Höfundar Þór Sigfússon, Alexandra Leeper, Clara Jégousse

 

Þessi samantekt Sjávarklasans fjallar um mismunandi „úrgangs“strauma innan sjávarútvegs og þau tækifæri sem eru til að gera betur í þeim efnum.  Heildstæðar greiningar á úrgangi í sjávarútvegi á heimsvísu eru ekki til staðar en í þessari samantekt eru dregnar saman helstu upplýsingar, sem fyrir eru, um ýmsa úrgangsstrauma.

Gögnum um stóran hluta núverandi úrgangs hefur einfaldlega ekki verið safnað.  Töluvert flókið er að ná utan um þessa úrgangsstrauma enda veiðar ólíkar og þær dreifðar um allan heim.

Hér áætlum við að 30 milljónir tonna af samanlögðum úrgangi séu framleidd á hverju ári af sjávarútvegi miðað við fyrirliggjandi gögn.  

Hér eru eftirtaldir straumar skilgreindir sem úrgangur í sjávarútvegi 1. Hliðarafurðir fisks annarra en skelfisks, 2. Hliðarafurðir skelfisks, 3. Umbúðir og ker, 4. Seyra og 5. Net. Í þessari samantekt munum við fjalla stuttlega um þessa þætti og hvernig sprotafyrirtæki takast á við þessar áskoranir. 

—01 Hliðarafurðir

Í sjávarútvegi og fiskeldi er áætlað að 30-35 prósent af afla fari til spillis á hverju ári. Miðað við heildarframleiðslu sjávarafurða í heiminum, sem er nálægt 200 milljónum tonna, er úrgangurinn nálægt 60-70 milljónum tonna (aukaúrgangur í vinnslu, brottkast óæskilegra tegunda um borð í bátum, geymslu- og flutningsvandamál , o.s.frv.). Af þessum fjölda hefur Íslenski sjávarklasinn áætlað að úrgangur í aukaafurðum í sjávarútvegi (án meðafla) sé um 10 milljónir tonna. Þetta er líklegast mjög varlega metið.

Íslenski sjávarklasinn hefur kortlagt yfir 100 sprotafyrirtæki og lítil fyrirtæki sem eru að þróa ýmsar vörur úr hvítfiski og laxi. Flest þessara fyrirtækja eru með aðsetur á Íslandi og í Noregi en einnig eru fyrirtæki í öðrum Evrópulöndum, Norður- og Suður-Ameríku á þessum lista. Í þessum efnum er forysta íslenskra fyrirtækja og frumkvöðla og rannókna- og  vísindasamfélags eins og Matís, afgerandi. Um leið eru hér tækifæri til að gera enn betur.

—02 Skeljaúrgangur

Töluvert magn af úrgangi sem myndast í sjávarútvegi kemur frá skelfiski, sérstaklega krabbadýrum (t.d. krabba, rækju og humri) og lindýrum (ostrum og kræklingi). Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni (FAO) nam framleiðsla á skelfiski á árinu 2021 um 25 milljónum tonna. Í ljósi þess að kjötið er aðeins 20 til 40% af heildarþyngd skelfisksins, má álykta að skeljaúrgangur nálgist 10 milljónir tonna á hverju ári. Þessi úrgangur, sem oft endar í hafinu eða á urðunarstöðum, er skaðlegur fyrir vatnalíf. Samt eru þessar skeljar ríkar af próteinum, kalsíumkarbónati, kítíni og kítósani.

Kítín og kítósan, unnin úr skeljum krabbadýra, hafa verið notuð í ýmsum heilsu- og snyrtivörum og notið vaxandi vinsælda. Fyrirtæki eins og Chitolytic og Mycodev. Íslensku nýsköpunarfyrirtækin Genis og Primex hafa bæði náð góðum árangri í þessum efnum og gert Siglufjörð að eins konar Sílikondal í kítosanþróun rækjuskelja.

—03 Pökkun

Fjölbreytni umbúða í sjávarútvegi gerir það að verkum að mjög erfitt er að ákvarða nákvæmlega tegund og magn úrgangs í tengslum við umbúðir og pökkun. Gerð efnisins, sem notuð er í umbúðir, hefur einnig mikil áhrif á umhverfisáhrif þeirra.

Samkvæmt gögnum ESB myndast um það bil 200 kíló af umbúðaúrgangi á hverju ári á íbúa. Neysla sjávarafurða í ESB er 6% af heildarneyslu matvæla í ESB. Þetta þýðir um um 4,2 milljónir tonna af umbúðaúrgangi frá sjávarfangi í ESB. Hér munum við ekki áætla umbúðaúrgang á heimsvísu í sjávarútvegi. Fleiri rannsóknir eru nauðsynlegar til að kortleggja mismunandi umbúðir og rannsaka heildar aðfangakeðjur varðandi umbúðir.

Ýmis ný átaksverkefni eru kynnt í sjávarútvegi til að takast á við mikla úrgang í umbúðum. Fyrirtækið Sæplast á Íslandi hefur tekið í notkun fiskikör, sem eru að fullu endurvinnanleg en flest fiskikör sem framleidd eru í heiminum eru mjög erfið í endurvinnslu vegna einangrunar eða plastefnis sem notað er. Tæknifyrirtæki eins og Greenmax í Bandaríkjunum og Runi í Danmörku hafa innleitt tækni til að endurvinna úr frauðplasti að fullu. Endurvinnslufyrirtæki, eins og Regent Hill í Bretlandi, hafa þróað fiskikör úr pólýstýreni til að búa til efni til einangrunar bygginga.

—04 Seyra

Engin tæmandi gögn eru til um seyru í alþjóðlegu fiskeldi. Í nýlegri rannsókn var áætlað að magn seyru í fiskeldi í Chile væri um 1,4 tonn af seyru á hvert ton af laxi. Þetta myndi benda til þess að seyra í laxeldi í heiminum nemi á bilinu 3-4 milljónum tonna á ári.

Norsk tæknifyrirtæki hafa verið í fararbroddi við að þróa tækni til að meðhöndla seyru frá eldisstöðvum. Helstu frumkvöðlar eru Bioretur og Blue Ocean Technology sem bjóða upp á tækni til að þurrka seyru og framleiða lífrænt efni sem hentar fyrir áburð og lífgas.

—05 Net

Magn yfirgefinna, týndra eða á annan hátt fargaðra veiðarfæra í sjávarútvegi hafa nýlega verið metin með rannsóknum sem birtar voru í Science Advances. Höfundarnir tóku viðtöl við útgerðir um allan heim um hversu mikið af veiðarfærum þau missa árlega. Önnur rannsókn áætlaði að næstum 2% af öllum veiðarfærum glatist í hafinu árlega. Þar á meðal voru 740.000 kílómetrar af línum og 218 ferkílómetrar af dragnótum. Auk þess áætla höfundar að fiskimenn tapi 25 milljónum kerja og gildra árlega og 14 milljörðum línukróka. FAO áætlar að 640.000 tonnum af veiðarfærum tapist í hafið á hverju ári. Í þessum tölum eru ekki veiðarfæri, sem fargað er á landi og ekkert mat hefur farið fram um magn veiðarfæra sem fleygt er á urðunarstaði. Miðað við skort á gögnum gæti heildaráætlun um sóun á veiðarfærum árlega verið allt að 1 milljón tonna.

Í nýlegri samantekt SFS kemur fram að nýtt átak íslensks sjávarútvegs í endurvinnslu neta hefur skilað gríðarlega góðum árangri. Árin 2019-2021 voru tæplega 700 tonn send í endurvinnslu á ári. Árin 2022-2023 voru hinsvegar um 1900 tonn af netum send í endurvinnslu. 

Undanfarin ár hefur samstarf sprotafyrirtækja, sjálfseignarstofnana og stórra sjávarútvegsfyrirtækja skilað árangri í endurvinnslu neta. Sprotafyrirtækið Net Your Problem, með aðsetur í Bandaríkjunum, einbeitir sér að því að safna og endurvinna gömul fiskinet, umbreyta þeim í nýjar vörur Wake Lifeproof® símahulstur og Waterhaul® sólgleraugu. Fyrirtækið hefur átt náið samstarf við stór sjávarútevgsfyrirtæki í þessum efnum. Hampiðjan hefur sýnt endurnýtingu mikinn áhuga sem er afar mikilvægt enda fyrirtækið með öflugustu veiðarfæraframleiðendum heims. Fyrirtækið hefur innleitt nýstárlega netendurvinnslu sem vakið hefur athygli.

Í þessari samantekt hefur verið fjallað um helstu úrgangsstrauma í alþjóðlegum sjávarútvegi og þá fjölbreyttu nýsköpun, sem er að koma fram til betri nýtingar þessara strauma inn í hringrásarhagkerfið.

Nýir möguleikar eru að opnast við betri hringrás strauma í tengslum við sjávarútveg. Þar mun gervigreind ekki síst geta komið að gagni til að draga úr veiðum á hliðarafla og brottkasti afla, betri nýtingu sjávarfangs, gæðaeftirlit og umhverfismál.

Íslenski sjávarklasinn hefur lagt áherslu á gildi nýsköpunar og samvinnu útgerða og frumkvöðla til að efla hringrásarhagkerfið innan sjávarútvegsins. Frekara samstarf milli sjávarútvegs, rannsóknar- og þróunar og sprotafyrirtækja skiptir sköpum til að nýta tækifæri til aukinnar hringrásar í sjávarútvegi. Aukinn árangru á þessum sviðum mun skila sér í meiri áhuga neytenda á umhverfisvænni framleiðslu.  

Þeir fjölmörgu frumkvöðlar sem hér eru nefndir eru aðeins dæmi um þá nýsköpun sem er í gangi. Það er mikilvægt fyrir stjórnvöld og fjárfesta um allan heim að veita meiri stuðning og fjárfestingu í þessi verkefni, sem stuðla að frekara samstarfi iðnaðarins og frumkvöðla.