Íslenski sjávarklasinn hefur nú verið starfræktur í hart nær tvö ár. Margt hefur áunnist á þessum tíma, samstarfsaðilum hefur fjölgað myndarlega og eru nú 55 talsins og fjölda verkefna hefur verið hleypt af stokkunum. Nú undir lok árs 2013 var 2. áfangi Húss sjávarklasans tekinn í gagnið en opnuð hafa verið 17 ný skrifstofurými og ný fundarrými. Alls munu því 29 fyrirtæki í ýmis konar haftengdri starfsemi vera saman undir þaki Húss sjávarklasans á árinu 2014.
Íslenski sjávaklasinn stendur í vissum skilningi á tímamótum nú um áramótin. Eftir tveggja ára starf er tímabært að líta yfir farinn veg, meta árangur þeirra verkefna sem unnið hefur verið að og huga að stefnumótun til framtíðar. Liður í þessu starfi er útgáfa nýrrar samantektar, Íslenski sjávarklasinn – Árangur og verkefni 2012-2013 þar sem litið er yfir starf og þróun klasans á síðastliðnum tveimur árum og stiklað á stóru um allt það helsta sem áunnist hefur á vettvangi Íslenska sjávarklasans. Samantektin gefur tilefni til bjartsýni og fyrirheit um áframahaldandi starf og árangur á nýju ári.