Úrvalslisti sjávarklasans: ellefu fyrirtæki valin
Ellefu ný fyrirtæki og sprotar hafa verið valin af Sjávarklasanum sem áhugaverðustu fyrirtækin í tæknigeiranum sem tengist Sjávarklasanum. Fyrirtækin starfa á mjög fjölbreyttu sviði, allt frá nýtingu þörunga og gervigreindar til bættrar orkunýtingar og öryggis sjófarenda.
Sjávarklasinn hefur tekið saman lista yfir þau nýju tæknifyrirtæki og sprota, sem vert verður að fylgjast með á komandi misserum. Þessi fyrirtæki, sem eru ellefu talsins, eiga það sammerkt að kynna nýjungar sem eiga erindi á stærri markaði og sum þeirra hafa þegar náð fótfestu á erlendum mörkuðum og vakið athygli utan Íslands. Þessi listi er alls ekki tæmandi og marga aðra sprota mætti nefna sem við munum fylgjast með á komandi árum.
Ekkert eitt einkennir þennan hóp fyrirtækja sem hér verða nefnd. Þó má benda á að röskur helmingur fyrirtækjanna hefur þróað tækni sem sparar orku og þá eru öryggi sjófarenda einnig verkefni nokkurra þeirra. Nýting gervigreindar er einnig stór þáttur í nýsköpun margra þessara fyrirtækja.
Flest fyrirtækjanna hafa þróað hugbúnað eða tækni sem ekki er til staðar á markaðnum eða kemur sem umtalsverð viðbót við þá tækni eða þjónustu, sem er til á markaðnum. Þessar nýjungar skapa þannig mikil tækifæri fyrir þessi fyrirtæki en um leið er oft snúið að kynna útgerðum annarra landa nýjungar, ólíkt þeim íslensku. Nokkur fyrirtækjanna eru þó að horfa til fleiri markhópa eins og flutningaskipa og strandgæslu.
Fyrirtækin á lista Sjávarklasans að þessu sinni eru í starfrófsröð eftirfarandi: Alda, Ankeri, Greenfish, Hefring Marine, Learn Cove, Marea, Oceans of data, Optitog, Sea Growth, Sidewind og Visk.
Af þessum ellefu fyrirtækjum eru konur stofnendur eða meðstofnendur í sex þeirra sem er nokkur breyting frá því þegar Sjávarklasinn tók saman fyrst upplýsingar helstu tæknifyrirtæki í klasanum árið 2012. Þá voru lang flest tæknifyrirtæki í klasanum stofnuð án þátttöku kvenna. Fyrir röskum tíu árum, þegar klasinn tók fyrst saman upplýsingar um nýsköpunarfyrirtæki voru karlar stofnendur nær allra tæknifyrirtækja sem sinntu hafsækinni starfsemi en konur stofnendur nær allra heilsu- og bætiefnafyrirtækja sem nýttu afurðir úr hafinu.
Oft ríkir mikil íhaldssemi í rekstri margra útgerða utan Íslands og viðkvæðið því oft þegar ný tækni er kynnt, “tæknin sem við höfum núna er nógu góð.” Ný tækni fyrirtækjanna er því, þrátt fyrir að sýna umtalsverðan ábata fyrir kaupendur, töluverð áskorun í sölu- og markaðsmálum.
Einn helsti styrkleiki íslenska nýsköpunar-umhverfisins er öflugt samstarf íslenskra fyrirtækja og nýsköpunar-fyrirtækja. Þau fyrirtæki, sem hér eru nefnd, hafa átt gott samstarf við fyrirtæki í útgerð, flutningum og þörungaframleiðslu. Mörg fyrirtækjanna hafa notið aðstoðar útgerða sem hefur gert þeim kleift að prófa nýja tækni um borð í skipum eða í vinnsluhúsum. Þessi sterku tengsl eru ekki áberandi í öðrum löndum og mikilvægt er að halda í þessa góðu samstarfshefð.
Nokkur þessara nýsköpunarfyrirtækja munu kynna sig fyrir fjárfestum á fjárfestadegi Sjávarklasans hinn 11. október næstkomandi. Þar gefst fjárfestum tækifæri til að kynnast nánar tæknifyrirtækjum, eins og þeim sem hér eru nefnd, en einnig fyrirtækjum sem eru að hasla sér völl á heilsumörkuðum með m.a. ýmsar afurðir úr hafinu svo eitthvað sé nefnt.
Við óskum þeim fyrirtækjum, sem komust á topp ellefu lista Sjávarklasans til hamingju og óskum þeim velfarnaðar um leið og við bjóðum þeim áfram aðstoð okkar.
Teymin á bakvið fyrirtækin ellefu.
Hægt er nálgast nánari upplýsingar um fyrirtækin á vefsíðum þeirra:
Hefring Marine á Hefringmarine.com
Learn Cove á Learncove.com
Sea Growth á Seagrowth.bio
Ration á Ration.is
Alda á Stigaolduna.is
Optitog á Optitog.com
Sidewind á Sidewind.is
Greenfish á Greenfish.is
Ankeri á Ankeri.net
Oceans of data á Oceansofdata.co
Marea á Marea.is
Nánari upplýsingar veita: Alexandra Leeper, Alexandra@sjavarklasinn.is og Þór Sigfússon, Thor@sjavarklasinn.is