Umbúðir Norðursalts hlutu hin virtu Red Dot verðlaun í Berlín, Þýskalandi 24. október síðastliðinn. Veitt voru verðlaun fyrir Communication Design og hlaut Norðursalt verðlaun fyrir einstaka umbúðahönnun. Alls bárust Red Dot dómnefndinni 7.096 innsendingar í keppnina og fékk aðeins hluti þeirra sem sendu inn verðlaun fyrir hönnun sína. Það má nefna að þeir sem hafa hlotið Red Dot verðlaun í gegnum tíðina eru fyrirtæki á borð við Nike, Apple og Pepsi. Norðursalt er komið í víða dreifingu á Íslandi, Danmörku og Þýskalandi ásamt því að vera á leiðinni í frekari sölu á Norðurlöndunum, Belgíu og Austurríki á næstu mánuðum. Markmið framleiðanda Norðursalts er að hönnun og heildarupplifun neytenda eigi sér rætur á öllum stigum framleiðslunnar, frá gæðunum á vörunni sjálfri yfir í að umbúðirnar veiti neytendum þær upplýsingar og þægindi sem kemur að því að gera hversdagsmatinn betri. Auglýsingastofan Jónsson & Lemacks sá um hönnun á umbúðum og merkjum Norðursalts í náinni samvinnu við Norður & Co, framleiðendur Norðursalts. Nú þegar hafa umbúðir Norðursalts hlotið Lúðurinn frá ÍMARK, FÍT verðlaunin, ásamt því að hafa verið tilnefndir til Silfurljónsins í Cannes. Hönnunarferlið á umbúðum Norðursalts tók 7 mánuði þar sem markmiðið var að endurspegla gæðin á saltinu og það sjálfbæra framleiðsluferli sem er á bak við vöruna. Umbúðirnar hámarka því notendaupplifun með aðgengilegri skúffu ásamt því að vera límlausar sem gerir það að verkum að þær brotna hraðar í náttúrunni eftir notkun.