Samvinna fyrirtækja innan Sjávarklasans hefur nú leitt til áhugaverðrar lausnar sem getur bætt verðmæti sjávarafurða í fátækustu löndum heims. Í þróunarlöndunum misferst eða skemmist stór hluti af afla strandveiðimanna, aðallega vegna skorts á kælingu og þar af leiðandi tapast mikil verðmæti fisksins. Fyrirtækin Mannvit, Haustak og Samey tóku sig saman árið 2013, stofnuðu Ocean Excellence ehf. og hófu þróunarvinnu á þessu sviði.
Nú hefur fyrirtækið komið fram með sólardrifna varmadælu til kælingar á saltvatni sem hægt er að koma fyrir í einföldu plastkari. Verkefnið hefur hlotið styrk úr Samstarfssjóði utanríkisráðuneytisins við atvinnulíf um heimsmarkmið. Klasaverkefni geta stuðlað að bættum lífsgæðum í þróunarlöndunum.