Fyrirtækið Valka ehf. hlaut í morgun Vaxtarsprotann 2012 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári.
Vaxtarsprotinn er viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.
Oddný G Harðardóttir, iðnaðarráðherra, afhenti Helga Hjálmarssyni, verkfræðingi, stofnanda og framkvæmdastjóra Völku ásamt stjórn og öðrum starfsmönnum fyrirtækisins Vaxtarsprotann 2012 að viðstöddum fulltrúum sprotafyrirtækja og stuðningsaðilum atvinnulífsins í Grasagarðinum Laugardal við hátíðlega athöfn í morgun.
Alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2010 og 2011, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í 2. deild, þ.e. flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir hlutu fyrirtækin Kvikna ehf. og Thorice ehf. viðurkenningu en í 1. deild, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir fengu fyrirtækin Valka ehf. og Orf-líftækni ehf. viðurkenningu.
Íslenski sjávarklasinn vill óska fyrirtækjunum til hamingju með árangurinn en fyrirtækin Valka og ThorIce eru hluti af tæknihópi Íslenska sjávarklasans.
Fréttina í heild sinni má nálgast á heimasíðun Iðnaðarráðuneytisins og samtökum iðnaðarins.