Iceland Fish and Ships
Iceland Fish & Ships er nýtt markaðs- og kynningarefni fyrir íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi, fiskvinnslutækni, skipahönnun og öðrum hliðargreinum sjávarútvegsins. Með Iceland Fish & Ships er ætlunin að kynna undir einni regnhlíf allt það besta sem íslensk fyrirtæki hafa upp á að bjóða í ólíkum geirum sjávarútvegsins.
Höfuðáhersla kynningarefnisins er á gæði og sjálfbærni afurða og umhverfisvænar tæknilausnir íslenskra fyrirtækja. Kynningarefninu er skipt í þrjá flokka eftir starfsemi fyrirtækjanna. Þessir flokkar eru Fishing Ship of Tomorrow, Seafood Processing Technology og 100% Fish.
Fishing Ship of Tomorrow
Fishing Ship of Tomorrow vísar til þeirrar þekkingar og tækni sem Íslendingar hafa upp á að bjóða í tengslum við hönnun, smíði og rekstur skipa. Tugir íslenskra fyrirtækja bjóða þjónustu á þessu sviði til útflutnings. Þetta eru m.a. skipaverkfræðifyrirtæki, hugbúnaðarfyrirtæki, fyrirtæki með öryggisbúnað, fyrirtæki í bátasmíði, kælifyrirtæki, fyrirtæki með umhverfislausnir og fyrirtæki sem bjóða heildstæðar lausnir í fiskvinnslu á skipum.
Áhugavert er í þessu sambandi að sjá hversu framarlega mörg þessara fyrirtækja eru í grænni tækni. Má nefna umhverfisvænar lausnir eða tækni sem stuðlar að betri afurðanýtingu en sambærileg tækni í öðrum löndum. Á þetta er lögð áhersla í Fishing Ship of Tomorrow. Íslenskir skipahönnuðir hafa unnið náið með innlendum útgerðum að hönnun skipa sem eru um margt framúrskarandi. Í því sambandi má nefna nýtingu orku um borð, ný hönnun skipsskrúfu o.fl.
Velta tæknifyrirtækja í tengslum við skip og fiskvinnslu er orðinn talsverður hluti af útflutningi Íslendinga. Sú nýja tækni sem fyrirtækin hafa kynnt í tengslum við skip er m.a. vinnsla og kæling á millidekki skipa, rafvindur, stýranlegir toghlerar, samskiptabúnaður, mjölvinnsla o.fl. sem býr yfir miklum tækifærum á erlendri grundu.
Seafood Processing Technology
Seafood Processing Technology leggur áherslu á íslenskar tæknilausnir sem í boði eru til vinnslu sjávarafla, m.a. fiskvinnsluvélar af ýmsu tagi og tæknilausnir við þurrkun, kælingu og pökkun. Í þessum efnum hafa íslensk fyrirtæki verið leiðandi. Stór hluti starfsemi þessara fyrirtækja hefur verið erlendis en þó má skýra mikinn vöxt þeirra að undanförnu með hliðsjón af vaxandi fjárfestingu innlendra útgerðarfyrirtækja í nýjum búnaði fyrir vinnslu og veiðar.
Nokkrir tugir fyrirtækja bjóða þjónustu á þessu sviði til útflutnings. Þetta eru fyrirtæki með heildarlausnir í fiskvinnslu, fiskþurrkun, niðursuðu, kælingu, vörustjórnun, pakkningum, kerjum o.s.frv. Undanfarin ár hefur verið sérlega mikill vöxtur hjá fyrirtækjum í fiskvinnslutækni og kælilausnum.
Fyrirtækin eru af mjög misjafnri stærð, allt frá risum í alþjóðlegu samhengi yfir í einyrkja. Þau leggja flest mikið upp úr nýsköpun og þróun, að starfa í samvinnu við önnur tæknifyrirtæki. Bjóða þau nokkuð breitt vöruúrval og hafa getu til að sinna stórum verkefnum, bæði vegna stærðar og samstarfs, hvort sem þau eru unnin fyrir aðila innanlands og erlendis.
100% Fish
100% Fish kynnir þau matvæli, heilsuvörur, lyf, hönnun og afurðir sem íslensk fyrirtæki bjóða og tengjast fiski. 100% Fish snýst jafnframt um að kynna hvernig íslensk fyrirtæki búa til ýmis önnur verðmæti úr sjávarafurðum. Hráefnissóun hefur löngum verið fylgifiskur fiskvinnslu. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar að allt að helmingur heimsaflans fari til spillis í vinnsluferlinu og sé ekki nýttur í neinar afurðir.
Á undanförnum áratugum hefur verið byggður upp öflugur iðnaður á ýmsum sviðum bættrar og skynsamlegrar hráefnanýtingar í íslenskum sjávarútvegi. Þurrkun hausa og beingarða er gott dæmi um það. Þessi iðnaður veltir nú um 10 milljörðum króna á ári. Frá árinu 2009 má merkja talsvert skarpan vöxt í útflutningi niðursoðinnar fisklifur, en þorsklifrin er þar langfyrirferðarmest. Útflutningur á niðursoðinni fisklifur frá Íslandi hefur þrefaldast að magni frá 2009 og verðmæti útflutningsins vaxið með. Þá eru ónefndar ýmsar vörur sem tengjast líftækni en nokkur íslensk fyrirtæki á því sviði hafa vaxið nokkuð hratt á undanförnum árum. Þessi fyrirtæki þróa bætiefni, heilsuvörur, snyrtivörur og lækningavörur af ýmsu tagi sem notast við prótín eða lífvirk efni úr sjávarafurðum.
***
Samstarfsaðilar Iceland Fish & Ships