Útgerðin er nýtt íslenskt hönnunarfyrirtæki sem hefur það að markmiði að bjóða fallega hönnun sem skírskotar til íslensks sjávarútvegs og sögu hans. Vörumerki Útgerðarinnar heitir Iceland Ocean Fisheries en nafnið kemur frá Iceland Fisheries sem var bresk-íslensk útgerð sem stofnuð var í Vestmannaeyjum rétt um aldamótin 1900.
Halldóra Vífilsdóttir arkitekt hannaði fyrstu fatalínu fyrirtækisins sem nú kemur út, en línan samanstendur af skyrtum og bolum fyrir börn á aldrinum 4-14 ára. Þetta er fatnaður fyrir flotta krakka sem láta ekkert stoppa sig, síst af öllu veðrið. Vinnufatnaður íslenskra sjómanna var innblásturinn við hönnunina en hann verður að vera vandaður, endingargóður og í skærum litum. Fatalína Iceland Ocean Fisheries sækir í þessi einkenni vinnufatnaðar íslenskra sjómanna, fötin eru vönduð, úr góðum efnum og hinn sterk-appelsínuguli litur er áberandi.
Þessar fyrstu vörur Útgerðarinnar eru seldar í Epal og Englabörnum. Útgerðin hefur aðsetur í Húsi sjávarklasans við Reykjavíkurhöfn.
Nánari upplýsingar veitir Halldóra Vífilsdóttir í síma 895 1555.