Í hádeginu í dag kom saman fjölbreyttur hópur fólks úr matvælageiranum og ræddi hugmyndir um stofnun klasa um nýsköpun og vöxt í matvælageiranum á Íslandi. Hópurinn spannaði vítt svið, þannig komu fulltrúar frá fyrirtækjum sem eiga meira en 100 ára sögu, yfir í nýstofnuð og framsækin matvælafyrirtæki á fyrstu stigum framleiðslu og allt þar á milli. Matarklasinn er fyrst og fremst hugsaður sem vettvangur til að keyra áfram ný verkefni tengd nýsköpun, vöruþróun og vöruhönnun og stofna ný fyrirtæki með samvinnu.
Á fundinum var stofnun samstarfsvettvangs rædd með það að markmiði að stuðla að framþróun og nýsköpun hjá þeim fyrirtækjum sem koma að matargeiranum á Íslandi. Til stendur að tengja saman þekkingu, reynslu, fjármagn og nýsköpun og leiða saman fólk með ólíkan bakrunn, meðal annars með það að markmiði að skapa íslenskum matvælum meira rými á erlendum mörkuðum. Þá á að efla markaðssetningarstarf íslenskra framleiðenda og tengja matvælageirann frekar við ýmsar skapandi greinar og hönnun. Mun það starf nýtast jafnt innanlands sem og utan, en áformað er að huga sérstaklega á möguleika til vaxtar og útflutnings.
Óhætt er að segja að góð stemning hafi myndast á fundinum þar sem svo breið flóra fólks með ríkan áhuga á mat og matarmenningu kom saman og ræddi fjölbreytt tækifæri framtíðar í þessari skemmtilegu atvinnugrein.
Þórdís Jóna Sigurðardóttir hefur stýrt hugmyndavinnu við stofnsetningu Matarklasans í samstarfi við Íslenska sjávarklasann.