Klasi Seafood Grimsby & Humber og Íslenski sjávarklasinn skrifuðu í dag undir samstarfsyfirlýsingu í Húsi sjávarklasans. Samstarf Íslendinga og Breta tengt sjávarútvegi hefur um árabil verið kraftmikið og með þessari yfirlýsingu er vilji til að efla það enn frekar.
Undir yfirlýsinguna rituðu Simon Dwyer framkvæmdastjóri Seafood Grimsby & Humber og Þór Sigfússon stjórnarformaður Íslenska sjávarklasans. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var viðstaddur athöfnina ásamt sendiherra Breta á Íslandi, Michael Nevin.
Í yfirlýsingunni eru meðal annars sett sameiginleg markmið um að efla samstarf á milli frumkvöðla og fyrirtækja á Humberside svæðinu og á Íslandi. Ætlunin að auka veg nýsköpunarfyrirtækja sem tengjast hafinu og örva þau til að efla einnig tengsl yfir landamæri.
Í yfirlýsingunni felst m.a. að klasarnir munu leita leiða til að efla samstarf í tengslum við Brexit. Íslensk tæknifyrirtæki bjóða ýmsar áhugaverðar lausnir í tengslum við fiskveiðistjórnun sem geta nýst þegar Bretar taka yfir stjórnun á sínum sjávarútvegi.