Staða tæknifyrirtækja í sjávarútvegi

Nýlegar fréttir af gjaldþroti Skagans3X hafa beint sjónum að stöðu íslenskra tæknifyrirtækja, sem sinna sjávarútvegi og matvælagreinum um allan heim. En hver er staða íslenskra tæknifyrirtækja á þessu sviði? Er þörf á frekari uppstokkun eða áherslubreytingum fyrirtækjanna? Um það verður fjallað í þessari greiningu Sjávarklasans.

Sækja greinina

Sjávarklasinn hefur fylgst með þróun tæknifyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi um árabil. Um leið og bjartsýni hefur ríkt um eftirspurn eftir tæknibúnaði tengdum matvælaiðnaði hefur iðnaðurinn staðið fyrir mörgum áskorunum síðustu misseri sem hafa reynt á þolrifin. Aðfangakostnaður og innlendur kostnaður hafa hækkað umtalsvert, COVID og Úkraínustríðið hafa sett strik í reikninginn og skattur á norskan fiskeldisiðnað hafði sitt að segja.

Velta eykst en ekki hagnaður

Tæknifyrirtæki í sjávarútvegi eru hér skilgreind sem fyrirtæki sem bjóða vörur, hugbúnað eða þjónustu, sem þau hafa þróað, fyrir innlendan og/eða erlendan markað. Hér er um að ræða tæplega 50 fyrirtæki en sum þeirra eru einungis með part af sinni veltu sem snýr að sjávarútvegi. Í þessari úttekt Sjávarklasans voru 20 stærstu fyrirtækin skoðuð og flest þeirra eru með bróðurpart veltu sinnar sem tengist sjávarútvegi.

Gjaldþrot Skagans3X er alls ekki til vitnis um að erfiðleikar séu ríkjandi hjá mörgum tæknifyrirtækjum. Þó eru margar áskoranir sem fyrirtækin hafa staðið frammi fyrir.  Sjávarklasinn aflaði upplýsinga um afkomu 15 af þeim 20 fyrirtækjum árið 2023, sem skoðuð voru, og er veltuaukningin hjá þessum fyrirtækjum á milli áranna 2022-2023 um 25%. Ef undan er skilinn samruni fyrirtækja þá fer veltuaukningin niður í 22%. Það er því góð eftirspurn eftir íslenskri tækni. Þrátt fyrir þessa veltuaukningu hefur hagnaður af veltu minnkað. Hagnaður af veltu árið 2023 var 4,25% en var árið áður 6% og ívið meiri árið áður. Í einhverjum tilfellum má rekja minni hagnað  fyrirtækjanna til þess að þótt pantanabækur hafi verið góðar, þá reyndust kostnaðarhækkanir mun meiri en ráð var fyrir gert og því voru verkefnin rekin með minni framlegð. Þannig var skrifað undir samninga um sölu tækjabúnaðar árið 2021 eða 2022 og afhending átti að vera ári eða tveimur árum síðar en á þeim tíma höfðu kostnaðarhækkanir verið mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Að mati þeirra starfsmanna fyrirtækjanna, sem rætt hefur verið við, hefur röð atburða undanfarin ár haft mikið að segja um að afburðatækni, sem mörg fyrirtækin bjóða upp á, hefur ekki náð enn meiri útbreiðslu. Röð atburða; Covid, Úkraínustríðið og óvissa sem ríkt hefur um efnahags- og peningamál hafi leitt til þess að samningar, sem voru langt komnir, hafa frestast. 

Í öðrum tilfellum datt eftirspurn alveg niður hjá norskum fiskeldisfyrirtækjum á síðasta ári sem hafði í för með sér verulegan samdrátt í veltu hjá fyrirtækjum sem sinntu þeim geira. Fyrirtæki, sem hafa sinnt uppbyggingu eldisstöðva hérlendis og þjóna eldisfyrirtækjum á heimsvísu hafa þó mörg hver náð hvað bestum árangri á síðustu misserum.

Kauphegðun neytenda í Bandaríkjunum eftir COVID breyttist umtalsvert. Árið 2019 voru hefðbundnar matvöruverslanir með tæplega 40 prósent af sölu kældra sjávarafurða, en árið 2023 var sú tala komin niður í 36,8 prósent.  Covid hafði þau áhrif að sala matvæla fór meira á netið, stafrænar lausnir komu fram og heimsendingar jukust. Töluverð aukning varð í sölu sjávarafurða í ódýrari stómörkuðum þar sem verð réð meiru en gæði og um leið virðast neytendur leita að ódýrari prótínum í matvöru.

Í nýlegri skýrslu Rabobank er svipaða sögu að segja. Bankinn telur að óvissa í efnahagsmálum hafi dregið kraft úr sjávarútvegi.  Kostnaður hefur aukist en ráðstöfunartekjur heimilanna ekki að sama skapi. 

Skaginn3X

Sjávarklasinn hefur um árabil bent á mikilvægi þess að tæknifyrirtækin styrki undirstöður sínar með því að sameinast. Nú gerðist það hins vegar að sameinað fyrirtæki Skagans og 3X varð gjaldþrota. Skaginn3X, sem var eitt stærsta innlenda fyrirtækið sem tengist sjávarútvegi og var með einstaka stöðu til að bjóða breitt vöruframboð og heildstæðar lausnir, missti fótanna! 

Margt hafði verið fært til betri vegar með nýjum stjórnendum Skagans3X á síðustu 18 mánuðum en svo virðist sem frágangur sölu meirihluta fyrirtækisins til Baader fyrir þann tíma  hafi verið á þann veg að upp komu ýmis mál sem erfitt var að kljást við eftir á. Pantanabækur  fyrirtækisins litu ágætlega út að sögn starfsmanna þess og í undirbúningi voru tilboð í stór verkefni. Að einhverju leyti rákust á þýsk og íslensk sölu- og stjórnunarhefð en þó voru í flestum tilfellum þeir agnúar leystir. Eftir stóð ágreiningur milli eigenda sem reyndist fyrirtækinu erfiður ljár í þúfu.

Farsæl sala á Skaganum3X getur skipt verulegu máli fyrir íslenskar tæknilausnir. Vel má vera að vel gangi að selja Skagann3X í heild sinni en fari svo að fyrirtækið verði selt í pörtum er hætta á veikari samkeppnisstöðu íslenska geirans á tilteknum sviðum. Með Skaganum3X fer aðili sem var í sterkri samkeppnisstöðu við erlend félög um heildstæð verkefni í kringum uppsjávarvinnslu og einnig mögulega stærri verkefni fyrir landeldið.

Enginn örvæntingartónn en tækifæri til að gera betur

Viðskiptavinir tæknifyrirtækjanna hafa um nokkurt skeið leitað helst eftir leiðum til að auka sjálfvirkni, bæta kælingu og fækka starfsfólki. Þessir þættir verða áfram í forgrunni eftirspurnar og því er ekki þörf fyrir íslensku tæknifyrirtækin að örvænta.  En nýjar kröfur hafa orðið meira áberandi undanfarin ár; lægra kolefnisspor, rekjanleiki, öryggi- og velferð sjómanna, minni orku- og vatnsnotkun, betri nýting hliðarafurða og vottun á öllum stigum. Í veiðunum er það sama uppi á teningnum; upplýsingar til kaupenda um hvar er veitt, hver veiðir, hvað er í netunum, hvernig fara veiðarfærin með lífríkið, hvernig er séð til þess að meðafli sé sem minnstur, kolefnisspor veiðanna … og svona mætti áfram telja.

Hvernig standa íslensku fyrirtækin að vígi á þessu nýja sviði? Stóru fyrirtækin eins og Marel og Hampiðjan hafa tekið mikið af þessum nýjum áskorunum upp á sína arma. Fjölmargir sprotar hafa jafnframt komið fram hérlendis sem eru að fást við margar af þessum nýju áskorunum; sprotar sem þróað hafa öryggisbúnað fyrir sjómenn, gagnavinnslu, ný veiðarfæri, siglingakerfi sem draga úr kolefnisspori og auka öryggi, stjórnunarkerfi fiskveiða og þjálfun starfsfólks, svo eitthvað sé nefnt.  Eru ráðsett fyrirtæki í tæknigreinum og þessir nýju sprotar að tala nóg saman? Við teljum að enn séu tækifæri til að gera betur í þeim efnum og að þessi hópur komi sterkar fram sem ein heild á markaði. Að minnsta kosti þarf að kynna betur hvernig Ísland getur boðið ótrúlega fjölbreytta þjónustu við að leysa þær áskoranir sem matvælagreinar um allan heim standa frammi fyrir, ekki síst sjávarútvegur.

 Ljóst er að áherslur í matvælaiðnaði eru að breytast hratt. Styrkur íslensku fyrirtækjanna hefur m.a. eins og áður sagði falist í háþróuðum lausnum i frumvinnslu- og vinnslulínum, kælingu og skurðtækni og veiðitækni. Í þessum efnum eiga Íslendingar mörg þau framsæknustu fyrirtæki heims eins og Marel og Hampiðjuna. Þau svið, sem hér eru nefnd, eru vissulega lykilþættir í vinnslu en eftirspurnin breytist hratt.

Aukin áhersla á sjálfbærni og umhverfismál, minni sóun hjá neytendum, veitingastöðum og verslunum, rekjanleika og nýtingu gervigreindar til að þjóna m.a. auknum kröfum neytenda eru nokkrar sjáanlegar breytingar sem eru að verða á eftirspurnarhliðinni.  Þá eru einnig áberandi “nýjar” tegundir próteina; matvæli unnin úr plöntum (til dæmis korni, belgjurtum og hnetum), sveppum (sveppum), þörungum, skordýrum og jafnvel ræktuðu (lab-ræktuðu) kjöti. Þessar nýju áherslur hafa leitt til þess að fjárfesting í nýsköpun og rannsóknum hefur aukist umtalsvert en meðalstór tæknifyrirtæki og sprotar hafa átt í erfiðleikum með að fjármagna þær dýru fjárfestingar í þekkingu og búnaði, sem til þarf. Þarna liggur ein helsta áskorun hins tiltölulega stóra hóps meðalstórra íslenskra tæknifyrirtækja.

Fleiri tugir tæknisprota í alþjóðlega matvælageiranum með háar hugmyndir hafa notið mikillar hylli fjárfesta um allan heim.  Enn fleiri gera það þó ekki. Enginn íslenskur matvælatæknisproti hefur náð umtalsverðri athygli af þessu tagi utan Íslands. Ljóst er að margir þessara alþjóðlegu sprota munu líklega ekki ná þeim háleitu markmiðum, sem þeir hafa sett sér, en aðrir munu án efa vaxa hratt og vera partur af þeirri byltingu sem er að verða í matvælageiranum.

Vera kann að fullyrða megi að nýir trendar í matvælageiranum, sem á undan eru nefndir, séu allt annars eðlis en sú frumvinnsla sem við byggjum á en samtenging nýrra- og fyrirliggjandi tæknigreina er þó líkleg á komandi árum. Þau rótgrónu fyrirtæki sem ná ekki að þróast með breytingunum eða tengjast þeim kunna að sitja eftir; vera föst í hefðbundnum vélsmiðjurekstri! Vel má vera að ein ástæða þess að sum tæknifyrirtæki í frumvinnslu hérlendis geti setið eftir er að alþjóðlegur sjávarútvegur, sem þau sinna mest, er íhaldssamari en aðrar matvælagreinar. Þó verður að minna á að sú tækniþróun, sem varð hérlendis í tengslum við fiskvinnslu í kringum aldamótin varð fyrirmynd tæknibreytinga í öðrum vinnslum eins og kjúklingi.

Sameiningar og yfirtökur

Þrátt fyrir gjaldþrot sameinaðs fyrirtækis Skagans3X er það enn sannfæring Sjávarklasans að sameiningar tæknifyrirtækja þurfi að halda áfram. Það er klárlega styrkur fyrir lítið land að nefna megi hátt í 50 innlend tæknifyrirtæki sem sinni innlendum og erlendum sjávarútvegs- og matvælafyrirtækjum.  En ætli mörg þeirra að hasla sér völl utan Íslands og ná að vera samkeppnishæf á alþjóðlegum mörkuðum er sameining þeirra við önnur innlend eða erlend fyrirtæki leið sem rétt er að skoða. Þá þarf líka fjármálastofnanir sem eru reiðubúnar til að koma að slíkum sameiningum.

Fjölbreytt vöruframboð fyrirtækjanna og þjónusta við fleiri matvælagreinar getur treyst rekstrargrunn þeirra. Kannski er einmitt á tímum eins og þessum, þar sem óviss ríkir, getur stuðlað að auknum áhuga og skilningi á kostum sameiningar  og yfirtöku – eða að minnsta kosti aukins samstarfs.

Sameining og möguleg yfirtaka á áhugaverðum tæknisprotum og víkkun starfsemi yfir í fleiri matvælagreinar en sjávarútveg eru þær leiðir sem líklegast verður að telja að geti styrkt íslensk tæknifyrirtæki sem tengjast alþjóðlegum matvælaiðnaði.

Bjart framundan í matvælageiranum!

Þegar horft er lengra fram á við spáir Alþjóðabankinn að innlend eftirspurn eftir sjávarfangi muni aukast samfara hægfara bata. Allar spár, sem Sjávarklasinn hefur rekist á, benda til þess að bjart sé framundan í matvælageiranum á komandi árum; mikil þörf verði fyrir tækni sem eykur skilvirkni og bæti gæði, bæði fyrir umhverfið og neytendur. Þarna standa íslensku fyrirtækin vel að vígi.

Á næstu árum verður mikil eftirspurn eftir íslensku skurðartækninni , vinnslulínum, stafrænum lausnum og háþróuðu kælitækninni, sem bætir gæði vöru og eykur geymsluþol. Í samtölum við tæknifyrirtækin kom fram að á síðustu mánuðum hafi komið töluverður kippur í pantanir og því eru horfur góðar.

Áherslur íslensku tæknifyrirtækjanna á sjálfbærni, orkusparnað og minni vatnsnotkun munu eiga mikið erindi á markaðnum.  Spurningin er hvort í markaðssetningu þeirra sé klókara að sameinast meira innbyrðis og um leið horfa til sameiningar við áhugaverða sprota á nýjum sviðum. Fyrirtækin geta verið sterkari saman en að starfa í sundur. Sjávarklasinn mun halda áfram að hvetja til aukins samstarfs og samruna á þessu sviði.

Fyrir frekari upplýsingar, vinsamlegast hafið samband við höfund; Þór Sigfússon:  thor@sjavarklasinn.is