Samstarfsaðilar Sjávarklasans virðast almennt ánægðir með starfsemi klasans og um helmingur fyrirtækjanna telur að samstarfið hafi haft jákvæð áhrif á nýsköpun þeirra. Þetta kemur meðal annars fram í nýrri rannsókn Kolbrúnar Ásgeirsdóttur sem var hluti af námi hennar við Háskólann í Reykjavík.
Rannsóknin snerist um hvort tiltekin atriði í uppbyggingu klasaframtaks og þjónustuframboð þess sé grundvöllur fyrir gagnlega mælikvarða á ávinning þátttakenda af starfi klasaframtaks í klasasamstarfi. Til að svara þessari spurningu var þjónusta og grunnskipulag tveggja ólíkra klasaframtaka borið saman og spurningalisti sendur til þátttakenda klasanna. Svörin leiddu í ljós mat þátttakenda á því hversu mikil áhrif klasasamstarfið hefur haft á; starfsemi félagsins, nýsköpun og alþjóðlega starfsemi félagsins.
Þátttakendur Sjávarklasans reyndust mjög jákvæðir og líklegir til að þekkja eða nýta þjónustuþætti og telja áhrifin á fyrirtæki sitt jákvæð. Þar sem ávinningur þátttakenda er forsenda fyrir aðild þeirra að klasaframtaki þá benda niðurstöður þessarar rannsóknar til þess að umfang þjónustuframboðs klasaframtaks geti verið gagnlegur mælikvarði á árangur af starfi klasaframtaks. 69% svarenda Sjávarklasans voru mjög eða frekar ánægðir með þjónustu klasans og 38% töldu þátttökuna í klasanum hafa mikil eða frekar mikil jákvæð fjárhagsleg áhrif á sitt fyrirtæki. 50% töldu þátttökuna í klasanum hafa mikil eða frekar mikil áhrif á nýsköpun í fyrirtækinu og 25% töldu áhrif á erlenda starfsemi vera mikil eða frekar mikil.
„Það er mitt mat að fjárfesting í starfsmönnum til að veita kraftmikla þjónustu fyrir þátttakendur klasa skipti höfuðmáli til að fyrirtækin finni áþreifanlega fyrir ávinningi af samstarfinu. Því eigi það að vera forgangsverkefni fyrir alla hagsmunaaðila og yfirvöld að búa klasaframtökum slíkar aðstæður til að efla þjónustuframboð sitt,” segir Kolbrún.
Hér má skoða verkefnið í heild sinni: Leitin að gagnlegum mælikvörðum til að meta árangur klasaframtaka.