Í nýrri greiningu Sjávarklasans er velt upp spurningunni hvernig auka megi fullvinnslu á laxi hérlendis og hvaða þýðingu það geti haft fyrir íslenskt atvinnulíf. Bent er á að Íslendingar hafi náð afgerandi forystu á heimsvísu í nýtingu hliðarafurða á hvítfiski og eðlilegt sé fyrir Íslendinga að nýta íslensku vinnslukeðjuna til að gera hið sama með laxinn.
Í greiningunni er vísað í skoska rannsókn sem leiðir í ljós að auka megi virði skoskra laxaafurða um að minnsta kosti 5,5%. Í þeirri athugun er ekki litið til aukinnar áframvinnslu eins og bitaskurð, framleiðslu hliðarafurða í ýmis heilsuefni, prótín ofl. Tækifærin til verðmætasköpunar eru því mun meiri ef tekst að vinna afurðir úr laxi sem svipuðum hætti og gert hefur verið í hvítfiski.
Nýverið bárust fréttir af því að Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði hefur hafið vinnslu á laxaafurðum sem framleiddar eru af Arnarlaxi og Arctic Fish á Vestfjörðum. Fram kemur í greiningunni að Oddi og Matís eru að skoða ýmsa möguleika til að nýta hliðarafurðir laxins. „Öll virðiskeðjan í íslenskum sjávarútvegi, sem þróast hefur í áranna rás, getur nýst meira eða minna í áframhaldandi vinnu við fullnýtingu aukaafurða úr laxinum,“ segir Þór Sigfússn hjá Sjávarklasanum. „Hér standa Íslendingar mun betur að vígi en ýmis önnur lönd sem aukið hafa fiskeldi á undanförnum árum. Frá því slátrun á sér stað getur öll íslenskan virðiskeðjan nýst til að auka gæði afurða, koma afurðunum sem fyrst á markað og nýta betur þær hliðarafurðir sem til verða.“
Sjávarklasinn telur raunhæft að innan 5-7 ára verði Ísland komið í fremstu röð í þróun á þessu sviði. Til þess þarf að efla rannsóknarsjóðina, rannsóknarstofnanir sem geta lagt grunn að þekkingaröflun á þessu sviði, virkja fjárfesta- og frumkvöðlumhverfið og hvetja eldisfyrirtæki til að setja sér markmið um sérstöðu íslenska laxins og fullnýtingu hans.
Greininguna má lesa í heild sinni hér.