Í þessum hluta verður sérstaklega fjallað um tæknifyrirtæki í sjávarklasanum sem þjóna sjávarútvegi, matvælavinnslu í tengslum við sjávarútveg eða fiskeldi. Þessi geiri er sérstaklega áhugaverður þar sem hann hefur unnið náið með íslenskum sjávarútvegi um langt skeið og stór alþjóðleg tæknifyrirtæki hafa þróast hérlendis sem eftir hefur verið tekið eins og MarelHéðinn og Hampiðjan. Þegar rætt er um tæknifyrirtæki í tengslum við sjávarklasann berst umfjöllunin fljótt að Marel og góðu gengi þess fyrirtækis á alþjóðlegum markaði. Marel hóf starfsemi sína með því að einblína á þjónustu í tengslum við sjávarklasann og ná forystu á afmörkuðum sviðum hans. Í framhaldinu fetaði Marel sig inn á aðra markaði eins og í alifuglarækt sem nú er orðinn fyrirferðamesti partur af starfsemi fyrirtækisins.

En á sama tíma og starfsemi Marel hefur verið að styrkjast hefur flóra tæknifyrirtækja sem eru star­f­andi hérlendis í sjávarklasanum verið að aukast og dafna. Áhugvert er að kanna hvað þessi fyrirtæki eru mörg og hvernig aðstæður þeirra eru til að að vaxa? Getur verið að aðrir partar sjávarklasans geti lært af því nána samtarfi sem hefur verið með sjávarútvegi og tæknifyrirtækjum hérlendis? Við leitum svara við þessum og fleiri spurningum hér.

Með tæknifyrirtækjum í sjávarklasanum er aðallega átt við fyrirtæki sem falla í þrjá flokka. Í fyrsta lagi það sem fallið getur undir vélaverkfræði og tækni á sjó (Marine engineering/mechanical engineering), fiskvinnslutækni (Seafood Processing technology), hvort sem um er að ræða búnað til vinnslu eða kælingar eða framleiðsla á vörum til pökkunar o.fl., og veiðafæratækni (Fishing gear technology). Hér er einungis horft til fyrirtækja sem eru með eigið vörumerki í framleiðslu. Nær öll þessi fyrirtæki hafa stundað útflutning á sínum vörum þótt í mismiklum mæli sé. Í þessum flokki eru ekki meðtalin fyrirtæki sem stunda innflutning á búnaði eða tæknifyrirtæki sem þjóna sjávarklasanum með ýmsum hætti en eru þó ekki með eigið vörumerki. Þessi fyrirtæki gegna einnig mikilvægu hlutverki en um þau verður fjallað annars staðar í þessu riti.

Til þess að afla upplýsinga um tæknifyrirtæki sem þjóna vinnslu og veiðum í sjávarklasanum hefur verið haft samband við fjölda sérfræðinga og bróðurpart þeirra fyrirtækja sem starfa í þessari grein. Tekin hafa verið ítarleg viðtöl við á annan tug stjórnenda í tæknifyrirtækjum. Þá hafa verið haldnir tveir sameiginlegir fundir með stjórnendum hluta þessara fyrirtækja. Á fund í lok nóvember 2010 mættu 10 stjórnendur tæknifyrirtækja þar sem rætt var um hvernig þessi fyrirtæki stæðu, horfur í rekstri og möguleika í samstarfi. Í janúar 2011 var síðan haldinn framhaldsfundur þar sem mættu vel á annan tug stjórnenda þessara fyrirtækja þar sem rætt var um samstarf o.fl. Sú umfjöllun sem hér fer á eftir byggist á beinum viðtölum og þeirri umræðu sem fram fór á þessum tveim fundum.

Þróun á heimsmarkaði

Fyrir fyrirtæki sem selja tæki og vélar sem öðru fremur þjóna mavælavinnslu hefur aukning eða sam­dráttur á alþjóðlegum matvælamarkaði einna mest áhrif. Eins og fram hefur komið hér að framan þá er gert ráð fyrir að matvælaframleiðsla þurfi að aukast verulega til að halda í við þá mann­fjöldarþóun sem áætluð hefur verið. Í ljósi þess má ætla að vöxtur í tæknibúnaði fyrir matvælaframleiðslu verði a.m.k. 3-8% á ári á næstu árum. Ekki eru til nákvæmar tölur um vöxt tæknifyrirtækja sem sinna fyrst og fremst veiðum og vinnslu í tengslum við sjávarútveg og fiskeldi. Miðað við áætlaðan vöxt fiskeldis á komandi árum þá eru líkur á því vöxtur tæknifyrirtækja sem þjóna þeim geira verði að minnsta kosti í samræmi við það sem gerist í matvælaframleiðslu almennt. Um vöxt í tæknibúnaði fyrir fiskvinnslu í tengslum við sjávarútveg og veiðar ríkir meiri óvissa. Ekki er gert ráð fyrir aukningu í veiðum á komandi árum og hagræðing mun án efa aukast sem leiðir til fækkunar skipa. Á hinn bóginn er gerð aukin krafa til bætts tæknibúnaðar um borð í skipum, ekki síst úthafsveiðiskipum, sem eykur spurn eftir fyrsta flokks tæknibúnaði. Einnig eru líkur á því að fiskvinnsla færist til þeirra svæða þar sem lægst eru laun sem getur þýtt að tækifæri verði til að selja búnað til þeirra landa á komandi árum.

Umfang starfsemi hérlendis

Tæplega 70 fyrirtæki eru starfandi á Íslandi sem framleiða og flytja út undir eigin vörumerkjum búnað fyrir greinar sem tengjast hafinu. Það hefur farið lítið fyrir þessari fjölbreyttu flóru tæknifyrirtækja, sem eru staðsett víða um land, en tölur benda til þess að hér sé á ferðinni víðtækari starfsemi en áður var talið sem hægt og hljótt vex þrátt fyrir að mörgu leyti erfið skilyrði.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fengust frá fyrirtækjunum sjálfum, er velta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum um 26,9 milljarðar króna á árinu 2010 og þar af er útflutningur um 16,2 milljarðar króna. Inn í þessari fjárhæð er útflutningur Hampiðjunnar sem nemur um 6 milljörðum en vörur Hamp­iðjunnar eru mest megnis unnar erlendis. Tæknifyrirtækin framleiða veiðarfæri, sinna hönnun og fram­leiðslu fiskvinnsluvéla, fjarskiptabúnaðar, skynjaratækni, umbúða, upplýsingatækni og kæl­ingu svo eitthvað sé nefnt. Starfsmenn í þessum fyrirtækjum, sem vinna í verkefnum tengdum sjávar­klasanum, eru um 1000 talsins. Bróðurpartur af starfsmönnum þessara fyrirtækja er tækni­menntaður en að undanskildum stærstu fyrirtækjunum eru fáir starfsmenn þeirra menntaðir í markaðsmálum þótt margir stofnenda fyrirtækjanna hafi umtalsverða reynslu af vörusýningum og samskiptum við erlenda viðskiptavini.

Um 30 fyrirtæki voru reiðubúin að áætla veltuaukningu árið 2011 í samanburði við árið 2010. Þessi fyrirtæki áætla að velta þeirra muni aukast um að meðaltali 10-15% á árinu 2011 sem skýrist fyrst og fremst með meiri útflutningi. Fyrirtækin gera ekki ráð fyrir verulegri aukningu á heimamarkaði en mörg þeirra telja að nærmarkaðir fyrir tæknivörur og þjónustu muni halda áfram að skapa tækifæri fyrir þau. Hér er m.a. átt við Noreg og Færeyjar og að einhverju leiti Bretland og Kanada. Mun erfið­ara virðist fyrir litlu fyrirtækin að feta sig áfram á fjærmörkuðum eins og í Asíu. Sum þeirra hafa komið sér upp neti umboðsaðila en viðskipti hafa verið lítil. Í sumum tilfellum virðist sem smæð fyrir­tækjanna hafi orðið þeim til trafala, ekki síst á fjærmörkuðum. Einn viðmælandi hafði á orði að ísl­ensk tæknifyrirtæki væru ágæt í að þróa vöruna en alltof lítið væri um stöðlun og því væri viðhald og þjónusta oft annmörkum háð. Það væri erfitt þegar viðskiptavinur hringdi frá Kína og tilkynnti að tækið væri í ólagi.

Myndin hér að neðan sýnir veltu og útflutning í einstökum greinum í milljónum króna. Veltutölur allra fyrirtækjanna á listanum miðast við veltu þeirra í tengslum við Sjávarklasann. Þetta á m.a. við um Marel. Heildarvelta Hampiðjunnar er tekin með þótt drjúgur hluti starfsemi Hampiðjunnar sé á erlendri grund. Athygli vekur hversu stór hluti veltu þessara fyrirtækja er útflutningur á eigin vörumerki. Í viðtölum við forsvarsmenn fyrirtækjanna kom fram að útflutningur hefur aukist hlutfallslega vegna minni viðskipta hérlendis.

 Mynd 13 – Velta og útflutningur tæknifyrirtækja í sjávarklasanum (mia. kr.)

Tækifæri og hindranir

Athyglisvert er að nokkur fjölgun er í fjölda fyrirtækja með 10-30 starfsmenn. Tæknifyrirtæki í sjávarklasanum hafa lengst af verið annað hvort mjög smá, með 2-5 starfsmenn, eða mjög stór á íslenskan mælikvarða. Í því sambandi má nefna Héðinn sem var með á fimmta hundruð starfsmanna á fimmta áratug síðustu aldar. Þarna er þó að verða nokkur breyting þar sem fleiri meðalstór fyrirtæki, á íslenskan mælikvarða, hafa orðið til á þessu sviði á undanförnum áratug. Þarna kunna að liggja tækifæri sem vert er að gefa gaum. Þetta kom skýrt fram í viðtölum: „Með stækkun fyrirtækisins má segja að við séum á tímamótum. Nú þurfum við að hrökkva eða stökkva. Ef við náum að komast í það að verða með 30 manns í vinnu eða fleiri þá getum við styrkt markaðsteymið okkar og lagt meira kapp á söluna. Nú er maður allt í öllu.“

Um leið og fyrirtækin vilja vaxa viðurkenna viðmælendur okkar að það hafi í för með sér nýjar áskoranir: „Við höfum stækkað hægt og rólega. Auðvitað þýðir það að við þurfum að breyta um stjórnunarstíl. Við höfum kannski ekki hugsað það í þaula.“

Viðmælendur eru sammála um að ímynd landsins sem forystulands í sjávarútvegi hafi nýst þeim vel í þeirra útflutningi. Það átti ekki síst við á fjarlægari mörkuðum þar sem Íslendingar eru þekktir á þessu sviði innan sjávarútvegs og fiskvinnslu. Viðmælendur telja að í þessu sambandi mætti leggja meiri áherslu á að kynna þessa starfsemi erlendis og var nefnt í því sambandi að fyrirtækin gætu tekið sig meira saman á vörusýningum undir einum íslenskum hatti. Þetta hefur verið að hluta til reynt með ágætum árangri m.a. undir forystu Íslandsstofu.

Náin tengsl í Sjávarklasanum upphafið að nýsköpunarfyrirtækjum

Stór hluti þeirra fyrirtækja sem rætt hefur verið við, eiga upptök sín í nánum tengslum milli þeirra og sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækja. Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig dæmigert ferli hefur verið í samskiptum sjávarútvegsfyrirtækja og tæknifyrirtækja/frumkvöðla hefur leitt til þess að fjöldi tæknifyrirtækja er í eigin útflutningi á eigin vöumerki.

 

Mynd 14 – Samstarf innan sjávarklasans hefur skilað því að tugir íslenskra tæknifyrirtækja stunda sjálfstæða útflutningsstarfsemi tengda sjávarklasanum.

Í þessu sambandi hefur skipt sköpum áhugi yfirmanna fyrirtækjanna, skipstjórnenda, vinnslustjóra og útgerðarmanna á ýmsum nýjungum og viljinn til að auka virði hráefnis. Einn viðmælenda sagði: „Ég var með hugmynd um að gera tæki. Ég fór niður í (tiltekið sjávarútvegsfyrirtæki) með þá vöru og þeir vildu strax kaupa hana. Þannig fékk ég eiginlega fljúgandi start.“

Annar viðmælandi sagði: „Ég fór til (tiltekins sjávarútvegsfyrirtækis) með hugmynd mína um betri kælingu afla. Ég stakk hitamæli í gegnum aflann í skipinu til þess að sýna þeim óhagræðið í hitamálunum. Hann var 4 gráður efst, síðan 8-10 gráður og loks lá ísinn á botninum. Þeir keyptu strax hugmyndina. Það sem skiptir miklu máli er að skipstjórarnir sjálfir vilja fá sem mest verðmæti úr aflanum.“

Það sem þurfti til við þróun tækninýjunga var þó ekki einungis viljinn til að ná meira virði út úr hrá­efninu heldur einnig að kaupendur, íslenskur sjávarútvegur og fiskvinnsla, hefðu bolmagn til þess að leggja fé í þróun vöru. Að sögn stjórnenda tæknifyrirtækjanna áttuðu þeir sig betur á því þegar útflutningur hófst að kröfuharður heimamarkaður reyndist þeirra besti heimanmundur þar sem íslenski tæknibúnaðurinn var vel samkeppnishæfur erlendis.

Í viðræðum við stjórnendur tæknifyrirtækjanna kom fram að þeir sjá fyrir sér að vöxtur fyrirtækja þeirra geti numið að meðaltali um 10-15% á ári ef aðstæður, ekki síst hérlendis, eru hagfelldar þeirra starfsemi. Núverandi óvissa um kvótakerfið og framtíðarskipan í sjávaútvegi hefur dregið umtalsvert úr spurn eftir tæknibúnaði fyrir sjávarklasann hérlendis og því hefur útflutningur fyrirtækjanna aukist hlutfallslega meira. Bent hefur verið á að þörf fyrir fjárfestingu í greininni vegna viðhalds og kaupa á nýjum búnaði sé nú orðin töluverð og ekki sé ólíklegt að hún nemi um 16-20 milljörðum króna.

En það er ekki aðeins óvissa um framtíðarskipan í sjávarútvegi sem hefur sett strik í reikninginn. Stjórnendur tæknifyrirtækjanna benda einnig á að neikvæð umræða um sjávarútveg og kannski þekkingarleysi varðandi þau tækifæri sem felast í sjávarklasanum hafi haft neikvæð áhrif á fyrirtækin og dregið úr áhuga ungs fólks til að stofna nýsköpunarfyrirtæki á þessu sviði.

Í þessu samhengi má nefna að af þeim tæplega 70 fyrirtækjum sem bjóða tæknibúnað í tengslum við sjávarklasann er bróðurpartur þeirra stofnuð á síðustu tuttugu árum. Athygli vekur að á árinu 2008-2010 var einungis eitt tæknifyrirtæki stofnað samkvæmt þeim gögnum sem aflað hefur verið.

Stöðnun í fjölgun nýgræðinga í sjávarklasanum er alvarleg vísbending um að eitthvað sé að og vekja þurfi upp áhuga á þeim tækifærum sem felast í greininni. Eins og sjá má á mynd 15 hafa að jafnaði um tvö tæknifyrirtæki verið stofnuð á ári í sjávarklasanum á síðustu tveim áratugum. Á síðustu þrem árum ber hins vegar svo við að mjög fá fyrirtæki hafa verið stofnuð innan klasans á þessu sviði. Þetta er á sama tíma og fjöldi nýrra fyrirtækja í hvers konar nýsköpun hefur sjaldan eða aldrei verið meiri hérlendis.

Mynd 15 – Fjöldi stofnaðra tæknifyrirtækja í sjávarklasanum.

Viðmælendur skýrsluhöfunda virðast sammála um að neikvæð umræða um sjávarútveg hafi skaðað í þessu sambandi. Einn stjórnandi tæknifyrirtækis komst svo að orði: „Það eru allir að tala um skapandi greinar, jarðhita- og ferðaþjónustu, en það er miklu minni áhugi á okkur. Okkar fyrirtæki fá ekki einu sinni að vera skilgreind sem hluti af skapandi geiranum hérlendis miðað við nýlegar skýrslur um hann. Það er búið að tala svo niður sjávarútveg að fáir vilja telja sig sem part af honum.“

Einn viðmælandi hafði á orði að þrátt fyrir að kenna mætti óstöðugleika um að ekki væri meiri vöxtur í tæknifyrirtækjum í sjávarklasanum, þá ættu menn líka að líta í eigin barm. Fyrst þyrftu fyrirtækin sjálf að spyrja sig hvers vegna þau ættu ekki í meiri samskiptum sín í milli, m.a. í sambandi við sölu- og markaðsmál erlendis. Þarna liggja tækifæri sem hafa ekki verið nýtt sem skyldi. Í því sambandi má nefna að jarðhitafyrirtæki hafa stofnað eitt regnhlífarfyrirtæki sem nefnist ENEX sem hefur með höndum sölu á þjónustu þessara fyrirtækja á erlendum mörkuðum. Í öðru lagi mætti velta fyrir sér hvers vegna íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hefðu lítið fjárfest í þessum fyrirtækjum. Það hefur ekki skapast hefð fyrir slíkum tengslum nema að mjög takmörkuðu leyti en í slíku samstarfi kunna þó að liggja tækifæri.

Þegar viðmælendur voru inntir eftir því hvernig sambandi þeirra væri háttað við önnur fyrirtæki í greininni og í sjávarklasanum sem heild virðist ljóst að samskipti eru fremur takmörkuð. Sérhæfð fyrirtæki eiga samleið, ekki síst í útflutningi, hvort sem um er að ræða kælingu, fiskvinnslutæki o.s.frv. Hins vegar var mjög lítil vitneskja hjá viðmælendum um önnur tæknifyrirtæki í sjávarklasanum sem voru ekki með sömu grunnstarfsemi og viðmælendur. Þá var athyglisvert að tæknifyrirtækin áttu mörg hver gott samstarf við einstaka útgerðarfyrirtæki sem hafði varað lengi og skapast hafði traust. Athyglisvert er líka að sömu útgerðarfyrirtækin voru ítrekað nefnd þegar rætt var um jákvætt viðmót varðandi þróun nýrrar tækni og fjárfestingar í þekkingu.

Mörg tæknifyrirtækin segjast hafa mætt skilningsleysi í bankakerfinu. Einn viðmælandi sagði að í uppsveiflunni hafi ríkt skilningsleysi á verkefnum tæknifyrirtækja í sjávarklasanum og hann hafi haft væntingar til þess að þetta mundi breytast eftir hrun. Þá tók hins vegar við, að hans mati, tímabil þar sem engar ákvarðanir voru teknar í bönkum og það tímabil stendur enn. Mörg fyrirtækjanna hafa fjármagnað sig með sölu tækjabúnaðar en þau hafa takmarkað svigrúm til þróunar. Allt að þriðjungur fyrirtækjanna hefur fengið styrki til þróunarverkefna, og þá einna helst frá AVS, og/eða átt samstarf við innlenda viðskiptavini um þróun vöru. Þessi þróunarvinna hefur verið þýðingarmikil fyrir fyrirtækin.

Tæknifyrirtæki í íslenska sjávarklasanum standa á krossgötum. Þessi fyrirtæki, að undanskildum þeim allra stærstu, hafa ekki verið fyrirferðamikil í umræðu um nýsköpun og tækifæri til vaxtar. En þessi fjölbreytta flóra fyrirtækja, sem samanstendur af tæplega 70 fyrirtækjum með eigið vörumerki, stækkar og útflutningur eykst. Með stöðugleika í umhverfi sjávarútvegs, auknum skilningi og áhuga á þeim tækifærum sem í sjávarklasanum felast og samstarfi milli fyrirtækjanna geta þau lagt grunn að bættum lífskjörum og skapað hundruðir vel launaðra starfa á þessum áratug.

Fyrstu niðurstöður kortlagningar tæknifyrirtækja í Sjávarklasanum og viðtöl við forsvarsmenn þeirra sýna:

  • Verulegt umfang þessara fyrirtækja, bæði hvað varðar veltu og útflutning. Velta fyrirtækjanna er um 27 milljarðar króna og helmingur veltunnar er útflutningur. Starfsmenn fyrirtækjanna, sem sinna beint verkefnum í sjávarklasanum, eru um 1000 talsins.
  • Áhyggjur varðandi hve fá ný fyrirtæki eru stofnuð í greininni og framtíðarhorfur hérlendis sem skýrist m.a. af óvissu í sjávarútvegi og andvaraleysi um stefnumörkun og samhæfingu á þessu sviði.
  • Tækifæri til aukins samstarfs þessara fyrirtækja í framhaldi af þeirri kortlagningu sem hér hefur verið kynnt. Samstarf getur bæði snúið að því að kynna betur þessa starfsemi hérlendis og auka samstarf í rannsóknum og þróun en ekki síður í markaðssamstarfi erlendis. Á síðari fundi hóps tæknifyrirtækja kom fram áhugi á að skoða samstarf í markaðsmálum, innkaupum, útflutningi og í málefnum er vörðuðu hagsmuni þessarar greinar í heild. Áfram verður unnið að því.

Víða í samkeppnislöndum okkar hefur verið unnið að víðtækri stefnumótun um hvernig efla megi tæknigeira í tengslum við hafið. Hérlendis hefur lítið farið fyrir þessari umræðu og því geta tækifæri falist í því að tekin verði skref í þá átt hérlendis

Eftir samtöl við fulltrúa fjölmargra fyrirtækja voru nokkur atriði sem skýrsluhöfundar töldu að stæðu upp úr og gætu verið grundvöllur að sameiginlegri stefnumótun …

  •     fyrirtækin þurfa að huga að auknu samstarfi – samvinna í markaðmsálum, innkaupum o.fl.
  •     samnýta þarf tengsl við erlend stórfyrirtæki.
  •     fyrirtækin líða fyrir óstöðugleika í sjávarútvegi – Koma þarf umræðunni um kvótamálin í einhvern farveg sem einhver lágmarks sátt getur orðið um
  •     efla þarf markaðsmenntun
  •     þörf er á fjárfestingum

(kafli úr skýrslu sjávarklasans)

There are currently almost 70 companies operating in Iceland that manufacture and export, under their own trademarks, equipment and services for industries connected with the ocean. The technology companies design and manufacture fishing gear, fish processing equipment, telecommunications equipment, sensor equipment, packaging, cooling machines and cooling systems and IT systems, to mention but a few. Employees in these companies, working on projects linked to the ocean cluster, currently number approximately 1,000. (Arnason and Sigfusson, 2011).

Despite their substantial scope, this diverse range of companies, located in various parts of Iceland, has not been prominent and no comprehensive statistics have been compiled on its activities. According to information obtained from the companies themselves, the turnover of technology companies in the ocean cluster was approximately ISK 26.9bn in 2010. Of this amount, exports accounted for ISK 16.2bn. If the turnover of Marel’s subsidiaries (those connected with the fishing industry) and Hampidjan’s subsidiaries outside Iceland are included, this amount increases substantially.

The Icelandic metal working sector has in part created an independent existence through the export of technological equipment with connections to the fisheries sector. At present, there are approximately 40 companies in the metal working sector that export their own fisheries sector linked goods. These include companies such as Marel, Slippurinn, 3X, Volka, Traust, Mode Slurry Ice, Optimar, Skaginn, Formax, Velfag, Baader, Brimvor, Pola, Malmey, Martak, Style, Beitir, A.M.Sigurdsson, Fiskvelar og Frost, to mention a few. Surrounding these companies is a large group of Icelandic support companies, such as metal working companies, design companies and others that undertake sub-contracting work for the exporting companies. These support companies play a very important role and may subsequently become independent exporting companies in their speciality field, in the same manner that the exporting companies in the metal working sector developed from the services they provided for the fisheries sector and became independent.