Í þessum kafla beinum við sjónum okkar að þeim aðilum sem vinna að eldi á fiski og skeldýrum á landi og í sjó. Einnig falla hér undir helstu þjónustuaðilar sem tengjast þessum geira og vinna t.d. að sérhæfðu eftirliti og kynbótum.
Eldi á fiski og skeldýrum er sá angi matvælaframleiðslu sem er að vaxa hraðast á heimsvísu og er í raun að vaxa hraðar en margar spár gerðu ráð fyrir. Stöðugt er verið að þróa nýjar aðferðir sem styrkja hið hefðbundna eldi og gerir mönnum kleift að bæta við nýjum tegundum. Árið 1996 nam framleiðsla úr eldi um 16 milljónum tonna og áætlanir FAO gerðu ráð fyrir að eldi gæti náð 46 milljónum tonna 2010. Samkvæmt nýjustu tölum frá FAO fyrir árið 2009 var heimsframleiðslan 55 milljónir tonna sem er töluvert umfram spána fyrir 2010. Hér á landi hafa skipst á skin og skúrir í eldinu og þróun heildarframleiðslu verið nokkuð undir væntingum. Töluvert hefur verið fjárfest í uppbyggingu á laxeldi, en árangurinn hefur ekki verið í samræmi við spár. Í bleikjueldi hefur aftur á móti verið stöðugur vöxtur og hafa Íslendingar skipað sér í fremstu röð á því sviði.
Staða á heimsmarkaði
Samkvæmt upplýsingum OECD og FAO, var árlegur vöxtur í fiskeldi í heiminum á tímabilinu 2003-2009 6,2%. Á þessu tímabili fór framleiðslan úr tæpum 39 milljónum tonna í rúmlega 55 milljónir tonna, en áætlað er að verðmætið sé 98-100 milljarðar Bandaríkjadala, en það er heldur meira en verðmæti villtra tegunda nam sem er á bilinu 94-96 milljarðar Bandaríkjadala. Árlegur vöxtur í fiskeldi á tímabilinu 2001-2010 var 5,6%, en samkvæmt spám OECD og FAO mun draga úr vexti næsta áratuginn og er gert ráð fyrir 2,8% vexti á ári. Tæplega helmingur alls fisks sem seldur er á heimsmarkaði er úr eldi, en miðað við þróun veiða og vöxt í eldi má ætla að árið 2015 verði orðin meiri sala á fiski til manneldis úr eldi en úr villtum stofnum. Gert er ráð fyrir að árið 2020 muni verð á eldisfiski hafa farið upp um 50% miðað við árin 2008-2010, en sömu spár gera ráð fyrir að verð á villtum fiski fari á sama tíma upp um 20%.
Nokkur Asíuríki eru umsvifamest á heimsvísu þegar kemur að eldi, en um 90% af öllu eldi í heiminum er í Asíu ef litið er til magns og 80% m.t.t. verðmætis. Árið 2009 voru Kínverjar stærstir með 32,7 milljón tonna framleiðslu sem er um 60% af allri heimsframleiðslu í magni. Aðrar þjóðir sem framleiða yfir eina milljón tonna eru Indland (3,4 milljónir tonna), Víetnam (2,4 milljónir tonna), Indónesía (1,6 milljónir tonna), Thailand (1,3 milljónir tonna) og Bangladesh (1 milljón tonna). Í Evrópu voru Norðmenn langstærstir með 844 þús. tonn. Bandaríkin framleiða mest í Ameríku með 500 þús. tonna framleiðslu.
Þegar litið er til einstakra tegunda í eldi er mest framleitt af ferskvatnsfiskum, en þeir lifa ekki á fiskiprótíni eins og flestar eldistegundir sem eru þekktar hér á norðlægari slóðum heldur eru þeir plöntuætur eða alætur sem nærast á jurtum, lífrænum leifum eða dýrum. Kostnaður við eldi þessara tegunda er yfirleitt lægri en hjá þeim er nærast á fiskifóðri, bæði vegna fóðurkostnaðar og einnig vegna þess að umgjörð um eldið er einfaldari. Eldi ferksvatnsfiska getur þannig verið hluti af hefðbundnum landbúnaði þar sem úrgangur frá dýrum og korn er notað í fóðurframleiðslu. Vatnakarpi nýtur mestra vinsælda þegar kemur að eldi ferskvatnsfiska, en oft eru þeir aldir í tjörnum ásamt öðrum fisktegundum og er þá hver tegund sérhæfð í fæðuvali. Þetta er nefnt fjöleldi, en eldi af þessum toga hefur litið verið stundað í Vestur- Evrópu. Eldi á beitarfiski (tilapíu) nemur nú um 3 milljónum tonna á ári og hefur aukist verulega hin síðari ár, mest er framleiðslan í Asíu, Suður-Ameríku og Mið-Ameríku.
Framleiðsla á lindýrum hefur einnig verið töluverð. Sæeyru sem Íslendingar nýta flokkast undir lindýr, en í heiminum er mest ræktað af svokölluðum samlokum sem eru ostrur, hörpudiskur og kræklingategundir. Samlokurnar lifa aðallega á svifþörungum úr sjónum. Ræktun þessara tegunda byggir á söfnun á villtum lirfum, en lirfur eru einnig framleiddar á eldisstöðvum.
Í Asíu er nokkuð ræktað af sjávargróðri. Mest er framleitt af einni tegund brúnþörungs sem líkist beltisþara, en einnig er nokkur framleiðsla á rauðþörungum.
Eldi hér á landi hefur aðallega snúist um eldi sjávar-og göngufiska. Þekktasta eldistegundin sem fellur undir göngufiska er lax, en göngufiskar lifa hluta af lífsferlinu í vatni og hluta í sjó. Eldi sjávarfiska er lítið en vaxandi. Miklar vonir eru bundnar við þorskeldi, en tegundir sem hafa verið áberandi eru túnfiskur og barrri.
Stöðugt er verið að þróa nýjar aðferðir í fiskeldi og bæta við og efla eldi nýrra tegunda. Á síðustu árum hefur eldi á beitarfiski aukist mikið, en um er að ræða tegund sem er fremur meðfærileg í eldi. Algengast er að beitarfiskur sé alinn í tjörnum þar sem hann lifir aðallega á náttúrulegri fæðu en einnig á tilbúnu fóðri. Önnur tegund sem þykir fýsileg í eldi er foringjafiskur (cobia). Foringjafiskur vex hratt eða úr 10 grömmum upp í 6 kílógrömm á 11-15 mánuðum við góðar aðstæður. Hold beitar- og foringjafisks er hvítt og því í samkeppni við aðrar tegundir hvítfisks.
Eldi á fiski sem að mestu nærist á jurtafóðri og alinn er í ódýru eldisrými í tjörnum mun að öllum líkindum veita fiskeldi á norðurslóðum og veiðum á hvítfiski úr Norður-Atlantshafi töluverða samkeppni. Samkvæmt spám FAO er gert ráð fyrir að aukið framboð á fiskmeti á næstu áratugum muni að mestu koma frá fiskeldi og framleiðslan gæti orðið um 90 milljón tonn árið 2030. Áætlað er að framleiðsluaukning muni verða mest í Kína og aukningin muni aðallega verða í eldi ferskvatnsfiska og lindýra. Meginástæðan fyrir þessu er sú að eldi í Kína byggist að grunni til á strjáleldi. Hluti framleiðslunnar er ræktun sjávargróðurs og skeldýra þar sem lífverurnar lifa á þeirri næringu sem er að finna í náttúrunni. Eldi fiska fer að mestu fram sem fjöleldi í tjörnum þar sem samlegðaráhrif eru af mörgum tegundum og þess gætt að hafa hæfilegan fjölda af hverri tegund til að viðhalda vistfræðilegu jafnvægi í tjörninni.
Þróun eldis í Noregi, Kanada og í Færeyjum byggir mikið á laxeldi. Norðmenn eru í hópi umsvifamestu þjóða á sviði fiskeldis, þeir fluttu t.d. út 998.000 tonn af eldislaxi árið 2010 og nam útflutningsverðmæti afurðanna um 666 milljörðum ísl. kr (Fréttabl. 29 júní 2011). Í þessu eldi er fiskurinn fóðraður með tilbúnu fóðri og allur úrgangur sem kemur frá fiskinum fellur til botns. Þetta hefur þótt takmarka nokkuð það svæði sem hægt er að leggja undir eldið, en þó hafa menn smátt og smátt verið að ná tökum á þessu vandamáli. Fóðurkostnaður er einnig hærri en þekkist í eldi hjá þróunarríkjum. Þau ríki sem stunda eldi á laxi hafa reynt að draga úr þessum mun með því að lækka framleiðslukostnað m.a með því að innleiða nýja tækni í eldinu, með ódýrara fóðri og kynbótum. Þannig hefur þróunin verið sú að stærri hluti fóðurs eru jurtaolíur og jurtaprótín. Verið er að gera tilraunir með veiði á ljósátu eða rauðátu til að nota sem fóður í fiskeldi. Einnig eru uppi hugmyndir um að í framtíðinni verði þörungar notaðir til að framleiða olíu sem nýst gæti í eldi.
Staðan hér á landi
Heildarframleiðsla í fiskeldi hér á landi hefur sveiflast nokkuð á milli ára. Á tímabilinu 1985-1990 fór framleiðslan úr nokkur hundruð tonnum í rúmlega 3000 tonn. Frá 1991-2002 hélst framleiðslan í um 3-4000 tonnum, en jókst svo verulega og fór upp í tæp 10.000 tonn með auknu laxeldi 2003-2006. I kjölfar erfiðleika, sem tengdust aðallega sjúkdómum í fiski, hættu nokkur fyrirtæki í laxeldi og heildarframleiðsla fór niður í 4-5000 tonn. Á árinu 2010 var framleiðslan um 5 þúsund tonn og heildarverðmætið var um 4 milljarðar króna. Nú er útlit fyrir að framleiðsla sé að aukast á ný og gert er ráð fyrir töluverðri aukningu á næstu árum.
Óhætt er að fullyrða að uppbygging eldis hér á landi hafi gengið heldur verr en áætlanir gerðu ráð fyrir og mun hægar en hjá helstu nágrannaþjóðum okkar. Margt hefur haft áhrif á þessa þróun. Bent hefur verið á að staðsetning eldisstöðva hafi ekki verið nægilega markviss og búnaður ófullnægjandi. Íslenski laxastofninn reyndist síðan of hægvaxta og ekki nógu sterkur. Umhverfisaðstæður hafa einnig átt sinn þátt, en lágt hitastig sjávar og marglyttuplágur hafa m.a. sett strik í reikningin. En þó vöxturinn hafi ekki staðið undir væntingum kemur reynslan sem orðið hefur til að góðum notum og sú þekking sem skapast hefur getur átt sinn þátt í að hægt sé að auka hér eldi á næstu árum. Hitastig sjávar er einnig að hækka og þekking á eldi í köldum sjó að aukast. Miðað við áætlanir, það sem er í pípunum, má gera ráð fyrir því að næstu 5-7 árin verði framleiðsluaukning upp á um 25 þúsund
tonn að verðmæti um 18-20 milljarða króna miðað við núverandi verðlag.
Mynd 12 – Heildarframleiðsla í eldi lagardýra, árin 2000-2010 – Tonn af ósl. fiski. (Heimild matvælastofnun)
Talið er að um 230-250 manns starfi við fiskeldi hér á landi hjá um 40 fyrirtækjum. Til viðbótar kemur svo nokkur fjöldi afleiddra starfa hjá þjónustufyrirtækjum og stofnunum. Fjöldi fyrirtækja segir þó ekki alla söguna því lunginn af framleiðslunni tilheyrir fáum þeirra. Þannig kemur 92% af öllum sláturfiski úr 10 eldisstöðvum og 77% kemur frá 5 stöðvum ( Landssamband Fiskeldisstöðva (2009).
Bleikjueldið er stærst hér á landi með 47% af heildarhlutdeild. Þorskurinn kemur númer tvö með um 35%, laxinn er með 14% og aðrar tegundir eins og regnbogasilungur, sandhverfa og lúða hver með um 1-1,5%.
Íslendingar hafa nú þegar náð mjög langt í eldi á bleikju, og eru í dag stærstir í heimi. Íslandsbleikja sem er í eigu Samherja er stærsti einstaki framleiðandinn hér á landi. Íslandsbleikja sérhæfir sig í framleiðslu á bleikju, allt frá hrognum og til fullunninna flaka. Afar fullkomin vinnsla er fyrir bleikjuafurðir í Grindavík. Framleiðslugetan er 3.000 tonn af bleikju í 50.000 rúmmetra eldisrými. Bleikjan er send fersk beint í flugi, aðallega til Bandaríkjanna en einnig til Evrópu.
Talið er að hægt sé að tvöfalda framleiðslu á bleikju hér á landi á næstu árum og með kynbótum er álitið að hægt sé að tvöfalda vaxtahraða eldisstofnsins á næstu tuttugu árum (Helgi Thorarenson, Morgunblaðið).
Í þorskeldinu hefur annars vegar verið um að ræða svokallað áframeldi og hins vegar aleldi. Álfsfell ehf. hefur stundað áframeldi, en fyrirtækið byrjaði með fiskeldi í kvíum í Skutulsfirði árið 2002. Áframeldi felur í sér að villtur smáþorskur (1,5-2 kg) er veiddur og alinn í kvíum. Eldið gengur út á að auka lífmassa fisksins, en á einu ári er hægt að tvöfalda hann. Framleiðslan hjá Álfsfelli hefur verið um 200 tonn en áætlanir eru uppi um að stækka það í 900 tonn.
Í aleldinu hefur verið litið svo á að kynbætur séu forsenda fyrir frekari uppbyggingu. Þannig er hægt að þróa eldið með svipuðum hætti og þekkist t.d. í laxeldi. Nokkrir íslenskir útgerðaraðilar hafa sýnt eldinu sérstakan áhuga og hafa fjárfest töluvert í uppbyggingu þess. Hafrannsóknastofnun hefur einnig komið að fiskeldi og lagt til þekkingu og fjármuni. Verkefnið hjá Hafrannsóknastofnun hefur m.a. falist í framleiðslu á seiðum þar sem þekking og reynsla stofnunarinnar hefur verið nýtt, en fyrirtækið Stofnfiskur hefur komið inn með þekkingu á kynbótum.
Ein megin forsendan fyrir því að þorskeldi geti orðið arðbært á Íslandi er að kostnaður við framleiðslu á seiðum sé lítill og framleiðslan örugg. Ekki virðist arðsamt að veiða seiði út í náttúrunni. Betra er að farin sé sú leið sem nefnd var fyrr sem er að stunda aleldi og einnig að ná upp arðbærum vaxtaeiginleikum í stofninum. Kynbæturnar fara þannig fram að teknir eru frá þeir þorskar sem vaxa hraðast. Fyrsta kynslóð þorska var valin 2006 og önnur kynslóð 2009. Þriðja kynslóðin kemur svo til með vera valin 2012. Gert er ráð fyrir 15% aukningu á vaxtahraða hjá hverri kynslóð þannig að gert er ráð fyrir vaxtahraðinn hjá þriðju kynslóð sé 45% meiri en hjá villtum þorski. Afföll í sjó hjá þorski er annað viðfangsefni. Til þess að takast á við þann vanda þarf að þróa bóluefni. Talað er um að þróun í þorskeldi sé ekki ósvipuð og þróun í laxeldi. Þannig voru afföll í laxeldi í sjó hjá Norðmönnum á fyrstu árunum 20-30%. Þróunarvinnan í laxeldinu skilaði því hjá þeim á endanum að þeim tókst að draga úr þessum afföllum og framleiða fisk sem óx hratt og hafði góð holdgæði.
Þrátt fyrir að mikið hafi gengið á í tengslum við laxeldi á Íslandi virðist nú sem að það sé að rofa til og menn sjá fram á aukna arðsemi í greininni og meiri framleiðslu. Einn viðmælenda taldi að verulegrar aukningar í magni í tengslum við eldi væri helst að vænta í laxeldinu. Taldi þessi aðili að Íslendingar væru nú að fara inn í þriðju uppsveifluna á 20 árum í laxeldi.
Tækifæri og áskoranir
Ætla verður að miklir möguleikar séu fyrir hendi fyrir framtíðaruppbyggingu á fiskeldi á Íslandi þó á ýmsu hafi gengið í þróun þess hérlendis. Fjölmargir þættir hafa haft áhrif á þróun fiskeldis hér á landi. Náttúrulegar aðstæður fyrir laxeldi hafa t.d verið fremur takmarkandi þáttur. Hitastig sjávar er einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á fiskeldi, en hitastig sjávar hefur verið að hækka hér við land svo að í dag er það ekki jafn takmarkandi þáttur. Hitastig sjávar hefur verið hér heldur lægra en ef miðað er við það sem menn eiga að venjast í hefðbundnu laxeldi í nágrannalöndunum. Þróun í eldinu hefur þó gert mönnum kleift að stunda laxeldi í sjókvíum á norðlægari slóðum. Kynbætur, breyting á fóðri og betri kvíar ráða þar mestu.
Aðrir þættir sem skipta máli lúta m.a. að því hvernig umhverfið ræður við aukið umhverfisálag sem eldinu fylgir. Straumar og endurnýjun sjávar hafa mikið um magn súrefnis í umhverfinu að segja, en í fjörðum hér á landi er endurnýjun oft hraðari en annarsstaðar þar sem fiskeldi er stundað. Hafís skapar einnig vandamál sérstaklega í flóum og fjörðum norðanlands og austan. Hafís fylgir kaldur sjór og þó að firðir og flóar fyllist ekki af ís fellur hitastigið í sjónum mikið sem gerir eldi á þessum slóðum erfiðara. Að lokum hafa marglyttubreiður sem lagst hafa á eldiskvíar sérstaklega austanlands gert mönnum erfitt fyrir og skapað vandamál. Í dag er þó nokkuð vitað á hvaða firði þessar marglyttubreiður leggjast.
Hingað til hafa menn víða erlendis takmarkað fjölda eldisstöðva á hverju svæði til að koma í veg fyrir botnmengun í fjörðum. Rými fyrir eldi á laxfiskum hefur þannig verið álitinn takmarkandi þáttur fyrir vöxt í greininni. Í dag hafa verið þróaðar aðferðir til að mæta þessum vanda. Með því að breyta staðsetningu á kvíum, færa þær utar í firði og með svokölluðu kynslóðaskiptu eldi hafi menn m.a. náð að leysa þennan vanda. Hér á landi er rými langt frá því að vera takmarkandi þáttur. Einungis er reyndar leyft að ala laxfiska í sjó á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði, en það sem öðru fremur ræður þessu er ótti við blöndun við villta laxastofna. Ekkert er því aftur á móti til fyrirstöðu að þorskeldi fari fram á þeim stöðum þar sem laxeldi er ekki heimilt
Rekstur eldisstöðva er leyfisbundin og hafa komið fram raddir um að leyfisferlið sé flókið og taki langan tíma og sé ekki mjög aðalaðandi fyrir fjárfesta.
Enn er nokkuð í land með að þorskeldi hér á landi verði arðbært. Að geta framleitt þorsk í eldi er þó mjög eftirsóknarvert fyrir sjávarútveg á Íslandi. Mikil vinnsluþekking og miklil fjárfesting í vinnslubúnaði skiptir þar miklu. Með þorskeldi er hægt að fá miklu betri nýtingu á þá fjárfestingu og svo fellur þetta vel inn í það sölukerfi sem rekið er hér á landi í tengslum við sjávarafurðir. Ekki er líklegt að framleiðsla hér á landi verði í verulegu magni, en mögulega ætti að vera hægt að ná 50-100.000 tonna framleiðslu.
Kostnaður við sjókvíaeldi á norðlægum slóðum er almennt talin minni en í landeldi. Íslandi hefur aftur á móti þá sérstöðu að hér er gnægð af heitu vatni sem nýst getur við að þróa eldi á hraðvaxta tegundum hvítfiska sem munu verða fyrirferðarmiklar á vestrænum mörkuðum í nánustu framtíð. Tvö fyrirtæki Stolt Sea farm og Íslensk matorka eru að hefja eldi á Reykjanesi þar sem nýta á þessa kosti landsins. Nálægð við alþjóðaflugvöll er reyndar einn af kostunum við þá staðsetningu. Stolt Sea farm hyggst hefja hér flúrueldi, en Íslensk matorka sér fyrir sér eldi á beitarfiski (tilapiu) og bleikju.
Eitt af því sem viðmælendur skýrsluhöfunda bentu á var að á Íslandi væru kjöraðstæður fyrir klakfisk, kynbætur og hrognaframleiðslu. Það er fyrst og fremst vegna þess að hér hafa menn aðgang að jarðsjó sem er hreinn og einnig ferskvatni sem er hreint, en þessar aðstæður ættu að draga úr hættu á sjúkdómum.
Þó að Íslendingar hafi náð sterkri stöðu í bleikjueldi og þó verð á eldisbleikju sé hátt er sá annmarki að markaðurinn fyrir þessa vöru er fremur lítill. Þessu hefur verið mætt meðal annars með aukinni áherslu á markaðssetningu vörunnar.
Varðandi eldi á samlokum eins og kræklingum virðist sem margt geti valdið erfiðleikum og nokkuð brösulega hefur gengið að byggja upp slíkt eldi hér á landi. Á mörkuðum er kræklingur fremur ódýr afurð og því hefur flutningskostnaður mikið að segja varðandi samkeppnishæfni. Framleiðsla sem er nær mörkuðum hefur þannið mikið forskot. Á móti kemur að eftirspurn eftir þessum afurðum virðist vera nokkuð góð, en erfitt er að auka framleiðslu því rými fyrir kræklingaeldi víða í Evrópu er orðið takmarkað.
Nokkur verkefni í pípunum:
- Flúrueldi á Reykjanesi
Stolt Sea Farm, sem er deild innan norska fyrirtækisins Stolt Nielsen, hyggst hefja eldi á senegalflúru í strandstöð við Reykjanesvirkjun HS Orku. Fyrst yrði reist seiðaeldisstöð með framleiðslugetu upp á tvær milljónir tíu gramma seiða á ári. Framkvæmdir á 500 tonna framleiðslueiningu eru hafnar og síðar verður seinni einingunni bætt við og verður stöðin þá komin í 200 tonna framleiðslu. Gert er ráð fyrir 35 starfsmönnum fyrir fyrstu einingu eldisstöðvarinnar en 75 starfsmönnum þegar stöðin er komin í fulla stærð. Byggt er á 10 hektara lóð. - Íslensk matorka
Fyrirtækið hefur hafið framleiðslu í fiskeldisstöðinni Fellsmúla í Landsveit í Rangárþingi. Framleiðslan er um 1 tonn á mánuði. Sjálfbærni er lylkilþema hjá Íslenskri matorku, en vatn frá bleikjueldi er notað fyrir beitarfisk og svo er meiningin að byggja gróðuhús þar sem vatn frá beitarfisknum verður nýtt til að rækta kryddjurtir. Á Reykjanesi hefur Íslensk matorka uppi áform um að reis eldisstöð fyrir beitarfisk og bleikju. Gert er ráð fyrir að eldi upp á 3000 tonn samtals og að framleiðsla hefjist strax 2012. Í dag starfa um 10 manns við framleiðslu Íslenskrar matorku, en gert er ráð fyrir að þar muni starfa 60-80 manns. - Fjarðalax
Fjarðalax ehf var stofnað 2009 og er í eigu North Landing LLC sem er einn stærsti aðili í innflutningi, vinnslu og dreifingu á ferskum laxi og laxaafurðum á austurströnd Bandaríkjanna. Fjarðalax hefur verið með lax í kvíum í Tálknafirði í tæpt ár og gert er ráð fyrir að slátrað verði í fyrst skipti í lok árs og að í vetur verði flutt út um 800 tonn Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir fjárfestingum upp á þriðja milljarð króna sem fara í að byggja upp kynslóðaskipt laxeldi í þremur fjörðum á sunnanverðum Vestfjörðum. Í framtíðinni er gert ráð fyrir 10 þúsund tonna framleiðslu, en eins og stendur er fyrirtækið með leyfi fyrir 4.500 tonna framleiðslu. Starfsmenn í dag eru 12, en gert er ráð fyrir að þeir verði orðnir 45 er líða fer á árið 2012.
- Arnarlax
Arnarlax vinnur að því að fá starfsleyfi fyrir eldi á þrjú þúsund tonnum af laxi í Arnarfirði. Gert er ráð fyrir að vara verði fullunnin á Bíldudal og myndu við það skapast störf fyrir 50 manns. Bakhjarl fyrirtækisins er norska fyrirtækið Salmus.
- Rifós
Hjá fiskeldisstöðinni Rifósi í Kelduhverfi er alin bæði bleikja og lax. Stefnt er að því að stækka stöðina umtalsvert þannig að ársframleiðslan verði um 1000 tonn en í dag annar Rifós ekki eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins. Í Rifósi hefur lengstaf fyrst og fremst verið framleiddur lax en síðustu misserin hefur bleikjan sótt verulega á enda vart hægt að anna eftirspurn á Bandaríkjamarkaði. Laxinn hefur hins vegar verið seldur innanlands. Á síðasta ári var framleiðslan um 450 tonn. Fyrirtækið er með 12 fasta starfsmenn en ársverk eru um 15. Afurðirnar fara mest til útflutnings, einkum til Bandaríkjanna.
- Stofnfiskur
Fyrirtækið var stofnað 1991, en stærsti einstaki eigandi fyrirtækisins er HB Grandi. Stofnfiskur er eitt stærsta fyrirtæki í heiminum í framleiðslu á laxahrognum og leiðandi í kynbótarannsóknum fyrir fiskeldi. Það er með Laxeldi í Vogum, Höfnum og starfsstöðvar á SV-horni landsins, bleikjueldi í Ölfusi og þorskeldisrannsóknir í Höfnum. Auk þess með starfsstöð á Írlandi og starfsmenn í Noregi og Síle. Alls starfa 40 manns hjá fyrirtækinu. Í ár flytur Stofnfiskur út um 50 milljón laxahrogn fyrir um 800 milljónir króna. Á síðustu tveimur árum hefur um hálfum milljarði verið varið til þess að stækka starfsstöðvar fyrirtækisins. Í framhaldinu mun framleiðsla aukast og er gert ráð fyrir að stax á næsta ári geti fyrirtækið flutt út um 100 milljón laxahrogn.
- Laxar fiskeldi ehf.
Hjá Laxar fiskeldi ehf. er fyrirhugað að setja á stofn 6.000 tonna áframeldi á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði. Eldið verði rekið á þremur eldissvæðum í firðinum. Slátrun verður í Fjarðarbyggð og er gert ráð fyrir að slátrað verði að jafnaði 24 tonnum á dag. Gert er ráð fyrir að í kringum eldið skapist 30 ársstörf og auk þess má ætla að afleidd störf verði um 20. Áætlað er að fiskeldið verði byggt upp á nokkrum árum og miðað sé við að starfsemi verði komin í fulla nýtingu árið 2018.
(kafli úr skýrslu sjávarklasans)
Total production in aquaculture in Iceland has fluctuated somewhat between years. During the period between 1985 and 1990 production went from a few hundred tonnes to over 3,000 tonnes. From 1991 to 2002 production remained at approximately 3,000-4,000 tonnes, and then increased substantially with increased salmon farming in 2003-2006, when the sector shrank again and the total production went down to 4,000-5,000 tonnes. In 2009, the production was approximately 5,000 tonnes and the total value approximately ISK 3bn. In 2010, production increased again and was just under 6,000 tonnes with a value of ISK 5bn. It is believed that around 230-250 people were employed in aquaculture in just under 30 companies.