Tvítug stúlka ræktar melónur í Borgarfirði og Íslendingar virðast ekki átta sig á mikilvægi samfélagsmiðla fyrir landkynningu. Þetta kom fram meðal fyrirlesara á LYST.
Viðburðurinn LYST – Future of food í samstarfi við Icelandair Cargo, KPMG, Matarauð Íslands og Landbúnaðarklasann einblínir á frumkvöðlastarfsemi og matvæli framtíðarinnar en slíkir viðburðir eru ekki haldnir án stuðnings góðra aðila og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Mörg áhugaverð erindi litu dagsins ljós frá innlendum og erlendum fyrirlesurum. Stella Blöndal yngsti grænmetisræktandi landsins sagði frá sinni vegferð, Oliver Luckett var með skemmtilegan fróðleik um Ísland á samskiptamiðlum og hvað það er sem ferðamennirnir eru að sækjast eftir. Sara Roversi er þekktur frumkvöðull í matvælaiðnaðinum og sagði okkur frá sínu starfi og hvernig hún tók hóp af nemendum í heimsreisu til að kynna þeim mismunandi matarmenningu. Margrét Pála stofnandi Hjallastefnunnar leiddi ráðstefnugesti í allan sannleikann af hverju leikskólarnir hennar bjóða foreldrum kvöldmat til kaups tvisvar í viku.
Matarmenning í heiminum, búskapur ungra bónda, átak til að sporna við matarsóun, þjónusta við foreldra leikskólabarna og kynningar á frumkvöðlafyrirtækjum skildu ráðstefnugesti innblásna af hugmyndum í lok dagsins.
Um helgina var síðan haldið fyrsta matarhakkaþonið á Íslandi. Þá komu hópar saman og hökkuðu í sig vandamál en komu einnig fram með skemmtilegar nýjungar.
Dómnefndin sem skipuð var Búa Bjartmari Aðalsteinssyni, Dögg Ármannsdóttir, Einari Thor og Gísla Matthíasi Auðunssyni átti fullt í fangi með að velja sigurvegarann. Hugmyndaauðgi og úrlausnarhæfileikar þátttakenda áttu sér engin takmörk.
Hópurinn Mealsurfing stóð uppi sem sigurvegari í lok helgarinnar. Lausnin þeirra er samfélag aðila sem býður fólki í mat líkt og aðilar sem bjóða fólki gistingu með appinu „Couchsurfing“. Í stuttu máli þá láta þeir sem elda vita að laust sé í mat hjá þeim. Teymið kom ekki inn í hakkaþonið með fyrirfram mótaða lausn heldur fæddist þessi hugmynd eftir þónokkra verkefnaumræðu. Mealsurfing samanstóð af Kristjáni Inga Mikaelsyni, Þóru Karen Ágústsdóttir, Gísla Grímssyni og Guðrúnu Svönu Hilmarsdóttur.
Á meðal annarra verkefna voru Bygg Balls en það var Egill Gauti Þorkelsson sem kom með þá hugmynd. Egill starfar hjá Eimverk og fellur þó nokkuð bygg til við framleiðslu hjá þeim. Hann tók byggið og framleiddi úrvals bollur sem eru stútfullar af próteini. Það var mat manna að þessar bollur ættu svo sannarlega heima á hverjum disk.
Hópurinn Arctic Drops einblíndi á skynfærin með því að búa til olíur úr íslensku hráefnum eins og birki, skessurót og furu. Olíunum er ætlað að búa til lyktir og bragð fyrir matvæli og drykki. Hópurinn komst mjög langt um helgina með því að búa til frumgerðir, vörumerki og viðskiptaáætlun. Markhópurinn þeirra til að byrja með verða ferðamenn. Arctic Drops samanstóð af Berglindi Ósk Sævarsdóttir, Leó Ólafssyni og Vilhjálmi R. Vilhjálmssyni.
Íslenski sjávarklasinn hlakkar til að fylgjast með þessum hópum í framtíðinni og þakkar styrktaraðilum, gestum ráðstefnunnar og þátttakendum fyrir samveruna sem og dómnefnd fyrir vel unnin störf.