Íslenski sjávarklasinn veitir á hverju ári sérstakar viðurkenningar til fólks eða fyrirtækja sem eflt hefur fyrir samstarf innan klasans. Að þessu sinni eru fjórar viðurkenningar veittar. Þeir sem hljóta viðurkenningarnar eiga það sameiginlegt að hafa stuðlað að öflugra samstarfi fólks innan sjávarklasans á Íslandi og stuðlað að aukinni verðmætasköpun í því frumkvöðlasamfélagi sem hefur verið til staðar í Húsi sjávarklasans.
Það sem einkennir fyrst og fremst þá sem hljóta viðurkenningarnar að þessu sinni, er að þessir aðilar hafa hver á sinn hátt leitt margháttað samstarf sem eflt hefur frumkvöðlasamfélagið innan Sjávarklasans.
Í fyrsta lagi fær starfsfólk Matís viðurkenningu fyrir öflugt samstarf við fjölmörg frumkvöðlafyrirtæki innan Sjávarklasans. Sú þekking sem starfsfólk Matís hefur upp á að bjóða og sú velvild sem þessir sérfræðingar hafa sýnt mörgum frumkvöðlum hefur verið til mikillar fyrirmyndar. Forysta Matís hefur sýnt hversu mikilvægt samstarf rannsókna og frumkvöðlastarfsemi er.
Í öðru lagi fá þau hjónin Linda Björk Ólafsdóttir og Bogi Þór Siguroddsson fjárfestar viðurkenningu fyrir að taka virkan þátt í uppbyggingu frumkvöðlafyrirtækja í Húsi sjávarklasans. Þátttaka og þekking þeirra í starfi frumkvöðlafyrirtækjanna hefur reynst þessum fyrirtækjum ómetanleg hvetur vonandi fleiri fjárfesta til þess að taka með afgerandi þátt í uppbyggingu frumkvöðlafyrirtækja.
Í þriðja lagi hlýtur félagið Konur í sjávarútvegi viðurkenningu fyrir að stuðla að auknu samstarfi kvenna innan sjávarútvegs og auka umræðuna um mikilvægi fjölbreytni til þess að auka verðmætasköpun. Konur í sjávarútvegi var stofnað í Sjávarklasanum og ánægjulegt er að sjá þann kraft sem einkennt hefur starf þessa félags.
Í fjórða lagi hlýtur Bala Kamallakharan stofnandi Startup Iceland viðurkenningu fyrir óþrjótandi áhuga á að tengja saman frumkvöðla innan Sjávarklasans. Bala hefur komið að fjölda verkefna innan klasans og tengt frumkvöðla við alþjóðlegt startup umhverfi og fjárfesta.
Frekari upplýsingar veita Þór Sigfússon eða Berta Daníelsdóttir í síma 5776200.