Undanfarna mánuði hafa all nokkur frumkvöðlafyrirtæki í Húsi sjávarklasans fengið fjárfesta til liðs við sig til að þróa vörur eða markaðssetja. Um er að ræða um 10 fyrirtæki í húsinu sem hafa klárað eða eru að klára fjármögnun. „Þetta er mjög jákvæð þróun og við erum hæstánægð að sjá ólíka fjárfesta koma að þessum áhugaverðu fyrirtækjum,“ segir Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans. Heildarfjárfestingin er að jafnaði um 50-100 milljónir en þó eru nokkrar fjárfestingar sem eru umtalsvert meiri en það. „Við erum búin að vera að bíða eftir þessari bylgju dálítið lengi en nú virðist hún vera að koma og er það fagnaðarefni. Í fæstum tilfellum er um að ræða stóra sjóði heldur oft minni fjárfesta sem eru fyrirtækjunum afar mikilvægir þar sem þeir eru bæði fjárfestar og bakhjarlar fyrirtækjanna þegar byggja þarf upp markaðstengsl o.s.frv.“segir Þór. Þór segir að erlendir fjárfestar, m.a. sjóðir sem sérhæfa sig í sjálfbærum matvælaiðnaði, prótínframleiðslu o.fl., hafi sýnt áhuga á fjárfestingum en minna hafi í raun komið út úr þeim viðræðum, „það kann að verða næsta bylgja“ segir Þór.