Í þessum kafla verður fjallað um fyrirtæki og stofnanir sem þróa og selja vörur úr lífverum í hafinu og nýta til þess aðferðir líftækninnar. Oftast er um að ræða nýtingu á lífvirkum efnum. Þessi efni geta til dæmis verið andoxunarefni, litarefni, ilmefni og bragðsterk efni og eru t.d. notuð í matvæli, lyf og snyrtivörur. Framleiðendur á lýsi falla bæði í þennan flokk, en framleiðsla á lyfjalýsi fellur undir líftækni, og einnig í flokk fyrirtækja er sinna matvælaframleiðslu þar sem lýsi er einnig notað í olíur til manneldis.
Áhugi á rannsóknum og nýtingu sjávarlífvera innan líftækninnar hefur verið að aukast hin síðari ár þó umsvifin í svokallaðri sjávarlíftækni séu enn aðeins brot af heildarumsvifum líftæknigeirans á heimsvísu. Þó höfin þeki um 71% af yfirborði plánetunnar hafa vísindamenn hingað til beint sjónum sínum meira að lífríki á landi. Þannig er t.d. stærstur hluti lyfja sem þróaður hefur verið úr náttúruefnum unnin úr plöntum, dýrum eða örverum sem lifa á landi.
Einungis um 5% af höfum jarðar hafa verið könnað til hlítar og talið er að um 1% af lífverum í höfunum séu að einhverju leyti rannsakaðar. Hver dropi af sjó er þannig fullur af lífverum sem menn þekkja ekki og hafa aldrei verið rannsakaðar. Ætla má að flóra þessara lífvera sé fjölbreytt og eiginleikarnir margbreytilegir. Aðstæður í undirdjúpunum eru afar ólíkar frá einum stað til annars, hvað varðar hita, þrýsting, birtu, seltu og sýrustig. Það er því auðvelt að ímynda sér að mikil tækifæri liggi í lífkerfi hafsins með tilliti til þeirra líf- og lyfjavirku efna sem ætla má að lífverurnar þar framleiði.
Hvað er sjávarlíftækni ?
Áður en lengra er haldið er æskilegt að reyna að finna einhverja skilgreiningu á því hvað sjávarlíftækni er. Eflaust er hægt að nálgast það viðfangsefni frá ýmsum hliðum, en oft eru mörk starfs- og fræðigreina fremur óljós. Þannig væri strangt til tekið hægt að skilgreina sum af þeim viðfangsefnum hér á landi sem eru tengd sjávarlíftækni fremur sem matvælavinnslu, en við kjósum hér að hafa skilgreininguna fremur víða þannig að hún rúmi fleiri fyrirtæki en færri.
Í skýrslu sem gefin var út í febrúar 2002 af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins á Akureyri og ber heitið Möguleikar í sjávarlíftækni á Íslandi er að finna skilgreiningu á líftækni og sjávarlíftækni. Samkvæmt skilgreiningu í skýrslunni er líftækni skilgreind sem það fag þar sem frumur eða frumuhlutar eru notuð til þess að framkvæma efnahvörf til að framleiða efni sem við getum nýtt okkur (Möguleikar í sjávarlíftækni á Íslandi). Notast er við aðferðir í erfðaverkfræði, sameindaerfðafræði, ónæmisfræði, frumulíffræði, gerjunartækni, auk ferla til þess að aðskilja og hreinsa efni.
Skilgreining á sjávarlíftækni er sú sama og á líftækni, nema að þá er átt við frumur eða frumuhluta sjávarlífvera en ekki landlífvera. Samkvæmt þessu eru t.d. ensím og bætiefni sem unnin eru úr fiskslógi líftæknilegar afurðir en hins vegar eru þurrkaðir fiskhausar og aðrar „hefðbundnar” afurðir ekki líftæknilegar afurðir.“
Því má bæta við að hefðbundnar kynbætur eru ekki viðfangsefni sjávarlíftækni. Hins vegar mundi kortlagning erfðamengja falla undir líftækni og eins geta breytingar á genum til að ná fram ákveðnum eiginleikum fallið undir líftækni.
Rannsóknir á sviði sjávarlíftækni hafa auðvitað umtalsvert gildi í sjálfu sér, en þegar kemur að hagnýtu gildi slíkra rannsókna virðast möguleikarnir óþrjótandi. Með aðferðum líftækni er t.d hægt að rannsaka og nýta eiginleika sem lífverur í hafinu hafa þróað. Þetta geta verið eiginleikar eins og t.d. kuldaþol, vörn gegn oxunarálagi og örverum, en um leið og tekist hefur að einangra þessa eiginleika er hægt að nýta þá við ræktun t.d. á landi.
Talið er að fjölmargar sjávarlífverur sem ekki hafa verið rannsakaðar framleiði og gefi frá sér ýmis lífvirk efni með áður óþekkta eiginleika. Þessi lífvirku efni eru stundum nefnd annars stigs efnaskiptaafurðir, en það eru efni sem eru lífverunni í sjálfu sér ekki bráðnauðynleg til vaxtar en veita henni forskot í lífsbaráttunni. Þessi efni geta til dæmis verið andoxunarefni, litarefni, ilmefni og bragðsterk efni sem lífveran framleiðir sér til varnar, til fæðuöflunar, samskipta og fleira. Þessi efni er sum hægt að nýta m.a. í lyfjaiðnaði, en nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að með aðferðum líftækni er hægt að þróa efni með lyfjavirkni sem hafa meiri virkni í líkamanum en sambærileg efni unnin með efnafræðilegum aðferðum.
En afurðir sjávarlíftækni geta ekki aðeins nýst á sviði lyfjaframleiðslu. Miklir möguleikar eru einnig m.a. á sviði heilsu- og lækningavara, í snyrtivörum og fæðubótarefnum og vörum tengdum fiskeldi. Auk þess er verið skoða möguleika á að blanda lífvirkum efnum í matvæli og þróun líftæknilegra aðferða við að framleiða eldsneyti eru komnar nokkuð á veg.
Frá upphafi áttunda áratugar síðustu aldar, en við þann tíma er oft miðað þegar horft er til upphafs sjávarlíftækninnar, hefur tekist að einangra um 20.000 ný efni sem nýst geta við þróun líftækniafurða og lyfja með aðferðum sjávarlíftækninnar.
Mynd 16 – Á myndinni eru mismunandi tegundir af plöntusvifi sem eru örsmáar, venjulega smásæjar plöntur eða lífverur sem líkjast plöntum og fljóta í sjónum. Þær mynda undirstöðu fæðukeðjunnar í hafinu og þá um leið fæðu allra annarra dýra í sjónum, beint eða óbeint. (Mynd NASA)
Sjávarlíftæknigeirinn á heimsvísu
Samkvæmt skýrslu sem gefin var út af Maritime Board of the European Science Foundation er áætlað að vöxtur í sjávarlíftækni geti orðið um 12% á ári. Forsendur vaxtar að mati skýrsluhöfunda eru m.a. þær að góð samvinna náist á milli fyrirtækja, háskóla og annarra er hagsmuna eiga að gæta. Í skýrslunni er talið að þessi geiri hafi velt um 2,8 milljörðum Evra á heimsvísu árið 2010.
Í annarri skýrslu sem gefin var út af Global Industry Analyst, Inc. er gert ráð fyrir að umsvif á sjávarlíftæknimarkaðinum á heimsvísu muni ná 4.1 milljarði Bandaríkjadala 2015. Talið er að það sem muni helst hafa áhrif verði aukin eftirspurn eftir lækna- og lyfjatengdum vörum, fiskeldi, fæðubótarefnum (nutraceutical) og vörum fyrir iðnaðarframleiðslu. Bent er á að heldur hafi hægt á vexti í þessari grein á árunum 2008 og 2009 í kjölfar kreppunnar, en nú virðist sem fyrirtækin séu að ná sér á strik á ný.
Þegar kemur að mörkuðum fyrir afurðir sjávarlíftækni er sviðið breitt, allt frá kaupendum að fóðurvörum til lyfja og alltaf eru að bætast við nýjungar sem fjölga möguleikum kaupenda. Í snyrtivörugeiranum er nú t.d. komin undirflokkur sem nefnist virkar snyrtivörur eða „cosmoceuticals“. Þetta eru vörur sem eru einhvers staðar á bilinu milli fæðubótarefna og lyfja; efni sem rannsóknir hafa sýnt að breyta eiginleikum húðar við reglulega notkun.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hinar mismunandi greinar sjávarlíftækni og hvernig hagnaðarvon eykst eftir því sem varan verður flóknari og krefst meiri tíma og rannsókna. Myndin segir okkur líka að þær vörur krefjast meiri fjármuna og að þolinmæði fjárfesta þarf að vera mikil.
Stærsti markaðurinn fyrir afurðir líftækni og sá sem er í örustum vexti tengist heilbrigðisþjónustu. Einnig er mikill vöxtur í þeim hluta geirans sem nefndur er “marine bioactive substances”. Þegar kemur að iðnaðarlíftækni eru fá slík fyrirtæki skráð á hlutabréfamörkuðum. Hins vegar er ekki óalgengt að fyrirtæki sem voru iðnaðarlíftæknifyrirtæki, hafi þróast og færst upp í verðmætari enda þessa geira með því að bjóða upp á verktöku eða útfærslu á aðferðafræði fyrir sérstaka ferla, til dæmis í lyfjaþróun (Frá þróunarstarfi til markaðsárangurs).
Í Japan og Bandaríkjunum er mikil aukning á fjárstreymi til rannsókna á þessu sviði og óhætt er að fullyrða að þessi ríki séu leiðandi á markaði fyrir afurðir tengdar sjávarlíftækni. Í Bandaríkjunum hefur verið komið á stofn mörgum vel búnum rannsóknastofnunum er sérhæfa sig á þessu sviði.
Samkvæmt skýrslu sem gefin var út af Evrópusambandinu 2003 um líftæknigeirann var sjónum m.a. beint að smærri hagkerfum eins og Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Íslandi og Sviss, en að mati skýrsluhöfunda virtist einna hraðastur vöxtur í líftæknigeiranum í þessum ríkjum. Velta má því fyrir sér hvort að Ísland hafi tapað niður því forskoti sem þarna er rætt um. Mikil áhersla og miklum fjármunum hefur verið varið til þess að þróa þennan geira í nágrannaríkjunum og ör þróun hefur t.d. verið í Noregi, en þar er litið svo á að þróun hafi verið frá fiskveiðum til fiskeldis og að næsta skrefið sé sjávarlíftækni. Norsk stjórnvöld hafa sett sér háleit markmið í þessum efnum sem felast m.a. í að fækka flöskuhálsum, efla klasa og auka norrænt samstarf og ekki síður alþjóðlegt samstarf. Litið verður sérstaklega til þessa hvar Norðmenn eru sterkir fyrir og er þá fyrst of fremst verið að tala um líftækni tengda hafinu og fiskeldi. Meðal þess sem norsk stjórnvöld hafa gert er að stuðla að því að sett hefur verið á fót hið svokallaða Arena verkefni og fjallað var um í öðrum kafla. Árið 2008 voru skilgreindir 22 klasar innan verkefnisins. Þeirra á meðal var Omegaland klasinn sem staðsettur er í Álasundi og einbeitir sér að fyrirtækjum í þróaðri lýsisvinnslu, en á árunum 2004-2006 var lögð áhersla á tækifæri tengd sjávarlíftækni í gegnum Bioklynge Nord sjávarlíftækniklasann. Utan við þetta verkefni eru svo að þróast klasar tengdir sjávarlíftækni aðallega í Tromsö og Bergen. Í Tromsö voru árið 2010 um 500 starfsmenn tengdir um 400 líftæknifyrirtækjum. Stærst af þeim fyrirtækjum er ProBio sem framleiðir Omega-3 og lyfjavörur, en fyrirtækið er með um 240 starfsmenn og veltir rúmlega 300 milljónum NOK.
Ef litið er til landa utan Evrópu við Norður-Atlantshaf þá hefur Kanada verið að styrkja stöðu sína verulega, en á Nova Scotia svæðinu aðallega í Halifax er að verða til klasi um 55 fyrirtækja er tengjast sjávarlíftækni. Áætlað er að þessi fyrirtæki fjárfesti árlega fyrir um 110 milljónir Kanadadollara í rannsóknum. The National Research Council í Kanada lagði á tímabilinum 2005-2010 til um 25 milljónir Kanadadollara til að örva vöxt og þróun þessa klasa og efla fyrirtæki.
Staða Íslands
Hér á landi starfa a.m.k. 14 fyrirtæki á sviði sjávarlíftækni, en starfsmenn hjá þessum fyrirtækjum eru á bilinu 50-70. Eftirfarandi fyrirtæki starfa innan sjávarlíftæknigeirans á Íslandi: Matís, Lýsi hf, ChemoBacter, Iceprotein, Marinox ehf., Grýta, Norður, Esímtækni, Primex, Genís, Kerecis, MPF Ísland ehf., BioPol og Akthelia ehf.
Flest fyrirtæki sem eru í þessum geira eru enn með vörur á rannsóknarstigi og hafa ekki hafið eiginlega framleiðslu. Nokkur fyrirtæki eru þó komin lengra og eru að selja vörur inn á markaði bæði hér á landi og erlendis. Hér má nefna Primex, Norður og Ensímtækni, en þessi fyrirtæki eru búin að vera með starfsemi lengur en 10 ár. Einnig má nefna Lýsi hf. sem hefur verið með starfsemi síðan 1938. Það reyndist erfitt að fá fyrirtæki til að gefa upp tölur um veltu, en ætla verður að heildarumsvif séu á bilinu 600 milljónir til einn milljarður. Öll fyrirtækin stefna að því að markaðssetja vörur sínar fyrst og fremst á erlendum mörkuðum.
Á Íslandi hefur Matís látið mest að sér kveða í tengslum við verkefni tengd líftækni. Verkefnin hafa m.a. falist í því að skima fyrir lífvirkum efnum í íslenskri náttúru. Í leit að lífvirku efnunum er lögð mikil áhersla á hafið. Möguleikar eru m.a. í nýtingu á þörungum og aukaafurðum úr fiski. Matís hefur einnig verið að skoða nýtingu á sæbjúgum og hákarlabrjóski þar sem íslensk ensím úr örverusafni Matís eru notuð við vinnsluna. Einnig eru nokkur fyrirtæki sem sérhæfa sig að einhverju eða öllu leyti í iðnaði eða rannsóknum nátengdum sjávarlíftækni. Viðfangsefni þessara fyrirtækja hafa fyrst og fremst verið að auka nýtingu sjávarfangs og hefur hráefnið í þær vörur sem verið er að þróa í flestum tilvikum verið það sem til fellur við hefðbundna vinnslu sjávarafurða. Fyrirtækin sækja inn á ólíka markaði með vörur sínar. Flest fyrirtækin eru að selja eða þróa vörur fyrir matvælavinnslu eða fyrir lyfja og lækningavörumarkaðinn, en einnig er verið að vinna vörur til iðnaðarframleiðslu, fæðubótarefni, snyrtivörur og vörur fyrir fiskeldi. Sjá yfirlit yfir fyrirtæki.
Þegar kemur að því að byggja upp öflug fyrirtæki í sjávarlíftækni á Íslandi kemur fljótlega upp spurningin um hvort hér séu aðstæður svipaðar eða ólíkar því sem gerist annars staðar? Sérstaða getur jú skapað forskot og styrk sem aðrir hafa ekki. Aðgangur að hafi skapar ekki sérstöðu í sjálfu sér og ekki verður sagt að fjöldi vísindamanna sé óvenju mikill nema þegar beitt er hinni klassísku höfðatölureglu. Þegar kemur að því að meta hver sé staða Íslands í samanburði við helstu þjóðir er við berum okkur saman við þegar kemur að sjávarlíftækni, eru nokkur atriði helst nefnd. Hafsvæðið býður um margt upp á töluverða fjölbreytni og lífríkið sem laðar að sér og viðheldur stórum fiskistofnum virðist öflugt. Rúmlega 2000 tegundir botndýra hafa t.d. fundist og verið greindar innan lögsögunnar, en árið 1992 fór af stað verkefni til að kanna tegundasamsetningu, útbreiðslu og magn botndýra í hafinu umhverfis Ísland.
Tækifæri og áskoranir
Almennt er talið að efnin úr íslenskri náttúru hafi sérstöðu m.a. vegna þess að lífverur í íslenskri náttúru búa við erfið skilyrði á norðurslóðum og hafa þurft að framleiða öflug lífefni til að þola ytra álag. Ímynd landsins þegar kemur að náttúru og umhverfi er einnig fremur góð og tengist hreinleika, sjávarútvegi og náttúrfegurð, en sú ímynd getur stutt við vörur í ákveðnum afurðaflokkum eins og t.d. heilsuvörum og snyrtivörum. Þegar kemur að íslenska vísindasamfélaginu er hægt að líta á smæð þess sem ákveðinn styrk. Boðleiðir eru stuttar og tækifæri til þess að vinna þvert á fræðasvið eru mikil. Þó heildarfjöldi fræðimanna sé ekki mikill virðast gæði þess rannsóknarstarfs sem unnið er vera mikil og áhugi er meðal erlendra fræðimanna á samstarfi í tengslum við rannsóknir. En þó rannsóknarhluti líftæknigeirans sé nokkuð sterkur hefur verið á það bent að þekking á sölu og markaðssetningu sé fremur takmörkuð og standi mörgum líftæknifyrirtækjum fyrir þrifum. Einn viðmælandi taldi að eina ráð Íslendinga til að takast á við þann vanda væri að viðurkenna vanmátt okkar og kaupa þá þjónustu af erlendum aðilum, a.m.k. meðan fyrirtækin væru að fóta sig inn á þessum nýju mörkuðum.
Í samtölum við fulltrúa sumra líftæknifyrirtækja kom fram það viðhorf að erfiðlega gengi að fá fjármagn inn í slík fyrirtæki hér á landi, enda væru þau mörg hver fjárvana. Fjárfestar virðast halda að sér höndum og fyrirtækin upplifa mörg hver að samkeppnissjóðir hins opinbera séu frekar sniðnir að þörfum stofnana en fyrirtækja. Aðrir voru jákvæðari og töluðu um að fjármögnun hafi gengið ágætlega. Þetta virtist sérstaklega eiga við þar sem fyrirtækin höfðu fengið öflugt sjávarútvegsfyrirtæki inn í hluthafahópinn. Aðkoma þeirra gerði fjármögnun einfaldari og trúverðugleiki gagnvart fjárfestum jókst. Einnig var talað um að með þeim kæmi ákveðin fagmennska í rekstri, aukin þekking og rekstraragi.
Sumir þessara aðila töldu að opinberar stofnanir væru að soga til sín of mikið af því fjármagni sem kemur frá rannsóknarsjóðum. Í mörgum tilfellum eru hinsvegar stofnanirnar að sækja fé í sjóðina með fyrirtækjunum til að framkvæma rannsóknir og þróun fyrir líftæknifyrirtækin, enda oft með betri aðstöðu og fleiri rannsóknarmenn en fyrirtækin. Til dæmis eru flest sjávarlíftækniverkefni sem unnin eru á Matís samstarfsverkefni Matís og fyrirtækja í greininni.
Einnig var rætt um að það vantaði tillfinnanlega þekkingu á markaðsmálum í þessum geira. Þetta hefði áhrif á áherslur í vöruþróun og einnig ylli þetta því að erfitt væri að komast djúpt inn á markaði.
Ljóst er að efla má verulega þann hluta sjávarklasans sem lýtur að líftækni og auka fjölbreytni þeirra verkefna. Á það hefur t.d. verið bent að hér hafi kannski verið of mikil áhersla lögð á líftæknilega nýtingu á vannýttum fiskúrgangi, en minni áhersla verið lögð á viðskiptahugmyndir sem ganga út á að uppfylla þörf á markaði (Líftækninet í auðlindalíftækni).
Hér er það kannski fyrst of fremst breytt hugarfar sem þarf að koma til, en þó ekki bara það því eins og víða annars staðar í sjávarklasanum er skortur á markaðsþekkingu og samþætting markaðs- og þróunarvinnu ábótavant. Annað sem tengist mannauði lýtur að íslenska menntakerfinu. Það er stundum talað um að tvö helstu skilyrði fyrir vexti séu öflugt rannsóknarsamfélag og fjöldi útskrifaðra nemenda með þjálfun. Lengst af hefur lítil áhersla verið lögð á hafið innan Háskóla Íslands og hafa svokölluð framleiðslufræði fengið litla athygli. Efnaverkfræði er t.d. aðeins hægt að læra erlendis og fáir eru menntaðir í flæðiferlum (process technology). Háskólinn á Akureyri hefur aðeins reynt að bæta úr þessu og býður hann nú einn íslenskra háskóla upp á sérhæft nám í líftækni, en nám á skyldum sviðum er í boði við Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólann á Hólum. Eins og fyrr segir er líftækni tiltölulega ný grein innan Háskólans á Akureyri, en hún hefur verið kennd frá haustinu 2002. Alls hafa um 65 nemendur skráð sig í nám í Líftækni og þar af 26 lokið námi. Ljóst er að gera má mun betur í tengslum við menntun er nýst getur greinum eins og líftækni. Ekki er að efa að tækifærin eru næg. Til að tryggja að þessi menntun nýtist er afar mikilvægt að háskólar landsins og atvinnulíf séu samstíga og vinni vel saman.
Meðfylgjandi er yfirlit yfir starfsemi helstu fyrirtækja í Líftækni:
- Lýsi hf. (Stofnað 1938)
Lýsi hf. er án efa stærsta fyrirtækið er tengist líftækni. Ekki mun þó nema hluti af starfseminni falla undir þennan flokk, en óhætt er að fullyrða að öll flóknari vinnsla sem tengist t.d. lyfjalýsi eigi hér heima. Auk afurða unnum úr fiskiolíu hefur LÝSI einnig verið leiðandi í þróun og markaðssetningu á fæðubótarefnum og vítamínum. Aðalverksmiðja og höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Reykjavík en þess utan er LÝSI með lifrarbræðslu, hausaþurrkun og framleiðslu á gæludýrafóðri í Þorlákshöfn. - Sero/Grýta (Stofnað 1999)
Fyrirtæki sem er staðsett í mjólkurstöðinni á Blönduósi. Notar fiskprótein til að framleiða bragðefni og súpur til útflutnings. Þá framleiðir fyrirtækið bragðefni úr humarklóm, þangi og margskyns afskurðum fiskvinnslu. Þeir sem kaupa vörur fyrirtækisins eru stórir súpuframleiðendur og þeir sem framleiða allskonar bragðefni fyrir veitingahús og matvælaiðnað. Humarkraftur fer m.a. til eins stærsta bragðefnafyrirtækis heims í Þýsklandi. Grýta er eigu Auðhumlu, samvinnufélags mjólkurframleiðenda. 4-5 manns starfa nú við fyrirtækið en gert er ráð fyrir að í framtíðinni verði þetta 10-15 manna fyrirtæki. - NorðurÍs /Norður ( Stofnað 1999)
Vinnsla NorðurBragðs fer fram á Höfn. Fyrirtækið var stofnað árið 1999 af Norðri ehf. en það fyrirtæki er í eigu vísindamanna og sérfræðinga. Verkefnið var rannsóknir á kuldavirkum ensímum og hvernig hægt er að nýta ensímin í iðnaði. Meðal þess sem NorðurÍs hefur þróað eru aðferðir til að framleiða NorðurBragð. NorðurBragð er frosið þykkni sem kallar fram ferskt sjávarbragð. Það er unnið úr sjávarfangi og er algjörlega án íblöndunarefna. - Primex (Stofnað 1999)
Verksmiðja sett á laggirnar 1999. Vinnur Kítósan úr rækjuskel, en efnið er þekkt og mikið notað í fæðubótar- og snyrtivöruiðnaði. Hluthafar fyrirtækis í dag eru Ramminn, Nýsköpunarsjóður, Samherji og Síldarvinnsla. Fyrirtækið síðan 2005 búið að fara í gegnum mikla endurskipulagningu og á ný er nú að skapast svigrúm til aukinnar rannsóknar og þróunarvinnu. Fyrirtækið er með tvö vörumerki og er á fullu í vöruþróun. Vinna að rannsóknum á efni sem getur aukið geymsluþol á kjöti og fiski. Gera ráð fyrir þriðjungs stækkun á næstu tveimur árum. - Genís (Stofnað 2005)
Genís sprettur út úr fyritækinu Primex og hefur frá árinu 2005, undir stjórn Jóhannesar Gísla-sonar, einbeitt sér að þróun á Kítósan til notkunar við bæklunarskurðlækningar með ígræðslu í beinvef. Niðurstöður verkefnisins hafa skapað grundvöll fyrir viðamikla einkaleyfisumsókn en félagið hefur þegar lagt inn nokkrar einkaleyfaumsóknir sem tengjast verkefninu og var fyrsta einkaleyfið formlega veitt í Evrópu á 2008. Komið hefur í ljós að Kítósan er beinvaxtarhvetjandi auk þess að hafa t.d. bólguhemjandi eiginleika. Stjórnun eiginleika kítósansins og stjórnun efnisgerðar og efniseiginleika hýdroxýapatítsins, svo og samspil þessara þátta á örskala, munu gegna lykilhlutverki í að hanna beinsement með heppilegum eiginleikum hvað varðar t.d. lífvirkni, styrk og hörðnunartíma. Markmiðið er að þróa nýjar vörur fyrir bæklunarskurðlækna. Áætlað er að árið 2012 muni fyrirtækið vera farið að hafa tekjur af framleiðslunni. Núverandi hluthafar í Genís eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Hólshyrna ehf. - Iceprotein (Stofnað 2005)
Iceprotein er staðsett í Verinu, Vísindagörðum, Sauðarkróki. Fyrirtækið var stofnað 2005 sem sprotafyrirtæki byggt á rannsóknum RF (nú Matís ohf). Markmiðið var nýting vannýttra próteina með þróun, framleiðslu og sölu próteinafurða fyrst og fremst úr fiski. Það hefur lengst af verið megináherslan, en að undanförnu hefur verið jafnframt horft til annarrar uppsprettu próteina og ýmissa þróunarverkefna með matvælavinnslum. Einnig er fyrirtækið aðili að tveggja ára verkefni með Matís sem lýkur 2011 og felst í að þróa vinnslulínu til að framleiða hágæða lífvirk ufsapeptíð og lágmarka oxun (þránun) sem er vandamál í núverandi vinnslu. Eigendur fyrirtækisins eru tveir, FISK Seafood hf og Matís hf. - Ensímtækni ehf /Zymetech (Stofnað 1996)
Ensímtækni ehf. sérhæfir sig í rannsóknum á ensímum unnum úr sjávarlífverum. Ein helsta vara fyrirtækisins er PENZIM húðáburður en fyrirtækið býður upp á vörur sínar í ýmsum löndum Evrópu og nýlega Bandaríkjunum. Vörur sem fyrirtækið selur flokkast að mestu undir snyrtivöru og vörur sem hafa læknandi áhrif. Fyrirtækið var stofnað af Jóni Braga Bjarnasyni prófessor í lífefnafræði við Háskóla Íslands ásamt nokkrum öðrum. - Kerecis ehf (Stofnað 2007)
Kerecis ehf. fæst við rannsóknir, vöruþróun og framleiðslu á lækningavörum unnum úr fiskipróteinum. Kerecis mun einbeita sér að vöruþróun fyrir þann hluta lækningavörumarkaðarins sem snýr að meðhöndlun á sköðuðum vef („tissue engineering“). Vörur og tækni fyrirtækisins eru á þróunarstigi og er skráning á einkaleyfum hafin til að verja tækni félagsins. Hráefni í framleiðslu Kerecis er unnið úr eldisþorski frá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru. Árið 2010 setti fyrirtækið á stofn lækningavöruverksmiðju á Ísafirði. Þar starfa nú 5 manns, en ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir er gert ráð fyrir 15 starfsmönnun strax á næsta ári við framleiðslu, gæðaeftirliti og mælingar. - MPF Ísland ehf. (Stofnað 2006)
Fyrirtæki er með starfsemi í Grindavík. Það framleiðir hágæða fiskiprótein skv einkaleyfisvarinni aðferð úr afskurði og beinamarningi bæði sem íblöndunarefni í fiskvörur en einnig sem hráefni í s.k. surimi. Fyrirtækið er einnig að þróa þurrkuð prótein til manneldis, t.d. sem fæðubótarefni. - BioPol ehf, (Stofnað 2007 )
Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf er staðsett á Skagaströnd og hóf formlega starfsemi þann 1. september 2007. Starfsmenn setursins eru 5. Kjarnastarfsemi setursins byggist á rannsóknum á lífríki Húnaflóa. Markmið rannsóknanna geta m.a. beinst að möguleikum á nýtingu sjávarfangs sem ekki hefur haft skilgreind not eða eiginleikar ekki verið þekktir. Einnig gæti rannsóknarstarfið beinst að umhverfisvöktun með sérstaka áherslu á að fylgjast með breytingum á lífríkinu, áhrifavöldum og afleiðingum. - Akthelia ehf. (Stofnað 2002)
Akthelia Pharmaceuticals var stofnað árið 2002 af nokkrum íslenskum og sænskum vísindamönnum. Fyrirtækið þróar sýklalyf sem innihalda vissar smásameindir sem geta örvað meðfæddar varnir líkamans og þannig unnið bug á smitsjúkdómum. Notast er við lyfjavirk peptíð sem m.a. eru unnin úr fiskroði. Fyrirtækið hefur sótt um tvö einkaleyfi til verndar tækninni sem lyfjaþróunin byggir á. Í gangi eru forklínískar og klínískar rannsóknir sem prófa virkni tækninnar gegn sýkingum í meltingarvegi og öndunarfærum.
(kafli úr skýrslu sjávarklasans)
Numerous biotech companies have been established in Iceland in recent years. The companies are for intance Primex, Northtaste, Zymetech and Kerecis. These companies are often based on the close co-operation of fisheries companies, marine biologists and chemists. It is estimated that their turnover was approximately ISK 800-900m in 2011.