Í nýrri greiningu Íslenska sjávarklasans er fjallað um hættuna sem stafar af aukinni plastmengun á allan sjávariðnaðinn á Íslandi. Árið 2014 er áætlað að um 214 þúsund tonn af plasti séu í sjónum og að á hverri mínútu fari sem nemur eitt bílhlass af plasti í sjóinn í heiminum. Talið er að árið 2050 verði meira af plasti í sjónum en fiskum í tonnum talið.
Hérlendis er vaxandi áhugi fyrir minni plastnotkun. Þá er í greiningunni fjallað um þau tækifæri sem íslendingar hafa til að vera fyrirmyndarþjóð um hreinsun strandlengjunnar og endurnýtingu plasts. Lagt er til að ný ríkisstjórn setji heildstæða framkvæmdaáætlun í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir og frjáls félagasamtök á borð við Bláa herinn, um hreinsun strandlengjunnar og endurvinnslu plasts.
Greiningin er unnin af Alexander C. Barber sem verið hefur í starfsþjálfun í Húsi sjávarklasans í vetur.