Fjöldi nýrra verkefna eru í farvatninu hjá fyrirtækjum í húsinu um þessar mundir. Nú í upphafi sumars er upplagt að segja frá helstu tíðindum.
Á fimmtudaginn næsta mun Ankra kynna nýjustu vörurnar í FEEL ICELAND vörulínu sinni. Vörurnar eru AGE REWIND Skin Therapy og Be Kind AGE REWIND. AGE REWIND Skin Therapy eru hylki (töflur) sem innihalda kollagen úr fiskiroði, Hyaluronic sýru og C-vítamín. Hylkin eru ætluð til inntöku og vinna að bættu útliti og áferð húðarinnar. Be Kind AGE REWIND er húðserum sem inniheldur kollagen úr þorskroði, ensím úr þorski sem framleidd eru af Zymetech og Hyaluronic sýru. Vörurnar verða kynntar á Madison Ilmhús við Aðalstræti 9, þann 4. júní næstkomandi kl. 17-19 og eru allir velkomnir.
Um helgina sagði RÚV svo frá áformum Margildis, sem er með aðsetur í einu af frumkvöðlasetrum hússins líkt og Ankra, um að reisa lýsisverksmiðju á Austfjörðum á næstu misserum. Margildi þróar nú nýjar aðferðir til að vinna lýsi og firusýrur til manneldis úr loðnu, síld og makríl, og hyggst þannig auka þau verðmæti sem skapa má úr þessum tegundum. Afar spennandi verður að fylgjast með framþróun verkefnisins á næstu misserum en áætlað er að lýsisverksmiðjan verði fjárfesting upp á um 3,5 milljarða króna og störf þar verði 50-60.
Við hjá Íslenska sjávarklasanum viljum líka bjóða starfsmenn Codlands, þá Davíð Tómas Davíðsson og Tómas Þór Eiríksson, nýráðinn framkvæmdastjóra félagsins, velkomna í húsið. Codland er nýjasti leigjandinn í húsinu en með komu þess má segja að Codland snúi aftur heim, en það var upphaflega til húsa hér enda eitt af afsprengjum Íslenska sjávarklasans.
Í lok þessarar viku má svo búast við því að Bergsson RE, nýr veitingastaður í Húsi sjávarklasans, fái rekstrarleyfi og dyrnar munu því vonandi standa opnar næstu helgi þegar Hátíð hafsins og Fiskisúpudagurinn (laugardag) fer fram með fjölbreyttri dagskrá hér úti á Granda og við Gömlu höfnina. Fylgjast má með Hátíða hafsins og skoða dagskrá hátíðarinnar hér.