Íslenski sjávarklasinn hefur að undanförnu staðið fyrir kynningum á sjávarútvegi og sjávarklasanum á Íslandi fyrir nemendur í 10. bekk í grunnskólum landsins. Verkefnið hóf göngu sína síðastliðinn vetur en þá voru haldnar 30 kynningar í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, á Suðurnesjunum og í Vestmannaeyjum. Í vetur bættust svo í hópinn grunnskólar í Reykjavík. Haldnar voru tæplega 30 kynningar á höfuðborgarsvæðinu fyrir áramót og áhugi skólanna er mikill svo haldið hefur verið áfram með kynningarnar nú á nýju ári og munu þær standa fram á vor. Alls hafa kynningarnar náð til rúmlega tvö þúsund nemenda á þessum tæpum tveim árum og fengið frábær viðbrögð frá nemendum sem hafa verið afar jákvæðir og áhugasamir.
„Við nálgumst kynninguna á líflegan máta, erum dugleg að brjóta upp með bröndurum og virkja nemendur með spurningum tengdum sjávarútveginum. Þegar nemendur heyra að þau séu að fá kynningu um íslenskan sjávarútveg vita þau ekki við hverju skal búast og við fáum því oft að heyra frá þeim í lok kynningar hversu áhugavert og skemmtilegt þeim fannst að fræðast um allan sjávarklasann og hve margt hafi í raun komið þeim á óvart,“ segir Heiðdís Skarphéðinsdóttir, verkefnastjóri hjá Íslenska sjávarklasanum sem hefur haft veg og vanda að kynningunum ásamt þeim Sigfúsi Guðmundssyni og Páli Ásgeiri Torfasyni.
Verkefnið er liður í átaki Íslenska sjávarklasans sem miðar að því að efla vitund og vekja áhuga á sjávarútveginum og tengdum greinum hjá nemendum á bæði grunn- og framhaldsskólastigi. Kynningin samanstendur af stuttu ágripi af sögu fiskveiða hér á landi, sérstöðu Íslands í sjávarútvegi, helstu fiskitegundum og kynningu á ýmsum afurðum og fjölbreyttum framleiðsluaðferðum sjávarklasans. Sagt er frá því hvernig sjávarútvegur og fiskvinnsla nútímans er hátækniiðnaður og augu nemenda opnuð fyrir því hve fjölbreyttur sjávarútvegurinn er orðinn og hve margar starfstéttir tengjast öllum þeim ólíku vörum og afurðum sem rekja má til hafsins. Þá er nemendum bent á beinar og óbeinar námsleiðir tengdar greininni á framhalds- og háskólastigi.
Nemendum gefst að lokum tækifæri til að sjá og handfjatla fjölda ólíkra afurða sem framleiddar eru ú aukaafurðum fisksins. „Fæstir gera sér grein fyrir hve margar vörur eru framleiddar úr aukaafurðum hér á landi, allt frá þurrkuðum þorskhausum yfir í snyrtivörur, krem og fiskileður sem unnið er úr fiskiroði og stór tískuvörurfyrirtæki úti í heimi kaupa og nota í vörur sínar. Markmiðið er því að opna augu nemenda fyrir því hversu víðtæk áhrif sjávarklasinn hefur á okkar samfélag og hversu spennandi grein hann í raun og veru er,“ segir Heiðdís að lokum.
Kynningarnar eru skólunum að kostnaðarlausu en Tryggingamiðstöðin og Landssamband íslenskra útvegsmanna styrkja verkefnið.