Sjávarútvegur og tengd matvælavinnsla er sá hluti sjávarklasans sem á sér lengsta sögu. Upphaf reksturs hluta þeirra fyrirtækja sem þar starfa má rekja til fyrrihluta síðustu aldar og inn í þeim fyrirtækjum má finna börn og barnabörn stofnaðilanna. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi sjávarútvegs og tengdrar matvælavinnslu fyrir íslenskt þjóðarbú. Íslendingar eru í hópi 20 stærstu fiskveiðiþjóða heims og eru meðal þeirra þjóða er treysta mest á útflutningstekjur vegna fiskveiða. Sjávarútvegur er þannig ein af burðarstoðum íslensks efnahagslífs, ólíkt því sem gerist víða í þeim löndum sem við berum okkur saman við, þar sem sjávarútvegur er settur á stall með landbúnaði og nýtur styrkja frá opinberum aðilum.

Undir sjávarútveg og tengda matvælavinnslu falla fyrirtæki sem hafa starfsemi á Íslandi og stunda fiskveiðar bæði innan og utan íslenskrar lögsögu. Einnig fyrirtæki í vinnslu sjávarafurða og stunda matvælavinnslu að einhverju leiti þar sem unnið er úr sjávarafurðum.

Til er mikið af gögnum um fjölmarga þætti er tengjast útgerð og fiskvinnslu, en hér er tvímælalaust um að ræða þann hluta klasans sem mest hefur verið fjallað um. Eins og fyrr segir mun kenning Porters um Demantinn vera höfð til hliðsjónar við þessa greiningu, þannig að horft verður til framleiðsluskilyrða, eftirspurnarskilyrða, styrks tengdra greina og gerðar fyrirtækjanna. Í ljósi þess hve saga sjávarútvegs og fiskvinnslu er löng hérlendis verður einnig ögn staldrað við þætti er tengjast þróun greinarinnar.

Fiskveiðar Íslendinga

Fiskveiðilögsaga Íslendinga er um 760 þúsund ferkílómetrar að stærð og þar er að finna nokkra af stærstu fiskistofnum Norður-Atlantshafsins. Hitastig og selta ráða miklu um framleiðni einstakra hafsvæða, en Ísland er á mótum sjógerða sem berast að úr suðri og norðri. Þessi straumamót, þar sem hlýr angi af Golfstraumnum mætir köldum Austur-Grænlandsstraumnum, er meginástæða þess að hér eru auðug fiskimið. Á þessum straumamótum skapast kjöraðstæður fyrir svifþörunga. Þeir eru grunnur lífs í hafinu og undirstaða fyrir öfluga fiskistofna. Um 270 fisktegundir hafa fundist í íslenskri efnahagslögsögu og vitað er að um 150 tegundir hrygna innan hennar. Lítið er vitað um stofnstærð og útbreiðslu flestra þessara tegunda, en rúmlega 20 stofnar eru nýttir hér við land í einhverju magni (hafið stefnumótun)

Íslendingar hafa alla tíð sótt sjóinn og lifað af þeim gæðum sem er að finna í hafinu. Botnfisktegundir eins og þorskur og ýsa hafa ævinlega verið nýttar, en ekki skapaðist hefð fyrir nýtingu margra annarra tegunda fyrr en á síðustu öld. Komu þar m.a. til tækninýjungar í tengslum við gerð báta og veiðarfæra.

Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar fjölgaði togurum, en aflinn byggðist að mestu á botnlægum tegundum, en einnig voru stundaðar veiðar á síld. Heildarveiði á fyrstu tveimur áratugum aldarinnar fór úr um 40.000 tonnum í um 100 þúsund tonn. Þorskur var og er mikilvægasta botnfisktegundin, en hlutur þorsks í heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða nemur 33%. Ýsa og ufsi hafa einnig skipað stóran sess og síðan karfi er leið á öldina. Eins og fyrr segir var það ekki fyrr en upp úr lokum fyrri heimstyrjaldar að veiðar uppsjávartegunda eins og síldar fóru að aukast. Undir lok aldarinnar var loðnuveiði svo farin að hafa mikil áhrif og átti sinn þátt í að heildarveiði fór upp í um tvær milljónir tonna undir lok aldarinnar. Rækjuveiðar hófust á millistríðsárunum, en magnið var lengst af vel innan við 10.000 tonn. Mestar urðu rækjuveiðarnar um 90.000 tonn um aldamótin, en í kjölfarið hrundi stofninn og markaðir drógust saman og hefur veiðin síðustu ár verið fremur lítil. Mikil aukning varð einnig í veiði flatfiska á síðustu áratugum síðustu aldar, magnið var ekki mikið í samanburði við aðrar tegundir, en verðmætin voru töluverð. Á síðustu árum hefur loðnuveiðin dalað nokkuð, en síldveiði hefur verið að aukast og einnig hefur veiði á makríl aukist verulega.

Mynd 3 – Afli á Íslandsmiðum 1945-2010 í magni tonnum. Heimild Hagstofa.

Stærstur hluti afla íslenskra skipa var lengst af á Íslandsmiðum, en á síðustu áratugum tuttugustu aldar jókst veiði utan lögsögu nokkuð. Eins og fyrr voru framfarir í þróun skipa og veiðarfæra sem höfðu þar mest áhrif, en fyrstu skuttogararnir voru teknir í notkun um 1970. Utan lögsögu hefur verið sótt í stofna eins og t.d loðnu, kolmunna, karfa, grálúðu, norsk-íslenska síld, makríl, rækju og þorsk. Veiðar þessar hafa dregist verulega saman á síðustu árum. Nú eru aðallega veiddar upp­sjávar­tegundir sem halda sig bæði utan og innan lögsögunnar. Þó dregið hafi úr þessum veiðum hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna þó áætlað að enn komi um 30% tekna af íslenskum sjávarafurðum vegna veiða úr þessum stofnum.

Fram eftir síðustu öld var talið að fiskistofnarnir væri nánast óþrjótandi og veiðar voru nánast frjálsar. Árið 1975 birti Hafrannsóknastofnunin og starfshópur á vegum Rannsóknarráðs ríkisins skýrslur um bágt ástand fiskistofna á Íslandsmiðum sem leiddi til umræðu um stjórn fiskveiða og hvernig hagkvæmast væri að nýta fiskstofnana. Ljóst var að draga þyrfti verulega úr sókn. Í framhaldinu hófu stjórnvöld að hefta veiðar sem m.a. leiddi til þess að árið 1984 var kvótakerfið sett á. Lög sem leyfðu framsal kvóta tóku svo gildi árið 1991. Meginmarkmið kerfisins var að draga úr sókn í fiskistofna og fækka skipum. Óhætt er að fullyrða að með kerfinu hafi náðst fram veruleg hagræðing. Á síðustu tuttugu árum hefur skipum fækkað um 18 % og togurum hefur fækkað úr 91 í 57. Samkeppni milli fyrirtækja um fiskinn í sjónum hefur gert það að verkum að mikið hefur verið um samruna og sameiningar. Hagræðing hefur reyndar orðið það mikil að ef fiskveiðar á Íslandi eru bornar saman við fiskveiðar hinna Norðurlandaþjóðanna er hagkvæmni mest á Íslandi. Verðmæta­sköpun hvers sjómanns á Íslandi er þannig um 900.000 NOK á ári sem er um 50% meira en verðmætasköpun á norskan, danskan eða færeyskan sjómann (Markeds- og verdikjedeanalyse). Á hinum Norðurlöndunum eru líka meiri skil á milli veiða og vinnslu en hér á landi. Misjafnt er hér hvort fiskvinnslur reki útgerð og hvort útgerðir reki fiskvinnslur. Ef litið er til 10 stærstu kvótahafana sem hafa yfirráð yfir um 50% úthlutaðs kvóta þá starfrækja þau fyrirtæki bæði útgerð og fiskvinnslu. Hér á landi er þannig almennt meiri samhæfing á milli veiða og vinnslu. Að mati margra hefur þetta leitt til meiri gæða, en krafan um að vel sé farið með það takmarkaða magn fisks sem fyrirtækin hafa fjárfest í skiptir líka miklu og á sinn þátt í framförum í gæðamálum.

Kvótakerfið hefur verið umdeilt og hafa núverandi stjórnvöld lýst því yfir að þau ætli að gera á því umtalsverðar breytingar. Töluverð óvissa ríkir þannig um hvernig staðið skuli að stjórn fiskveiða sem dregur úr athafnamætti greinarinnar og gerir þeim er stunda útgerð erfitt um vik við að gera áætlanir til langs tíma.

Mynd 4 – Hlutdeild fiskveiða og fiskiðnaðar af heildarvinnuafli 1901-2010. Heimild: Hagstofan.

Eins og sést á mynd 4, hefur hlutfall þeirra er starfa við fiskveiðar og fiskvinnslu af vinnuafli fyrir landið allt hæst verið um 20%. Mikilvægi greinarinnar hefur minnst verið á höfuðborgarsvæðinu, en mörg svæði hafa treyst mikið á þessar atvinnugreinar í tengslum við atvinnusköpun. Á þeim áratugum sem liðnir eru frá því að kvótakerfið var sett á hefur störfum er tengjast veiðum og vinnslu fækkað verulega. Kemur þar aðallega til hagræðing í greininni og aukin tæknivæðing, en þar sem áður þurfti margar hendur eins og t.d. í tengslum við síldarvinnslu sjá öflugar vélar nú um alla vinnuna. Ekki verður annað séð en að áfram muni þörf eftir vinnuafli í einhæf störf tengd fiskiðnaði dragast saman. Árið 1983 störfuðu rúmlega 10.000 í fiskvinnslu og 5.800 við fiskveiðar. Árið 2010 störfuðu aftur á móti samkvæmt tölum frá Hagstofunni um 5000 manns við fiskveiðar og 3600 við fiskiðnað. Samanlagt er hlutdeild fiskveiða og fiskiðnaðar 5,2% af störfum á vinnumarkaði.

Tekjur af útflutningi sjávarafurða hafa lengi verið afar mikilvægar fyrir þjóðarbúið. Verðmæti útflutnings nam 220,5 milljörðum króna 2010 og jókst um 5,7% á gengi hvors árs miðað við árið 2009. Aukinn útflutningur á loðnu og makríl skýrir að mestu þessa aukningu, en samdráttur var aftur á móti í útflutningi á síld og þorski. Hlutdeild sjávarafurða í vöruútflutningi nam 39,3%. Útflutningur á botnfiski vó þyngst og var 23,4% af heildarvöruútflutningi en var 26,9% árið 2009. Þorskur er mikilvægasta tegundin ef litið er til verðmæta og nam verðmætið 72,5 milljörðum króna. Þær tegundir sem komu á eftir voru síld með 20,7 milljarða króna, ýsa 19,2 milljarða og karfi 16,5 milljarðar króna.

Fiskveiðar á heimsvísu

Íslensk sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki geta ekki treyst á lítinn heimamarkað þegar kemur að sölu á afurðum, en ætla má að velta á innanlandsmarkaði sé um 5 milljarðar króna. Nánast allar afurðir eru fluttar út. Eftirspurn eftir sjávarfangi frá Íslandi ræðst m.a. af framboði á heimsmarkaði. Síðustu ár hefur heimsaflinn að mestu staðið í stað og verið í kringum 90 milljónir tonna. Vöxtur hefur allur meira og minna komið í gegnum aukningu í eldi sem árið 2010 nam 55,7 milljónum tonna.

Víða er stjórnun veiða í ólestri. Vannýttum stofnum og hóflega nýttum stofnum hefur á síðustu árum fækkað samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Áætlað er að um 52% af helstu fiskistofnum heims í hafinu séu fullnýttir eða séu að skila af sér hámarksafrakstri með tilliti til sjálfbærni stofna. Að mati stofnunarinnar eru svo 32% stofna ofnýttir, eða í alvarlegu ástandi og 1% stofna er að jafna sig eftir slíka ofveiði. Aðeins 15% fiskistofna í hafinu eru vannýttir eða hóflega nýttir að mati stofnunarinnar.

Í ljósi þess að ástand margra fiskistofna er slæmt má ætla að litlar breytingar verði á veiðum í heim­inum á næstu árum. Þó gætu falist tækifæri í því að taka upp markvissari fiskveiðistjórnun þar sem það á við, minnka kapphlaup um fiskinn og auka afrakstur fiskistofna og nýtingu þeirra.

Mest veiddu fisktegundirnar í heiminum eru ansjósa, Alaskaufsi, síld, túnfiskur og makríll. Fimmtán mestu fiskveiðiþjóðir heims veiða um 70% heimsaflans, í tonnum talið, og voru þær árið 2008 eftirfarandi í réttri röð: Kína, Perú, Indónesía Bandaríkin, Japan, Indland, Chile, Rússland, Filippseyjar, Myanmar, Taíland, Noregur, Víetnam, Suður- Kórea og Mexíkó. 25-30% af þeim fiski sem veiðist fer í fóður sem notað er í landbúnaði eða fiskeldi. Unnið er að því að minnka þessa hlutdeild og tryggja að stærri hluti fari til manneldis. Stöðugt er verið er að þróa fóður fyrir fiskeldi og draga úr vægi fiskiprótíns. Einnig geta legið tækifæri neðar í fæðukeðju hafsins og að veiðar verði þróaðar á lífverum sem ekki þykja fýsilegar til manneldis, en gætu hentað í fóður fyrir eldi.

Ríki Evrópusambandsins eru stærsti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir, en viðskipti við þessar þjóðir skila 66% af útflutningstekjum sjávarútvegs. Neysla á fiskmeti á þessum markaði nemur um 10,5 milljónum tonna og er að aukast, en fyrir 20 árum nam neyslan rúmlega 8 milljónum tonna á ári. Á þessum tíma hafa veiðar flestra Evrópuþjóða verið að dragast saman. Í upphafi þessa tímabils námu þær um 8 milljónum tonna, en eru nú um 5,5 milljónir tonna.

Rússar, Norðmenn og Íslendingar eru stærstu fiskveiðþjóðir í Evrópu og keppa um hylli neytenda á Evrópu­markaði. Íslendingar höfðu lengi afar sterka stöðu í sölu á helstu botnfisktegundum, en Rússar og Norðmenn hafa á síðustu árum verið að styrkja verulega stöðu sína á þeim mörkuðum. Á meðan Íslendingar hafa dregið úr veiðum á þorski hafa Rússar og Norðmenn verið að auka veiðar og styrkja stöðu sína.

Mynd 5 – Þróun veiða og eldis í heiminum 1950-2010 (í milljónum tonna). Heimild: FAO.

Tækifæri og áskoranir

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru öflug og hafa verið dugleg við að leita uppi ný tækifæri. Hér hefur byggst upp þekking á útgerð þar sem kröfur um útsjónarsemi og sveigjanleika eru miklar.

Íslendingar eru líka í hópi þeirra þjóða heims sem þykja hafa staðið sig vel við stjórn fiskveiða og nú virðist sem greinin sé að uppskera laun erfiðisins, en allt bendir til þess að þorskstofninn sé að styrkjast verulega. Tækifæri geta falist í því að miðla þessari þekkingu til þjóða þar sem afrakstur af fiskveiðum hefur verið takmarkaður vegna ómarkvissrar stýringar. Mikil verðmæti geta falist í betri stjórn veiða og aukinni áherslu á hagkvæmni. Margar þjóðir glíma við offjárfestingu í sjávarútvegi of mikilla sóknargetu og sóknarþunga fiskiskipaflota. Íslendingar hafa markvisst unnið að því að draga úr offjárfestingu og sóknarþunga og geta því miðlað af reynslu sinni í þeim efnum. Einnig geta Íslendingar lagt til tækni- og vinnsluþekkingu er gæti gagnast þjóðum þar sem sjávarútvegur er vanþróaður.

Mynd 6 – Helstu fiskveiðiþjóðir Evrópu 2008 – Magn þús. tonna. Heimild: FAO.

Mynd 7 – Helstu samkeppnisþjóðir Íslands – Veiðar á þorski og ýsu. Heimild: Groundfish Forum.

Það er eðli fyrirtækja að vilja vaxa, en eins og staðan er þá er nokkuð erfitt að sjá hvar vaxtamöguleikar liggja hjá íslenskum fyrirtækjum í sjávarútvegi og fisvinnslu. Þó samstarf þessara fyrirtækja við tæknifyrirtækin hafi verið mikið og átt mikinn þátt í því að þróa vörur og styrkja tæknifyrirtækin, þá er athyglisvert að lítið hefur verið um fjárfestingar í formi hlutafjár. Nokkrum fjármunum hefur aftur á móti verið varið í tengslum við fiskeldi með misgóðum árangri og einnig eru nokkur sjávarútvegsfyrirtæki hluthafar í líftæknifyrirtækjum. Einn möguleiki sem nefndur hefur verið er sá að flytja inn hráefni að utan til að vinna í íslenskum fiskvinnslum, en um nokkurra ára skeið hefur það verið gert í rækjuiðnaði.

Nokkur útgerðarfyrirtæki hafa reynt að færa út kvíarnar og stunda útgerð á alþjóðavettvangi. Reynslan hefur verið misjöfn, en nokkrir aðilar hafa náð mjög góðum árangri. Eitt stærsta sjávarútvegsyrirtæki landsins, Samherji, er í þessum hóp, 70% af starfsemi fyrirtækisins tengist nú erlendri starfsemi. Nokkrir aðilar í útgerð hafa gert út á makríl víð strendur Afríku. Þegar best lét í þessum veiðum má ætla að heildarveiði skipa í eigu íslenskra útgerðaraðila hafi verið um 200.000 tonn. Veiði hefur aftur á móti verið fremur dræm á síðasta ári og er nú áætlað að veiðar á ári geti verið í kringum 60.000 tonn.

Miðað við allar ytri aðstæður er ekkert sem bendir til annars en að íslenskur sjávarútvegur geti eflst og styrkst á næstu árum. Sjávarútvegurinn nýtur þess að verð á sjávarafurðum er fremur hátt og gengi krónunnar er útflutningsatvinnuvegum fremur hagfellt. Það skilar sér í hærra afurðaverði til framleiðenda. Á móti kemur að vísu að erlendar skuldir eru háar og verð á innfluttum aðföngum hækkar og er olía væntanlega sá kostnaðarliður sem vegur þyngst. Eitt af verkefnum þeirra er stýra sjávarútvegi hér á landi hlýtur að vera að draga sem mest úr olíunotkun og leita nýrra orkugjafa.

Útrás Samherja skilar sér til íslensks þjóðarbús

Samherji sendi nýverið frá sér upplýsingar um viðskipti fyrirtækisins við íslenskt atvinnulíf.  Þær upplýsingar gefa góða mynd af því hvernig öflugt fyrirtæki í sjávarútvegi, sem bæði starfar hér og erlendis, getur haft margvísleg jákvæð áhrif á atvinnulíf.  Sem dæmi er nefnt að um 200 íslensk fyrirtæki hafi átt viðskipti við þýska félagið DFFU sem er að hluta í eigu Samherja.  Í þessum efnum sést hve vel heppnuð útrás Samherja getur skilað fyrir íslenskt atvinnulíf og þjóðarbúið allt.  Íslensk iðnfyrirtæki seldu erlendum fyrirtækjum í eigu Samherja búnað og þjónustu fyrir röskar 900 milljónir króna á árinu 2010.

Ekki er útlit fyrir annað en að eftirspurn eftir sjávarafurðum frá Íslandi eigi eftir að vera mikil þó vissulega geti aukið framboð af afurðum frá t.d. Noregi og Rússlandi haft áhrif. Einnig getur samkeppni frá afurðum úr fiskeldi og öðrum fæðutegundum haft sitt að segja á helstu útflutningsmörkuðum. Við veiðar á villtum tegundum er óvissan meiri en í eldi eða ræktun. Kostnaður við að sækja fiskinn getur sveiflast verulega til og erfitt getur reynst að tryggja stöðugleika í framboði. Í eldi og ræktun er líka auðveldara að tryggja stöðluð gæði og stýra framboði.

Óvissuþættir eru líka fjölmargir er kemur að styrk hinna ólíku fiskistofna. Oft getur reynst erfitt að segja nákvæmlega fyrir um þróun og nýtingu þeirra. Þorskstofninn er sá stofn sem mest hefur verið rannsakaður og er hann að mati fiskifræðinga að styrkjast. Vísindamenn hafa einnig ágæta innsýn og þekkingu á ýsu, síld, loðnu og humar, en þekking á minni stofnum sérstaklega flatfiskstofnum er ekki nægjanlega góð. Almennt má segja að efla þurfi verulega rannsóknir á flestum fiskistofnum til að tryggja að hægt sé að ná fram hámarksafrakstri þeirra og draga úr óvissu. Á allt of mörgum sviðum skortir á þekkingu. Með aukinni þekkingu á samspili ólíkra þátta í náttúrunni eykst geta manna til að spá fyrir um þá þróun sem getur orðið sem gerir okkur síðan kleift að mæta þeim breytingum.

Mynd 8 – 20 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins árið 2010. Heimild: Frjáls verslun.

 

Grímur kokkur í ýsuútrás

Grímur kokkur í Vestmannaeyjum hefur hafið útflutning á fiskréttum frá Vestmannaeyjum til Færeyja.  Grímur Gíslason einn eigenda Gríms kokks segir útflutninginn fara rólega af stað en hann hafi gengið ágætlega.

Fyrirtækið hafi lagt kapp á að uppfylla allar alþjóðlegar gæðakröfur og nú sé allt til reiðu að auka enn frekar vinnslu á fiski í Eyjum og skapa þannig aukin verðmæti og störf.   Áhugi er á vörum fyrirtækisins, eins og ýsuréttum, í Noregi og víðar.

Hjá Grími kokki starfa 15 manns.

Almennt virðast vísindamenn á því að nú séu óvenju miklar breytingar í hafinu og á lífríki þess. Í sumum af þessum breytingum felst ógn, en einnig fylgja þeim ný tækifæri. Breytingar á hitastigi sjávar og fæðuframboð eru væntanlega meginorsök þess að makríll fór skyndilega að veiðast innan íslenskrar lögsögu í miklu mæli sem var góð búbót fyrir útgerðarmenn. Í Íslenska síldarstofninum sem virtist í góðu ástandi fór aftur á móti að gæta sýkingar sem hafði töluverð áhrif á nýtingu stofnsins. Veiði á loðnu hefur verið að glæðast, en ýmsir stofnar eru aftur á móti að dala má þar nefna ýsustofninn, stofna flatfiska, karfa og grálúðu. Eins og fyrr segir geta breytingar á umhverfisaðstæðum haft mikil áhrifa. Breytingar á veðurfari geta t.d. haft áhrif, en vaxandi gróðurhúsaáhrif geta leitt til breytinga á aðstreymi sjávar til hafsvæðanna í grennd við Ísland. Slíkar breytingar geta haft áhrif á hitastig þeirra og afrakstursgetu fiskistofna.

Ekki er ólíklegt að í framtíðinni muni þróun veiðarfæra gera mönnum kleift að standa enn markvissar en fyrr að veiðum, en með betri veiðarfærum eða veiðiaðferðum verður reynt að tryggja að magn meðafla minnki og að veiðarfærin hafi sem minnst áhrif á umhverfið. Einnig verður reynt að þróa veiðarfæri sem tryggja enn betur að rétt tegund veiðist og fiskur af réttri stærð.

Rétt eins og veiðar Íslendinga hafa verið að þróast frá því að nýta nánast einvörðungu botnfisktegundir til þess að nýta krabbadýr, flatfiska og uppsjávartegundir má ætla að á næstu áratugum eigi eftir að opnast leiðir til að fara dýpra í fæðukeðjuna og nýta með einhverjum hætti þann gríðarlega lífmassa sem er í hafinu í kringum Ísland. Þannig er hugsanlega hægt að auka nýtingu á hefðbundnum fiskistofnum til manneldis, en tryggja um leið að aukinni eftirspurn eftir fæðu í fiskeldi sé mætt. Fyrirtækið Aker BioMarine sem er í eigu norska útgerðarmannsins Kjell Inger Rokke hefur einmitt tekið skref í þessa átt, en fyrir nokkrum árum hófu skip á vegum fyrirtækisins veiðar á Suður-heimskautssvæðinu á Arctic krill, eða ljósátu, sem er lítið krabbadýr sem líkist rækju. Leyft hefur verið að veiða 4 milljónir tonna á ári úr þessum stofni, en aðeins hefur u.þ.b. 20% af kvótanum verið nýttur. Vísindamenn deila nokkuð um stofnstærð en nefndar eru tölur á bilinu 100-500 milljónir tonna þannig að nokkuð svigrúm virðist þarna fyrir hendi. Þess má geta að íslenska fyrirtækið Ensímtækni vann á tímabili að rannsóknum er tengdust þróun og vinnslu á próteinkljúfum úr ljósátu í samstarfi við breska fyrirtækið Phairson Medical Ltd.

Þegar kemur að framþróun í íslenskri fiskvinnslu hlýtur þróunin áfram að vera í átt til aukinnar fullvinnslu. Fullnýting á fiskinum er skref í þá átt að fá fram meiri framlegð út úr því magni sem við erum nú þegar að veiða. Þannig hlýtur það að vera framtíðarmarkmið að allt úr fisknum sé nýtt og engu hent. Í þeim efnum þurfa Íslendingar að reyna komast eins langt og hægt er með tilliti til fjarlægðar frá mörkuðum og tækniþróunar í flutningum.

Eins og stendur er erfitt að sjá að flókin vinnsla á tilbúnum réttum fyrir smásöluverslanir erlendis sé möguleg, en fyrir útsjónarsama frumkvöðla sem eru metnaðarfullir og geta skapað sér sérstöðu er alltaf hægt að finna leið. Grímur kokkur í Vestmannaeyjum hefur t.d. hafið útflutning á tilbúnum fiskréttum og íslensk fyrirtæki eru einnig að pakka vörum fyrir M&S og Tesco, en þá er í raun ekki verið að tala um fulla máltíð heldur einungis fiskhlutann. Líklegast er þó að unnið verði að því að komast lengra í þróun á iðnaðarvörum í dýrari kantinum og staðlaðri gæðavöru fyrir veitingahúsamarkaðinn.

Meira og minna er verið að tala um frystivöru, en aukið verðmæti liggur í kælivörum, þar liggur meiri virðisauki. Erfiðara er að skapa sérstöðu með frystivöru sem mun því verðlega alltaf vera í lægri kantinum. Íslenskir framleiðendur þurfa í enn ríkara mæli að fikra sig inn á markað með kælivöru. Breytingar á tollaumhverfi gætu einnig orðið til að létta Íslendingum róðurinn varðandi það að auka virði sjávarafurða. Um leið og hægt er að bæta við fiskinn öðru hráefni án þess að borga hærri tolla eykst virðisaukinn.

Spyrja má hvort einhver tækifæri geti legið í veiðum á vannýttum tegundum. Þannig nefndi einn viðmælenda skýrsluhöfunda ígulker og einnig var talað um nýtingu á krabbategundum. Grjótkrabbi (Cancer irroratus) hefur t.d. náð fótfestu við Ísland og veiðist víða við Vesturland. Enn einn landneminn sem lítt hefur verið rannsakaður er flundra (Platichthys flesus) sem er orðin útbreidd við allt Suður- og Vesturland og á Vestfjörðum, en fiskurinn heldur sig fyrst og fremst í árósum.

(kafli úr skýrslu sjávarklasans)

The fisheries sector has been regarded as one of the corner­stones of the Icelandic economic sector for quite some time. According to the national accounts, however, the direct contribution from fisheries and fish processing to the GDP has only been 7–10% over the past few years. At present, the sector employs around 8,600 people or approximately 5% of Iceland’s workforce (Statistics Iceland, 2011). These statistics do not accord with the alleged fundamental role of the fisheries sector in the Icelandic economy. As a result, it could be tempting to assume that the fisheries sector’s role as the foundation of the Icelandic economy has had its day, but is this in fact so? Do these statistics provide a realistic view of the importance of the fisheries sector in the Icelandic economy?

It has long been obvious that the economic effects of the fisheries industry in Iceland are much greater than as easured directly in the national accounts. Ragnar Arnason and Sveinn Agnarsson (2005) pointed out that the fisheries  sector is a base industry sector and that its total contribution to GDP was higher than its direct contribution, according to the national accounts. They prepared a statistical assessment of these overall effects that indicated that they could be between 25% and 35% of GDP. Reports issued by Statistics Iceland “Sjávarútvegur sem grunnatvinnuvegur” (2003) (The fisheries industry as a base industry) and “Hlutur sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum” (2007) (Share of the fisheries sector in the national economy) discussed similar issues and are generally in agreement. Comparable measurements of the economic importance of the fisheries sector in Newfoundland (Roy et al 2009), moreover, also point to the same conclusions.