Mikill árangur hefur náðst í samstarfi fyrirtækjanna TVG-Zimsen, Ekrunnar, Gáru og fimm innlendra birgja um sölu og markaðssetningu á vörum til skemmtiferðaskipa sem hingað koma, Flavour of Iceland. Milli áranna 2013 og 2014 varð 70% aukning í sölu fyrirtækjanna til þeirra skipa sem eru í markhópi þeirra, en fyrirtækin hafa einbeitt sér að smærri skemmtiferðaskipum sem hingað koma sem bjóða farþegum sínum fyrsta flokks þjónustu.

Fyrirtækin hófu samstarf á síðasta ári í kjölfar funda hjá Íslenska sjávarklasanum. Samstarfið hefur m.a. falist í gerð markaðsefnis og þátttöku í vörusýningum fyrir útgerðir skemmtiferðaskipa. Árangurinn af verkefninu hefur ekki látið á sér standa og salan hefur aukist. Björn Einarsson framkvæmdastjóri TVG segir að samstarfið hafi tekist vel og það muni halda áfram. „Það eru mikil tækifæri að skapast til að auka sölu á íslenskum kosti í erlend skemmtiferðaskip. Svona verkefni tekur hins vegar tíma að þróa en hópurinn stefnir að því að halda þessu samstarfi áfram.“

Gert er ráð fyrir að um 100 skemmtiferðaskip komi til landsins á næsta ári og að farþegar þeirra verði um 100 þúsund. Íslenski sjávarklasinn hefur áætlað að kostnaður við fæði farþeganna meðan á Íslandsdvölinni stendur sé um 3-3,5 milljarður króna. Á sama tíma hefur sala íslenskra fyrirtækja til skipanna aðeins numið um 300-400 milljónum króna.