Einar Þór Lárusson hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslenska sjávarklasans sem afhent verða við opnun Sjávarútvegssýningarinnar hinn 28. september nk.
Einar á langa og merka sögu í nýsköpun tengdri íslenskum matvælaiðnaði og sjávarútvegi. Eftir hefðbundna skólagöngu hóf Einar störf hjá niðursuðuverksmiðjunni Ora og hóf síðan nám í niðursuðufræði við Norges Hermetikkfagskole í Stavangri í Noregi. Þaðan lá leiðin til Vardö í Norður-Noregi til náms í fisktækni við Statens fagskola for fiskeindustri. Einar starfaði sem niðursuðufræðingur í Noregi að námi loknu. Eftir 6 ára veru í Noregi sneri hann aftur til Íslands og tók við verksmiðjustjórastöðu hjá nýstofnaðri niðursuðuverksmiðju í Grindavík. Einar rak lagmetisverksmiðju fyrir Fiskanes og síðar Þorbjörn í 10 ár. Á þessum árum voru helstu framleiðsluvörurnar niðursoðin rækja, lifur, grásleppuhrognakavíar og majónessósur.
Frá síðustu aldamótum hefur Einar tekið þátt í allmörgum verkefnum fyrir saltfiskiðnaðinn á Íslandi og unnið að verkefnum. Þá hefur hann einnig komið að mótum Fisktækniskólans og Codlands í Grindavík. Nú síðastliðin 3 ár hefur Einar komið að stóru verkefni á vegum Haustaks á Reykjanesi. Þetta verkefni snýst um slógnýtingu og endurnýtingu á fiskisalti. Einar hefur liðsinnt fjölmörgum frumkvöðlum og fyrirtækjum við vöruþrón á Íslandi og erlendis. Innan Íslenska sjávarklasans eru mörg fyrirtæki og matarfrumkvöðlar sem hafa notið aðstoðar Einars við vöruþróun. Einar hefur verið ötull liðsmaður og forystumaður um meiri og betri nýtingu íslenskra auðlinda. Í dag starfar Einar hjá Ísam, ORA, Akraborg og Lýsi.
Nánari upplýsingar veitir Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans í síma 618-6200. Einar Þór Lárusson er hægt að ná í síma 863-9006.