Ný Greining Sjávarklasans lýsir stöðu markaðsmála í sjávarklasanum á Íslandi, sem á margan hátt eru veikasti hlekkur greinarinnar. Í greiningunni segir meðal annars:
Í flestum þáttum virðiskeðju fiskveiða og vinnslu er samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja sterk og greinin hefur gengið í gegnum umtalsverða nútímavæðingu á undangengnum áratugum. Í ljósi aukins framboðs sjávarafurða á heimsvísu, aukinnar samkeppni og neikvæðs þrýstings á verð er ljóst að mikill styrkur fælist í því að íslenskar afurðir byggju yfir meiri sérstöðu í hugum neytenda. Markaðsmál eru veikur hlekkur víða og innan sjávarklasans í heild má gera margfalt betur í markaðsmálum erlendis. Þá er ljóst að mörg smærri fyrirtæki sjávarklasans skortir fjármagn til markaðssóknar á alþjóðavettvangi. Íslandsstofa setti nýverið á fót mikilvægt markaðsverkefni til eins árs að verðmæti 50 milljónir króna, en til samanburðar hefur Norwegian Seafood Council í Noregi yfir að ráða rúmlega 8 milljörðum króna til markaðssetningar á norsku sjávarfangi árlega og starfrækir yfir 500 markaðsverkefni í 25 löndum. Klasasamstarf í markaðsmálum gæti opnað íslenskum fyrirtækjum fleiri möguleika í þessum efnum, en einnig mætti líta til fordæmis Norðmanna og útfæra samstillt markaðsátak íslenskra fyrirtækja með svipuðum hætti.
Greininguna í heild sinni má lesa hér.
Nánari upplýsingar veita Bjarki Vigfússon (bjarki@sjavarklasinn.is) og Haukur Már Gestsson (haukur@sjavarklasinn.is) hjá Íslenska sjávarklasanum í síma 577 6200