Mikil ásókn hefur verið í nám hjá Sjávarakademíunni og eru nú þegar komnar yfir 80 umsóknir um nám í akademíunni í haust. Það er fimmfalt meira en gert var ráð fyrir við stofnun hennar fyrr á árinu.
Þennan áhuga má rekja til vakningar á meðal ungs fólks um tækifærin í bláa hagkerfinu, umhverfismálum og sjálfbærni.
Sjávarakademían er samstarfsverkefni Sjávarklasans og Fisktækniskólans. Akademían býður upp á nám sem stendur yfir í eina önn og er áhersla lögð á nýsköpun, sjálfbærni og tækifæri í bláa hagkerfinu. Námið fer fram í Húsi sjávarklasans á Grandanum en einnig er lögð áhersla á að nemendur fari í kynnisferðir í haftengd fyrirtæki á Suðurnesjum og tengi verkefni sín sem mest fyrirtækjunum beint.
Í Sjávarakademíunni hitta nemendur frumkvöðla og kynnast því hvernig þau koma hugmynd í framkvæmd, læra að stofna fyrirtæki, kynnast fjölmörgum tækifærum til að nýta betur sjávarauðlindir, læra um sjálfbærni og umhverfismál.
„Með þessu samstarfi við Sjávarklasann um Sjávarakademíuna erum við greinilega að ná betur til ungs fólks“, segir Ólafur Jón Arnbjörnsson skólastjóri Fisktækniskólans. “Við erum líka á réttum tíma þar sem aldrei í sögunni hefur jafn mikið verið rætt um fæðuöryggi hérlendis eins og undanfarna mánuði og tækifærin í þeim efnum í hafinu við Ísland eru mikil”.
Haustnámið er stutt af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Verkefnisstjóri Sjávarakademíunnar er Sara Björk Guðmundsdóttir sem veitir nánari upplýsingar í síma 777-0148 og netfang sarabjork@sjavarklasinn.is