Hús sjávarklasans

Hús sjávarklasans er samfélag yfir 70 fyrirtækja og frumkvöðla í hafsækinni starfsemi. Hér eru fyrirtæki í fiskeldi, fisksölu, sjávarútvegstækni, hugbúnaði, hönnun, líftækni, snyrtivörum og ýmsu öðru. Hús sjávarklasans er samfélag þessara fyrirtækja og vettvangur fyrir þau að skapa saman ný verðmæti. Þúsundir innlendra og erlenda gesta heimsækja Hús sjávarklasans á hverju ári. Hús sjávarklasans er á efri hæð gamals hús sem stendur við Grandagarð 16 við Gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið er á tveimur hæðum og er hvor þeirra um 2.700 fermetrar. Íslenski sjávarklasinn rekur Hús sjávarklasans í samstarfi við Faxaflóahafnir, en húsið var áður kallað Bakkaskemman og á sér ríka sögu.
SAGA BAKKASKEMMUNNAR
Húsið var oft kallað Bakkaskemman og stundum Bakkaskáli en byggingu þess lauk árið 1967. Það hefur alla tíð verið í eigu Reykjavíkurhafnar og var nýtt sem hafnarskemma fyrstu árin eftir byggingu. Hafskip var þá með stærstan hluta hússins á leigu. Hugmyndin var að Bakkaskemman yrði nýtt undir fiskiðnað og á 8. áratugnum setti Bæjarútgerð Reykjavíkur upp kæligeymslu í húsinu. Um fjögurra ára skeið var Togaraafgreiðslan svo með starfsemi sína í húsinu en hún var lögð niður árið 1984. Þá hafði öll löndun togara í Reykjavíkuhöfn verið flutt hingað í Vesturhöfnina og árið 2006 flutti Fiskmarkaður Íslands svo í húsið. Fiskmarkaðurinn er enn á neðri hæðinni en HB Grandi og nokkur smærri fyrirtæki hafa þar einnig aðstöðu. Hér á efri hæðinni var Hampiðjan hins vegar með uppsetningu flottrolla um árabil og árin 2009-2010 var hér frumkvöðlasetur skapandi greina. Hæðin hafði staðið auð um nokkurn tíma þegar ákveðið var breyta hluta hennar í Hús sjávarklasans árið 2012. Hús sjávarklasans hefur vaxið síðan og nær nú yfir alla efri hæð hússins.

FUNDIR & RÁÐSTEFNUR

Hægt er að fá til leigu öll átta fundarherbergin í Húsi sjávarklasans. Fundarrýmin rúma frá fjórum upp í 22 gesti og eru útbúin skjáum eða skjávörpum og öðrum þægindum.

Aðstaða

Íslenski Sjávarklasinn er staðsettur á annari hæð í húsinu. Þar eru 39 skrifstofurými, 8 fundarherbergi, 2 eldhús og veitingarstaður.

Við fórum frá því að vera einangruð með okkar verkefni í fjölbreyttara og líflegra umhverfi. Samskipti okkar við viðskiptavini eru meiri og við erum í meiri tengslum við bransann.
Hjörtur Eimilsson,

Framkvæmdastjóri Navis

Hús sjávarklasans er stundum eins og sjávarútvegssýning 365 daga á ári. Að vera hluti af þessu samfélagi hefur hjálpað okkur mikið.
Atli Már Jósafatsson,

Framkvæmdarstjóri Pólar

Samstarf við Sjávarklasann sem og önnur fyrirtæki innan klasans hefur reynst okkur afar verðmætt. Hérna er frábært andrúmsloft og mjög gott að vera.
Hrönn M. Magnúsdóttir,

Framkvæmdarstjóri Ankra

Matarskálinn

Í hjarta Húss sjávarklasans er veitingastaðurinn og kaffihúsið Matarskálinn þar sem hægt er að njóta matar og drykkjar í glæsilegu útsýni yfir höfnina.