Þrjú samstarfsverkefni hljóta viðurkenningu Íslenska sjávarklasans fyrir góðan árangur á árinu 2014. Þessum viðurkenningum er ætlað að hvetja til samstarfs fyrirtækja í vöruþróun, markaðssetningu, sölustarfi og á öðrum sviðum á grundvelli klasasamstarfs. Verkefnin þrjú sem hljóta viðurkenninguna nú eru Flavour of Iceland, Green Marine Technology og Ocean Excellence.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra veitti fulltrúum fyrirtækja sem standa að verkefnunum viðurkenningu í dag í Húsi sjávarklasans.
Flavour of Iceland er samstarfsverkefni TVG-Zimsen, Ekrunnar og fleiri fyrirtækja um sölu á matvöru og öðrum kosti til skemmtiferðaskipa sem hafa viðkomu á Íslandi. Fyrirtækin hófu samstarf á árinu 2013 í kjölfar funda hjá Íslenska sjávarklasanum. Verkefnið hefur skilað gríðarlegum árangri en milli áranna 2013 og 2014 varð 70% aukning á sölu fyrirtækjanna til þeirra skemmtiferðaskipa sem markaðssókn þeirra beindist að. Búist er við frekari vexti í sölu á þessu ári. Allur undirbúningur og framkvæmd þessa verkefnis hefur verið til mikillar fyrirmyndar.
Green Marine Technology er samstarfsverkefni 10 íslenskra tæknifyrirtækja sem selja búnað og tæknilausnir fyrir sjávarútveg. Markmið verkefnisins er markaðssókn á erlendri grund og unnið hefur verið að því á vettvangi Íslenska sjávarklasans frá árinu 2013. Tæknifyrirtækin sem koma að verkefninu eru Trefjar, Navis, Naust Marine, Samey, 3X Technology, ThorIce, Promens, Pólar toghlerar, Marport og D-San. Þau eiga það öll sameiginlegt að bjóða umhverfisvænar eða orkusparandi lausnir. Á árinu 2014 fékk markaðsátakið og vefsíða þess mikla umfjöllun í erlendum fjölmiðlum sem fjalla um málefni tengd sjávarútvegi, skipasmíði og sjávartækni.
Samstarfsverkefnið Ocean Excellence fær viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á árinu 2014. Stofnað var til verkefnisins árið 2012 en markmið þess er að þróa og selja tæknilausnir fyrir þurrkun matvæla á erlendum vettvangi. Fyrirtækin Mannvit, Samey og Haustak standa að verkefninu en Haustak er í eigu Þorbjarnar og Vísis í Grindavík. Fyrirtækin hófu samstarf á vettvangi Íslenska sjávarklasans þar sem rætt hafði verið um tækifæri til að koma íslenskri þekkingu í fullvinnslu aukaafurða betur á framfæri erlendis. Víða um heim er lítið sem ekkert nýtt af ýmsum aukaafurðum fisks og því töldu fyrirtækin að tækifæri kynni að vera í frekari markaðssetningu íslenskrar þekkingar á þessu sviði, ekki síst tækni til þurrkunar matvæla. Á árinu 2014 kynnti Ocean Excellence nýja færanlega þurrkunarlausn á sjávarútvegssýningunni í Brussel sem vakti mikla athygli og samdi við aðila í Dubaí um að gera tillögur vegna endurskipulagningar á þurrkun á ansjósum og sardínum í Dubaí. Þá eru nokkur önnur stór verkefni í burðarliðnum.
Samstarfsverkefnin þrjú sem hljóta viðurkenninguna eiga það öll sameiginlegt að hafa kviknað á vettvangi Íslenska sjávarklasans. Tilgangur Íslenska sjávarklasans er að geta af sér slík verkefni, sem auka verðmætasköpun og efla útflutning á íslenskri tækni og hugviti.
Um 3000 klasar eru starfandi í Evrópu um þessar mundir og hérlendis hefur áhugi á klösum farið vaxandi. Nokkrir klasar eru þegar búnir festa sig í sessi líkt og jarðvarmaklasinn og ferðaþjónustuklasinn ásamt sjávarklasanum. Þá eru aðrir klasar nýstofnaðir eins og álklasinn. Allir þessir íslensku klasar hafa að markmiði að auka verðmætasköpun og beita til þess kunnum aðferðum klasa um allan heim sem byggja á því að efla samstarf fyrirtækja og stuðla þannig að nýsköpun og sókn á nýja markaði.
Við óskum fyrirtækjunum innilega til hamingju með góðan árangur.