri setra af þessu tagi hérlendis sem erlendis.
Eitt af markmiðum Húss sjávarklasans er að stuðla að auknu samstarfi á milli fyrirtækja í húsinu og við tengslanet Sjávarklasans utan þess. Allt frá opnun fyrsta áfanga Húss sjávarklasans árið 2012 hefur markmiðið ávallt verið að búa aðlaðandi umhverfi sem hvetur til samtals og samstarfs. Árið 2021 var síðast gerð könnun á hversu mörg fyrirtæki eigi í einhvers konar samstarfi og var niðurstaðan sú að um 70% fyrirtækjanna hafa átt í samstarfi við eitt eða fleiri fyrirtæki í Húsi sjávarklasans. Í nýrri athugun sem gerð var á samstarfinu í janúar 2025 voru niðurstöður þær að tæplega 85% fyrirtækjanna hafi átt í einhvers konar samtali eða samstarfi við að minnsta kosti eitt eða fleiri fyrirtæki í húsinu. Við erum sátt með þessa niðurstöðu en teljum að enn sé hægt að gera betur.
Það sem einkennir fyrst og fremst samtöl innan hússins er að flestir viðmælendur okkar hafa hitt fulltrúa annarra fyrirtækja á sameiginlegum fundum eða við kaffivélina. Kaffivélarnar eru því enn að virka sem vettvangur fyrstu samskipta! Samkvæmt niðurstöðunum eru all margir frumkvöðlar og fyrirtæki í húsinu sem eru stöðugt úti með klærnar til að styrkja sitt tengslanet. Þetta eru fyrirtæki sem annað hvort eru komin með vöru eða þjónustu á markað og vilja útvíkka sitt tengslanet eða eru að leita fjárfesta eða tengsla við vöruþróun.
Dæmi eru um að tæknifyrirtæki séu að ræða saman um lausnir og að samnýta þekkingu. Þá eru fyrirtæki í húsinu sem beinlínis eru að bjóða margvíslega ráðgjafar- eða tækniþjónustu innanhúss en þau eru innan við 10% fyrirtækja í húsinu. Sum þessara fyrirtækja hafa reynst gríðarlega mikilvæg í sambandi við styrkjaöflun, ýmsa almenna þjónustu og tengingar við fjárfesta.
Fyrirtæki sem sinna þróun eða sölu í tengslum við sjávarútveg eða fiskeldi hafa átt einna nánasta samstarf í húsinu. Það á ekki síst við um fiskeldið en þar hafa m.a. þjónustufyrirtæki og tæknifyrirtæki verið að ræða saman um samstarf varðandi búnað í tengslum við öryggismál, gæði o.fl.
Mörg dæmi eru um að tengslanet Sjávarklasans hafi verið nýtt til að tengja fyrirtæki í húsinu við erlenda eða innlenda aðila. Tengslanet klasans utan Íslands sem hefur farið hratt vaxandi hefur þannig komið að notum fyrir nokkur fyrirtæki í húsinu. Tengslanet klasans við innlenda sérfræðinga eða fyrirtæki sem eru samstarfsaðilar klasans hefur einnig skilað sér á margan hátt til íbúa Húss sjávarklasans. Nýjar tengingar hafa m.a. myndast við innlenda sérfræðinga, bæði hér og erlendis, sem látið hafa af störfum en eru reiðubúnir að liðsinna frumkvöðlum við verkefni þeirra. Hér teljum við í Sjávarklasanum að getum gert betur og reynt að laða fleiri einstaklinga til að mentora frumkvöðla og um leið að auka samstarf við stór samstarfsfyrirtæki utan klasans sem geta liðsinnt frumkvöðlum á ýmsan hátt.

Á myndinni hér að ofan má sjá tengingar á milli fyrirtækja og sprota í Húsi sjávarklasans. Ef grannt er skoðað má sjá að einstök fyrirtæki eru mjög dugleg í tengslamyndun innan húss. Þessi fyrirtæki eiga ekkert eitt sameiginlegt annað en að hafa innbyrðis fólk sem hefur lagt rækt við tengslamyndun.
Viðmælendur nefndu að tækifæri væri til þess að gera meira af því á opnum viðburðum að láta fyrirtækin segja stuttlega frá því sem þau eru að gera og hverjar þeirra áskoranir eru. Þetta væri hægt að gera á stuttum viðburðum sem væru hugsaðir sem tengslaviðburðir. Slíkir viðburðir hafa verið haldnir reglulega í Húsi sjávarklasans en þó aðallega til þess að kynna fyrirtækin fyrir almenningi. Viðmælendur nefndu að samstarf hefði komist á við önnur fyrirtæki eftir spjall í föstudagskaffinu, sem er sameiginlegur viðburður á föstudagsmorgnum í Húsi sjávarklasans. Vikulega tekur þannig eitt fyrirtæki í húsinu að sér að bjóða upp á kaffi og kynna starfsemi sína um leið. Viðmælendur nefndu þó að í föstudagskaffinu væri mjög algengt að fólk settist við hlið samstarfsfólks og tengdist lítið öðru fólki í gegnum þessa sameiginlegu stund í klasanum. Einhvern veginn þarf að blanda hópnum betur án þess að þvinga fólk til þess.
Sjávarklasinn hyggst halda fleiri fundi þar sem hópar í svipuðum rekstri í klasanum, bæði þeir sem eru í húsinu og samstarfsfyrirtæki utan þess, hittast. Þessir hópar eru m.a. tæknifyrirtæki tengd fullvinnslu eða gervigreind, fyrirtæki í 100% nýtingu, sölu- og branding o.þ.h.
Svo eru það fyrirtækin sem eru ekki í neinu eða mjög litlu samstarfi við önnur fyrirtæki eða sprota í Húsi sjávarklasans en þau eru ekki mörg. Sum þeirra eru í óskildum rekstri og skiljanlegt að þar hafi lítil tengsl myndast. Þó verður að nefna að til að mynda arkitektastofurnar í húsinu, sem virðast vera í fremur ótengdum rekstri frá bláa hagkerfinu, eru að vinna m.a. með fiskeldisfyrirtækjum, hanna Grandasvæðið og fleira. Í 13 ára sögu hússins hafa einnig verið áhugaverð dæmi um fyrirtæki og einstaklinga í starfsemi sem ekki hefur tengst beint bláa hagkerfinu, sem hafa samt leiðst inn á þá braut eftir að hafa haft aðstöðu í Húsi sjávarklasans!
Sum þeirra fyrirtækja sem minnst tengjast öðrum hafa verið tiltölulega lengi í húsinu og eru kannski komin yfir nýjabrumið sem fylgir nýju húsnæði og umhverfi. Velta er því mikilvæg í húsinu og hún hefur verið að meðaltali um 10-15% ári undanfarin ár. Þá hafa frumkvöðlarýmin, sem bjóða upp á borð til leigu, verið mikilvæg til þess að auka veltu og fá inn meiri breidd af sprotum. Í samtali við þessi fyrirtæki hefur komið skýrt fram að þau eru með opnar dyrnar og tilbúin að hitta frumkvöðla og önnur fyrirtæki en hafa lítið sýnt frumkvæði í því. Það er því verkefni nýju íbúa hússins að hitta þessi fyrirtæki og sjá hvort tækifæri séu til einhvers konar samstarfs.
Fimm hópar eða fyrirtæki sem tengjast fjárfestingum eru í Húsi sjávarklasans og hafa flestir þessara aðila verið mjög jákvæðir að hitta önnur fyrirtæki, mentora og búa til tengsl. Mikil verðmæti liggja í því að hafa á sama stað fólk í fjármálum og nýsköpun og þessi tengsl þarf að virkja enn betur.
Á heildina er litið hefur að mati viðmælenda okkar tekist að skapa gott andrúmsloft í Húsi sjávarklasans og starfsfólk er yfirleitt opið fyrir samstarfi. Á hinn bóginn er mikilvægt að vinna stöðugt í því að viðhalda og efla þessa samvinnu sem í raun er grundvöllur klasastarfsemi. Umhverfi sem hvetur til samstarfs er ekki sjálfgefið en ef vel tekst til getur það skapað einstök tækifæri til að efla fyrirtækin í klasanum og byggja sterkara tengslanet þeirra einstaklinga sem þar starfa.
Höfundar: Þór Sigfússon, Alexandra Leeper og Oddur Ísar Þórsson.