Laugardaginn 14. október sl undirrituðu Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Íslenska Sjávarklasans og Ronny Isaksen, framkvæmdarstjóri Linken Næringshage AS í Bátsfirði Noregi, yfirlýsingu um samstarf við stofnun sjávarklasa í Norður-Noregi.
Bátsfjörður er í Finnmörku og búa tæplega 2300 manns í bænum. Aðalatvinnuvegur eru fiskveiðar og landa þeir 90 þúsund tonnum af hvítfiski árlega. Í Bátsfirði eru nokkur af stærstu útgerðarfyrirtækjum Noregs með aðstöðu og eru þau spennt fyrir samstarfi um Sjávarklasa á þessum slóðum.
Undirbúningur samstarfsins hófst síðastliðinn vetur þegar fulltrúar frá Bátsfirði komu í heimsókn í Íslenska sjávarklasann. Stefnt er að því að klasinn komi til með að sinna öllum helstu svæðum í Norður-Noregi.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Þór Sigfússon og Bertu Daníelsdóttir frá Íslenska sjávarklasanum skrifa undir samninginn við Ronny Isaksen frá Noregi.